Rannsakar bakteríur í fléttum

Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir er vísindamaður mánaðarins
Rannsakar bakteríur í fléttum

Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir, alltaf kölluð Auður, er dósent í líftækni við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Rannsóknir hennar snúa að örverum í náttúrunni, til að mynda á sambýlisbakteríum fléttna og notagildi þeirra í tengslum við umhverfislíftækni.

Rannsóknir Auðar

Fléttur eru þekktar sem sambýli sveppa og ljóstillífandi lífvera, ýmist grænþörunga eða blábaktería. Þessar lífverur mynda fléttu, harðgert sambýli, sem oft er að finna á svæðum þar sem gróður á erfitt uppdráttar - t.d. á nýju hrauni. Fléttur eru mjög fjölbreyttar að lit og í lögun og á Íslandi finnast yfir 750 tegundir. Innan fléttanna er einnig stórt og fjölbreytt samfélag ljósóháðra baktería sem Auður rannsakaði í sinni doktorsrannsókn. Meðal þess sem hún skoðaði var hvaða bakteríutegundir finnast í fléttum, hvert hlutverk þeirra er, hvernig þær dreifast innan fléttunnar og hvort bakteríurnar séu raunverulegur hluti af sambýlinu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að innan fléttna finnast fjölbreyttar bakteríutegundir og eru þær mjög mikilvægur hluti fléttusambýlisins. Bakteríurnar koma m.a. við sögu í upptöku á ólífrænum næringarefnum og taka þátt í næringaröflun með niðurbroti á fjölliðum. Niðurstöður doktorsrannsóknarinnar bentu einnig til þess að plöntusýklar finnist í fléttusambýlinu og leiddu þær niðurstöður til áframhaldandi rannsókna Auðar.

Meðal yfirstandandi rannsóknaverkefna sem Auður er hluti af er verkefnið Skapa fléttur valþrýsting fyrir þróun Pseudomonas syringae í vistgerðum Norðurslóða, en um er að ræða samstarfsverkefni HA, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskólans í Birmingham, og frönsku landbúnaðar- og umhverfisrannsóknastofnunarinnar INRAE.

Hvaðan er Auður?

Auður er fædd árið 1982 á Egilsstöðum og ólst upp á sveitabænum Þingmúla í Skriðdal með annan fótinn, en hinn fótinn á heimavist í grunnskólanum á Hallormsstað. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum vorið 2003 og flutti þá um haustið til Akureyrar þar sem hún hóf nám í líftækni við HA. Hún lauk BS-prófi í líftækni frá Háskólanum á Akureyri árið 2007 og MS-prófi í auðlindafræði, með áherslu á líftækni frá sama skóla árið 2009. Auður lauk doktorsprófi í lífræði frá Háskóla Íslands árið 2016 og hefur starfað við Háskólann á Akureyri frá árinu 2016.

Þessi umfjöllun er hluti af kynningu á Vísindafólkið okkar - sjá umfjöllun á Instagram