Úr prófakófi

Stuðningur stúdenta í prófatíð HA
Úr prófakófi

Það er eðlilegt að finna fyrir örlitlum kvíða eða streitu tengdum prófum og getur jafnvel verið gagnlegt og hvetjandi. Því þá höldum við einbeitingu og athygli betur í aðstæðum sem reyna meira á okkur en vanalega og mikið liggur við t.d. í prófum.

Mikilvægt er að kunna leiðir til að minnka kvíða sem varir lengur en eðlilegt er, veldur hugarangri og hefur áhrif á líðan og frammistöðu í mikilvægum verkefnum. Kvíði getur haft mjög hamlandi áhrif bæði á líkama og sál. Einkenni prófkvíða geta verið bæði hugræn og líkamleg. Orsakir kvíða geta verið margvíslegar en sameiginlegir þættir eru oft aukið álag, fyrri reynsla, væntingar, viðhorf, ótti við að mistakast, undirbúningur, fullkomnunarárátta & frestun. 

Þeir þættir sem vinna gegn prófkvíða og bæta líðan eru m.a. tímastjórnun og skipulag, hreyfing, næring, hvíld og slökun.  

Námskeið í boði:

 • Moodle kvíðastjórnunar námskeið: Miðstöðin býður upp á netnámskeið um kvíðastjórnun gegn vægu gjaldi. Námskeiðið er aðgengileg í kennslukerfi HA, hægt er að skrá sig  hvenær sem er og taka á eigin hraða. Sjá nánar hér.

Bjargráð

Námsaðstaða:

Skólinn er opinn 7.30-21.30 virka daga og frá kl. 9-17 um helgar. 
Eftir þann tíma er hægt að komast inn í húsnæðið með aðgangskorti við aðalinngang, bókasafn HA og hliðarinngang við Miðborg. Aðgangskortin virka allan sólarhringinn.

Nemendur geta ekki bókað kennslustofur í prófatíð en þeir geta samt sem áður notað þær til lestrar en verða að víkja fyrir þrifum og kennslu.

Í prófatíð (Frá og með 3. desember) hafa kennslusviðin aðgengi að eftirfarandi stofum sem þarf ekki að bóka:

 • Heilbrigðisvísindasvið: M202 og M201
 • Viðskipta- og raunvísindasvið: N201 og M203
 • Hug- og félagsvísindasvið: N202 og L201

Vinsamlegast athugið stofubókanir á upplýsingaskjá. Þar kemur fram hvenær kennslustofurnar eru fráteknar hvern dag.

Við minnum einnig á les- og tölvurými á bókasafni sem opið er allan sólarhringinn með nemendakortum. Vakin skal athygli á því að innsta lesrýmið er hljóðlátt.

Hvíld -hreyfing - slökun

 • Milli 8-16 í prófatíð er hægt að mæta í fundarherbergið hjá Náms- og starfsráðgjöf í slökun.
 • Í HA er ókeypis líkamsrækt sem er opin allan sólarhringinn með aðgangskortinu.
 • Tvisvar sinnum í viku er jóga í boði í líkamsrækt skólans fyrir nemendur og starfsfólk.
  • Þriðjudögum og Fimmtudögum klukkan 11:40.
 • Taka göngutúra, um skólann eða úti.
 • Það er hægt að púzzla á bókasafninu í prófatíðinni.
 • Víða um skólann er hægt að finna sófa þar sem hægt er að hafa það aðeins notalegt í lærdómnum og jafnvel taka sér kríu.

Viltu tala?

Náms- og starfsráðgjafar HA veita stuðning og ráðgjöf. Opnir tímar eru daglega milli kl.13.30-14.30 en einnig er hægt að bóka viðtalstíma á radgjof@unak.is.

Hægt er að bóka fjarviðtal á mjög einfaldan hátt fyrir þá sem það kjósa. Hafðu samband og við festum tíma og sendum þér slóð á zoomviðtal.

Ef þú þarft hvatningu, stuðning, aðstoð við skipulag eða námstækni nú eða bara knús hafðu samband.

Og kannski viltu deila með einhverjum góðum árangri, stolti á eigin getu, litlum eða stórum sigrum þá er líka velkomið að hafa samband. Það má ekki gleyma mikilvægi þess að veita því sem við gerum vel, yfirstígum og áorkum athygli.

Bóka tíma hér

Prófatíð er erfið en hún tekur enda! Mikilvægt er að huga vel að sér bæði andlega og líkamlega. Ýta frá því sem má bíða og minnka alla mögulega streituvalda. Reyna að halda jafnvægi í námi og einkalífi. Gera eitthvað uppbyggilegt daglega. Leita aðstoðar ef kvíði og vanlíðan eykst umfram það sem eðlilegt er.