Rannsakar þunglyndiseinkenni hjá íþróttafólki

Richard Eirikur Taehtinen er vísindamaður mánaðarins
Rannsakar þunglyndiseinkenni hjá íþróttafólki

Richard Eirikur Taehtinen er lektor í sálfræði við Sálfræðideild Háskólans á Akureyri. Rannsóknir hans snúa að andlegri heilsu íþróttafólks.  

Rannsóknir Richards hafa hingað til að mestu leyti snúist um þunglyndiseinkenni hjá íþróttafólki. Aðalástæðan fyrir áhuga hans á því viðfangsefni er sú að þunglyndi tengist að miklu leyti lífskjörum og lífsgæðum sem hafa svo áhrif á virkni fólks í samfélaginu heilt yfir.

Mörg einkenni þunglyndis vega einnig þungt hvað varðar frammistöðu íþróttafólks. Þar má nefna svefn eða svefnleysi, næringartengd vandamál og skort á einbeitingu. Þessi einkenni spila svo inn í sálarlíf íþróttafólksins og geta komið fram t.d. í neikvæðum skapsveiflum, minna sjálfsáliti og áhugaleysi. „Þar sem ég hef sjálfur upplifað bæði upp- og niðursveiflur sem íþróttamaður og þjálfari, þá finnst mér að töluvert meira þurfi að gera til að auka skilning á og sýna fram á mikilvægi andlegrar heilsu hjá íþróttafólki,“ segir Richard.

Mikil þörf á frekari rannsóknum á sviði íþróttasálfræðinnar

Doktorsverkefni Richards fjallaði um þunglyndiseinkenni meðal íþróttafólks. Hann byrjaði á að skoða rannsóknir á kerfisbundinn hátt til þess að gera samantekt á rannsóknum á þunglyndi hjá íþróttafólki. Þær rannsóknir voru 157 talsins og framkvæmdar á árunum 1987 til 2019. Flestar rannsóknanna eru mjög nýlegar; 70% af þeim voru birtar eftir 2013, sem segir okkur að lítil áhersla hefur verið lögð á rannsóknir á þessu sviði. Þetta undirstrikar hversu litla athygli þunglyndi og rannsóknir á því meðal íþróttafólks hafa fengið síðustu ár.

Heilt yfir sýndu niðurstöður rannsókna Richards að þreyta og slappleiki séu algengustu þunglyndiseinkennin hjá íþróttafólki. Einnig kom í ljós að meðal þess íþróttafólks sem sýndi hvað mest einkenni þunglyndis upplifðu 40% hvorki skapvonsku né áhugaleysi hjá sér, sem eru þó aðaleinkenni þunglyndis.

Einnig kom fram að íþróttafólk sem festist í neikvæðum hugsunum er líklegra til að upplifa þunglyndiseinkenni yfir tíma, sérstaklega þegar það er undir miklu álagi.

„Það er mikil þörf á frekari rannsóknum á þessu sviði. Jafnframt er aðkallandi að miðla núverandi þekkingu til almennings. Þannig getum við fundið leiðir til þess að efla markvisst andlega heilsu íþróttafólks, sérstaklega afreksíþróttafólks,“ segir Richard.

Hvað ertu að fást við þessa dagana?

Þessa dagana er Richard að kenna námskeið í klínískri sálfræði við Sálfræðideild Háskólans á Akureyri og að undirbúa næstu skref í rannsókninni sinni. Einnig er hann að leggja grunn að nýju námskeiði í rannsóknatengdu meistaranámi við deildina. Námskeiðið mun falla um íþróttasálfræði með sérstakri áherslu á andlega heilsu íþróttafólks.

Ásamt því að starfa sem lektor við Háskólann á Akureyri veitir Richard sálfræðiráðgjöf fyrir íþróttasamstök og einstaklinga innan þeirra. Þá starfar hann fyrir íslenska kvennalandsliðið í íshokkí sem er um þessar mundir að undirbúa sig fyrir undankeppni Ólympíuleikanna. „Ég virkilega nýt þess að starfa bæði í akademíunni og á gólfinu vegna þess að það styður hvort annað mjög vel,” segir Richard.

Hvaðan er Richard? 

Richard er fæddur árið 1981 í Svíþjóð en ólst upp í Finnlandi. Hann flutti til Íslands árið 2008 til þess að þjálfa íshokkí. Hann lauk BA-prófi í Coaching and Sport Management frá Linnaeus háskólanum í Svíþjóð árið 2007, BS-prófi í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2013 og MSc-prófi í klínískri sálfræði frá sama háskóla árið 2017. Richard lauk doktorsprófi í Íþróttasálfræði frá Liverpool John Moores háskólanum árið 2021. Hann hefur starfað við Háskólann á Akureyri frá árinu 2020.

Þessi umfjöllun er hluti af kynningu á Vísindafólkið okkar - sjá umfjöllun á Instagram