Umsóknir á pari við metárið í fyrra

Annar stærsti árgangur mun hefja nám við Háskólann á Akureyri á haustmisseri.
Umsóknir á pari við metárið í fyrra

Lokað var fyrir umsóknargátt um skólavist við Háskólann á Akureyri á miðnætti 5. júní. Nokkra daga á undan mátti merkja miklar breytingar í umsóknartölum frá árunum áður og má segja að sprenging hafi orðið í umsóknum síðustu daga.

„Við áttum alveg eins von á færri umsóknum enda búin að gefa út ný viðmið í formi aðgangstakmarkana. En stökkið kom síðustu dagana og nú erum við aðeins nokkrum umsóknum færri en metárið í fyrra,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Vegna mikils fjölda nemenda og til að halda háskólanum innan fjárheimilda þá ákvað yfirstjórn Háskólans á Akureyri í fyrsta sinn í sögu háskólans að takmarka fjölda nýnema skólaárið 2019-2020. Í viðskiptafræði var æskilegum undanförum breytt í nauðsynlega og heilt yfir gátu skil á kynningarbréfi og ferilskrá aukið lýkur á inntöku.

„Stúdentspróf hafði algeran forgang eins og lög segja til um. Markmið Háskólans á Akureyri samkvæmt stefnumótun 2018-2023 er að hafa um 2.500 nemendur en núna verðum við með hátt 2.400 nemendur við skólann. Því markmiði ætluðum við ekki að ná fyrr en eftir fjögur ár. Þessar aðstæður gefa okkur tækifæri til að velja vel úr umsóknum og sækjast eftir fyrirtaks nemendum.Við erum mjög stolt af þeim árangri sem Háskólinn á Akureyri hefur náð og svo virðist sem kennsluformið, sveigjanlega námið, sé það sem framtíðar háskólanemar sækja í,“ bætir Eyjólfur við.

Alls bárust 2.104 umsóknir þar af flestar í viðskiptafræði, eða 348. Næstflestir sóttu um nám í hjúkrunarfræði, eða 302, en þar komast einungis 55 áfram á næsta misseri eftir samkeppnispróf um áramót. Mikil sókn hefur verið í því að fjölga kennaranemum og fjölgun var í umsóknum til kennsluréttinda. Enn fjölgar umsóknum í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn en þar eru einnig haldin samkeppnispróf um áramót og einungis um 50 komast áfram í starfsnámið. Í iðjuþjálfunarfræði var sett nýtt met var sett í umsóknum en það á einnig við um framhaldsnám í heimskautarétti.

„Háskólinn á Akureyri tekur virkan þátt í samstarfi á Norðurslóðum og námið okkar í heimskautarétti er einstakt á heimsvísu. Það er því mikið gleðiefni þegar við verðum vör við eins mikinn áhuga á því námi og nú raun ber vitni,” segir Eyjólfur.

Mikill vinna hefur farið í úrvinnslu umsókna vegna hertra inntökuskilyrða en nú er búið að svara öllum umsækjendum. Á haustmisseri 2019-2020 verður Háskólinn á Akureyri fjölmennur sem aldrei fyrr.