Sjónrænt síðdegi

Teikniáhugi tendraður og gerður að báli!
Sjónrænt síðdegi

Barnabókasetur Háskólans á Akureyri stóð fyrir listasmiðju á Barnamenningarhátíð Akureyrar í tengslum við myndlistarsýninguna „Þetta vilja börnin sjá“ sem nýverið var opnuð í Hofi. Um samstarfsverkefni með Menningarfélagi Akureyrar er að ræða og styrkt af Akureyrabæ.

Í listasmiðjunni fengu börn og unglingar tækifæri til að spreyta sig á listsköpun undir áhrifum sýningarinnar sem samanstendur af myndum úr nýjum barnabókum eftir 19 myndhöfunda. Bergrún Íris Sævarsdóttir er einn af myndhöfundunum 19. Hún fjallaði á barnvænan hátt um gildi myndlistar í barnabókum og mun í kjölfarið halda námskeið í myndskreytingum þar sem teikniáhuginn verður tendraður og gerður að báli!

Bergrún hefur sérstakt lag á að vinna með börnum á öllum aldri og hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða. Á námskeiðinu fór hún með krökkunum í stórskemmtilegt ferðalag um ævintýraheim bókagerðar en unnið var með styrkleika og stíl hvers barns.

Á sjónrænu síðdegi var athyglinni einnig beint að myndrænni sköpun með aðstoð tækninnar því á sama tíma og listasmiðjan var í gangi voru myndbönd grunnskólanemenda um barna- og unglingabækur til sýnis.Myndböndin eru afrakstur Siljunnar, myndbandasamkeppni Barnabókaseturs.