Prófessor Kristín Aðalsteinsdóttir sæmd fálkaorðunni

Kristín hlaut riddarakross fyrir störf á vettvangi menntavísinda.
Ingibjörg Auðunsdóttir og Kristín Aðalsteinsdóttir
Ingibjörg Auðunsdóttir og Kristín Aðalsteinsdóttir

Forseti Íslands sæmdi 14 Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu 1. janúar 2019. Þeirra á meðal var prófessor Kristín Aðalseinsdóttir og fékk hún riddarakross fyrir störf á vettvangi menntavísinda.

Fjór­tán ein­stak­ling­ar hlutu heiðurs­merki hinn­ar ís­lensku fálka­orðu. Ljósmynd: forseti.is

Kristín lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1966 og bætti við sig sérkennaraprófi 1971. Þá hélt hún til Noregs þar sem hún lauk B.A. í sérkennslufræðum við Statens Spesiallærerhögskole í Osló og sérkennslufræði sem aðalfag. Hún lauk M.Ed. í menntunarfræðum við University of Bristol í Bretlandi og einnig Ph.D. í kennslufræði við sama háskóla.

Kristín hefur starfað við Háskólann á Akureyri síðan 1994. Fyrst sem stundakennari, síðan sem fastráðinn sérfræðingur og loks sem deildarforseti kennaradeildar. Kristín var fyrsti kvenprófessorinn við kennaradeild HA og hún var einnig fyrst kvenna til þess að stýra deildinni úr stóli deildarforseta.

Háskólinn á Akureyri óskar Kristínu hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.