Velheppnuð vísindavika norðuslóða yfirstaðin

Þetta er í fyrsta skiptið sem ráðstefnan fer alfarið fram á netinu
Velheppnuð vísindavika norðuslóða yfirstaðin

Vísindavika norðurslóða er nú yfirstaðin og heppnaðist hún mjög vel. Háskólinn á Akureyri, Alþjóðlega Norðurskautsvísindanefndin (e. IASC) og Rannís stóðu að skipulagi Vísindavikunnar sem er jafnframt hluti af formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu. Viðburðir hennar fóru fram með öðru sniði en stefnt var að en þeim var eingöngu streymt á netinu þar sem reynsla og þekking Háskólans á Akureyri á því sviði komu sér vel. Yfir 650 þátttakendur frá 28 löndum skráðu sig á ríflega 60 málstofur og fundi, 10 pallborðsumræður og 5 yfirlitserindi. Samræður um sjálfbær samfélög og sameiginlegar áskoranir voru fyrirferðarmiklar í allri dagskránni en meðal þeirra sem tóku til máls voru vísindamenn, sérfræðingar, embættismenn, fulltrúar frumbyggja sem og fulltrúar annarra íbúa á norðurslóðum.

Vöktun og rannsóknir á norðurslóðum

Vísindavikunni lyktaði með málþinginu ‚Arctic Observing Summit‘ (eða AOS), fjögurra daga fundarröð þar sem ýmis málefni vöktunar og gagnasöfnunar á norðurslóðum voru krufin til mergjar. Þó vísindamenn ýmissa þjóðlanda vinni nú þegar hörðum höndum við að safna upplýsingum um umhverfi og lífkerfi norðurslóða þá vantar enn upp á að slíkar aðgerðir séu samræmdar og að þau gögn sem þegar hefur verið safnað séu aðgengileg öllum til að vinna úr. Eitt meginmarkmið AOS er því að leiða saman fólk sem kemur að rannsóknum og stefnumótum í málefnum norðurslóða í þeirri viðleitni að samhæfa viðbrögð og aðgerðir á alþjóðavísu og auka skilning á breytingum á norðurslóðum.

Umhverfis- og auðlindaráðherra Íslands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, flutti opnunarávarp AOS síðastliðinn miðvikudag og minnti á að þótt heimsfaraldur sé ofarlega á baugi þessa dagana og kalli á snör viðbrögð, þá hafi ekki dregið úr mikilvægi þess að bregðast við loftslagsvánni sem komi okkur öllum við. Undir það tók mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, sem flutti lokaávarpið á fundi AOS: „Kastljós heimsins hefur beinst að loftslagsmálum og mikilvægi norðurslóða á síðustu misserum en nú vofir einnig yfir okkur önnur sameiginleg ógn, afleiðingar COVID-19 á bæði heilsu okkar og efnahag. Það sem helst mun tryggja árangur þeirra aðgerða sem þjóðir heims grípa nú til vegna þeirra áskorana eru náin samvinna og áhersla á vöktun og miðlun vísindalegra gagna,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir í lokaávarpi sínu síðastliðinn fimmtudag. Þá nýtti ráðherra jafnframt tækifærið til að kynna alþjóðlegan fund vísindamálaráðherra um rannsóknasamstarf á norðurslóðum sem Ísland og Japan standa sameiginlega að í nóvember nk. Í aðdraganda þess fundar, sem fara mun fram í Tókýó, er lögð áhersla á að virkja vísindasamfélagið og íbúa á norðurslóðum til að fá fram þeirra sýn og sjónarmið sem geta nýst við mótun stefnu og aðgerða stjórnvalda.

Skrifstofa á IASC á Akureyri til ársins 2026 undir nýrri forystu

Ein stærstu tíðindi síðustu daga fyrir norðurslóðasamfélagið á Akureyri voru þó án efa þau að Mennta- og menningarmálaráðuneytið tilkynnti ákvörðun sína um að framlengja stuðning sinn við skrifstofu Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (e. International Arctic Science Committee, eða IASC) á Akureyri til ársins 2026. Þá hefur Gerlis Fugmann verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC). Hún hefur víðtæka starfsreynslu, hefur tekið þátt í rannsóknarstarfi á norðurslóðum í meira en áratug og hefur mikla innsýn í málefni norðurslóða. Hún hefur verið framkvæmdastjóri APECS (Association of Polar Early Career Scientists) síðan 2013, fyrst við UiT (The Arctic University of Norway) í Tromsø og svo við Alfred Wegener Institute (AWI) í Potsdam, Þýskalandi. Háskólinn á Akureyri býður Gerlis velkomna til starfa og þakkar Allen Pope fyrir samstarfið síðastliðin ár og óskar honum velfarnaðar í þeim störfum sem bíða hans.

Háskólinn á Akureyri vill að endingu þakka öllum þeim sem tóku þátt í ráðstefnunni fyrir sitt framlag.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir dagskrá ráðstefnunnar. Þar er einnig að finna hlekki fyrir upptökur og annað efni, fyrir þá sem vilja glöggva sig frekar á efnisskrá Vísindavikunnar og helstu niðurstöðum hennar: