Rannsókn á lífi fjölskyldufólks á tímum COVID-19

Tveir rannsakendur við Háskólann á Akureyri leggja af stað með rannsókn á lífi fjölskyldufólks á tímum COVID-19.
Rannsókn á lífi fjölskyldufólks á tímum COVID-19

Andrea Hjálmsdóttir félagsfræðingur og lektor við hug- og félagsvísindasvið HA og Valgerður S. Bjarnadóttir menntunarfræðingur og nýdoktor við hug- og félagsvísindasvið HA rannsaka nú líf fjölskyldufólks á tímum COVID-19. 

Markmið rannsóknarinnar er að skoða áhrif COVID-19 faraldursins á heimilislíf, heimilisstörf og barnauppeldi. Það er auðvitað ljóst að skerðingar á leik- og grunnskólastarfi, lokanir framhaldsskóla, háskóla og vinnustaða, auk breytinga á ýmiss konar þjónustu og starfsöryggi fólks hefur víðtæk áhrif á okkar daglega líf. Þessu fylgja talsverðar breytingar á heimilislífi og hlutverkum fólks sem Andrea og Valgerður vilja gjarnan kortleggja meðan á þeim stendur. Þátttaka í rannsókninni felur í sér að skrá með einföldum hætti hversu miklum tíma er varið á degi hverjum í tiltekin verkefni. Auk þess munu þátttakendur vera beðnir um að skrá niður hugleiðingar sínar um þennan veruleika og breytingar á daglegu lífi. 

Aðspurðar að því hvenær þær ákváðu að leggjast í verkefnið: ,,Við höfum báðar lengi haft mikinn áhuga á jafnréttis- og fjölskyldumálum og ekki síst samspili kynjajafnréttis, starfa og einkalífs. Andrea hefur komið að rannsóknum á verkaskiptingu á heimilum og styttingu vinnuvikunnar, sem er góður grunnur fyrir þessa rannsókn. Þegar ljóst var að þessi faraldur væri að hellast yfir okkur á Íslandi og ljóst að tilvera fjölskyldufólks færi á hvolf, ekki síst í kjölfar samkomubanns og skerðingar á skólastarfi ákváðum við að reyna að finna leið til að kortleggja þennan veruleika að einhverju leyti og hvaða áhrif þetta allt saman hefði á líf fjölskyldufólks. Við höfum ekki fengið langan tíma til undirbúnings og það má segja að við séum að stefna að einhverskonar rauntíma kortlagningu á síbreytilegum félagslegum veruleika fjölskyldufólks''. 

Óskað er eftir þátttöku frá einstaklingum sem eru hluti af allskonar fjölskyldum með börn undir 18 ára aldri. Rannsakendur vonast til að fá bæði karla og konur til að taka þátt í rannsókninni og vonandi fólk með fjölbreyttan bakgrunn og í fjölbreyttum aðstæðum. ,,Von okkar er sú að við fáum sem flesta þátttakendur og náum þannig að einhverju leyti að kortleggja og varpa ljósi á félagslegan veruleika fjölskyldufólks á tímum sem þessum þar sem foreldrar þurfa margir hverjir að endurskipuleggja líf sitt og daglega rútínu og halda fleiri eða öðrum boltum á lofti en hingað til.'' segja þær Andrea og Valgerður. 

Rannsakendur leit enn að þátttakendum og geta áhugasamir haft samband við þær Andreu (andrea@unak.is) og Valgerði [valgerdur@unak.is].