Stúdentar einangra DNA úr snjó

Meistaranemar í vettvangsferð
Stúdentar einangra DNA úr snjó

Meistaranemar í námskeiðinu Jarðörverufræði og líftækni á Norðurslóðum fóru í vettvangsferð nú á dögunum upp í Hlíðarfjall í leit að álitlegum sýnatökustað. Nemendurnir æfðu sig í dýptarmælingum og að moka snjógryfjur til að sjá mismunandi lög af snjó. Einnig var tekið kjarnasýni af snjólögum þar sem nemendurnir æfðu sig í slembigervingu við sýnatöku á umhverfissýnum.

Vettvangsferð stúdenta

Sýnataka í krefjandi aðstæðum

„Punkturinn yfir i-ið var svo litla ferða-PCR tækið okkar sem við prófuðum úti í kuldanum. Nemendurnir voru búnir að undirbúa öll möguleg efni og tæki og tól sem við þyrftum að nota við einangrun á DNA úr snjónum svo hægt væri að keyra PCR tækið á sýnatökustað og magna upp erfðaefni baktería í snjó beint á staðnum. Sýnataka var svo æfð og gengið úr skugga um að ferða-PCR tækið ræstist og starfaði við þessar harðneskjulegu aðstæður, en töluvert frost var á staðnum. Æfingin lofar góðu, þannig að rannsakendum við Háskólann á Akureyri er nú fátt að vanbúnaði að stunda rannsóknir sínar í hinni óblíðu náttúru Tröllaskagans,“ Segir Guðný Vala Þorsteinsdóttir, líftækni- og auðlindafræðingur.