Stúdentar kalla á áframhaldandi sveigjanleika

Nám og kennsla í kjölfar heimsfaraldurs var til umræðu á ráðstefnu Gæðaráðs íslenskra háskóla
Stúdentar kalla á áframhaldandi sveigjanleika

Rafræn ráðstefna Gæðaráðs íslenskra háskóla fór fram í byrjun mars. Þema ráðstefnunnar í ár var nám og kennsla í kjölfar heimsfaraldurs.

COVID-19 hefur flýtt fyrir þróun á rafrænu námi á Íslandi sem og annars staðar í heiminum og geta háskólar dregið ýmsan lærdóm af tímabilinu. Á ráðstefnunni gafst háskólafólki tækifæri til að hittast, deila sérþekkingu sinni og læra af jafningjum sínum um mismunandi leiðir til að skipuleggja og tryggja gæði menntunar í rafrænu formi. Tilgangur og markmið ráðstefnunnar var ekki einungis að heyra reynslusögur, heldur taldi gæðaráð mikilvægt að bera kennsl á góða starfshætti sem hægt er að nota, viðhalda og þróa eftir að heimsfaraldrinum lýkur. Þannig er hægt að efla fræðslu og nám, hvort heldur sem um er að ræða nám á netinu, á staðnum eða með blönduðum aðferðum.

Áberandi áhugi á áframhaldandi sveigjanleika í háskólanámi

Fulltrúar stúdenta frá Háskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands, Háskólanum á Bifröst og Listaháskóla Íslands ásamt forseta Landssamtaka íslenskra stúdenta tóku þátt í pallborðsumræðum þar sem áhersla var lögð á upplifun stúdenta. Leitað var svara við því hvernig stúdentar sjái fyrir sér framhaldið eftir COVID-19 þegar kemur að námi og kennslu.

Í umræðum stúdenta var áberandi vilji og áhugi fyrir áframahaldandi aukningu sveigjanleika í háskólanámi. Þá voru allir fulltrúar stúdenta á einu máli um að stærsta áskorunin væri að tryggja gæði náms og kennslu. 


Steinunn Alda Gunnarsdóttir

Í máli Steinunnar Öldu Gunnarsdóttur, fráfarandi formanns Stúdentafélags Háskólans á Akureyri (SHA), kom fram að færsla yfir í algjörlega rafrænt námsfyrirkomulag hafi ekki haft áhrif á nám stúdenta við háskólann heilt yfir. „Háskólinn á Akureyri hefur yfir 20 ára reynslu af fjarnámi sem nú hefur verið þróað í sveigjanlegt námsfyrirkomulag. Það þýðir að kennarar og stúdentar þekkja á kerfin og kunna að vera í fjarnámi, vegna þessa hafði tilfærslan heilt yfir ekki áhrif,“ sagði Steinunn.

Kennarar sáu sér leik á borði

Stærsta áskorunin hafi þó falist í námslotum sem alla jafna eru haldnar reglulega á háskólasvæðinu. Mis vel reyndist að framkvæma þær og þá sérstaklega að finna rafrænar lausnir þegar kemur að verklegri kennslu. Þó hafi verið jákvætt að sjá og heyra af frumkvæði einstaka kennara sem stóðu ekki uppi ráðalausir heldur sáu ýmis tækifæri og leik á borði.

Í mörgum námskeiðum bauðst stúdentum fleiri umræðutímar en ella með kennurum og samnemendum. Stúdentar fögnuðu því sérstaklega og telja mikilvægt að kennarar nýti áfram umræðu- og samtalstíma með sveigjanlegu fyrirkomulagi. Hvort sem að stúdentar stundi nám sitt innan háskólabyggingar eða að heiman.

Áframhaldandi þróun að heimsfaraldri loknum

Þá var sérstaklega rætt um námsmat á ráðstefnunni og áskoranir sem námsmati hefur fylgt í heimsfaraldri. Stúdentar eru á einu máli um að mikilvægt sé að þróa áfram námsmat og kennslu og nýta áfram þær rafrænu lausnir sem í boði eru, einnig þegar ástandinu linnir.

„Það verður ekki aftur snúið og þó svo að við í HA séum vön rafrænum lausnum þá hefur heimsfaraldurinn orðið til þess að fleiri vilja stíga á þann vagn. Þar getum við miðlað af okkar reynslu“, segir Steinunn að lokum.