Ráðstefnan Löggæsla og samfélagið

Þema ráðstefnunnar í ár er samskipti lögreglu og almennings.
Ráðstefnan Löggæsla og samfélagið

Miðvikudaginn 20. febrúar mun námsbraut í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri standa fyrir ráðstefnunni Löggæsla og samfélagið í annað sinn. Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér en þar geta áhugasamir gengið frá skráningu. Einnig verður hægt að skrá sig á staðnum. Ráðstefnugjaldið er 5.000 krónur (ráðstefnugögn og kaffiveitingar eru innifalin). Nemendur HA fá frítt á ráðstefnuna og þurfa ekki að skrá sig.

Skráning fer fram hér.

Ráðstefnan Löggæsla og samfélagið er vettvangur þar sem fagfólk og fræðimenn reifa málefni sem tengjast löggæslu í víðri merkingu. Þema ráðstefnunnar í ár er samskipti lögreglu og almennings. Sem sýnilegasti armur réttarvörslukerfisins er lögreglan í miklum og margvíslegum samskiptum við almenning. Lögregluliðum á Norðurlöndunum hefur tekist nokkuð vel upp í þessum efnum í alþjóðlegum samanburði og njóta mikils traust, þótt víða megi gera mun betur. Lögreglulið hérlendis sem erlendis standa hins vegar frammi fyrir ýmsum áskorunum hvað varðar samskipti við almenning (s.s. tækninýjungar og örar þjóðfélagsbreytingar) sem vert er að rýna í nánar.

Hér má lesa nánar um lykilfyrirlesara ráðstefnunnar, Anina Schwarzenbach og Ben Bradford, en erindi þeirra endurspegla þema ráðstefnunnar

Á ráðstefnunni í ár verða tuttugu og tvö áhugaverð erindi. Umfjöllunarefnin eru margvísleg, s.s. samskipti lögreglu og borgara, traust innflytjenda til lögreglu, fíkniefnasala á samfélagsmiðlum, áskoranir lögreglustarfsins, samfélagsmiðlar og lögreglan, samskipti þolenda kynferðisbrota við lögreglu, akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna, nefnd um eftirlit með lögreglu o.s.frv.

Ráðstefnan hefst kl. 9 og stendur til kl. 16.30. Erindin verða í stofum N101 og M101, gengið inn um aðalinngang. Ráðstefnan fer fram á íslensku og ensku.

Viðburðinn má finna á Facebook undir nafni ráðstefnunnar og verður ýmsum upplýsingum deilt þar er líður nær ráðstefnunni. Sjá: „Löggæsla og samfélagið - ráðstefna 20. febrúar, 2018“.

Hafið samband við Heiðrúnu Ósk Ólafsdóttur, verkefnastjóra námsbrautar í lögreglufræði, vanti frekari upplýsingar (heidrunosk@unak.is).