Vísindaskóli í fimm ár

Búið er að opna fyrir skráningu í Vísindaskóla unga fólksins!
Vísindaskóli í fimm ár

Vísindaskóli unga fólksins verður starfræktur dagana 24-28 júní. Þetta er fimmta árið í röð sem Háskólinn á Akureyri býður börnum á aldrinum 11-13 ára upp á fræðslu í áhugaverðum búningi. Færri komust að en vildu í fyrrasumar, en skólinn rúmar um 85 börn.

Undirbúningur er vel á veg kominn en boðið verður upp á fimm ný þemu, sem hafa eftirfarandi heiti: Leikur að kóðum, smáforrit og róbótaforritun, Kynslóðabrúin, Fagur fiskur í sjó, Besta útgáfan af þér, og Fjármálavit – Hvað kostar að vera unglingur.

Vísindaskólinn hefur fengið mikilvægan stuðning frá fjölmörgum aðilum, m.a. Akureyrarbæ, Norðurorku, Samherja og KEA. Sigrún Stefánsdóttir hefur verið skólastjóri Vísindaskólans frá upphafi.

Þetta verkefni er einstaklega skemmtilegt og frá byrjun hefur nærsamfélagið tekið virkan þátt í því að gera skólann áhugaverðan og gefandi fyrir unga fólkið. Við höfum reynt að hafa þátttökugjaldið viðráðanlegt, við veitum systkinaafslátt og þá er líka hægt að nota tómstundastyrk bæjarins til þess að greiða þátttökugjaldið, segir Sigrún.

Kennarar koma víða að. Meðal þeirra sem kenna í ár er Björgvin Páll Gústafsson, landsliðsmaður í handbolta.

Nánar um þemun

Besta útgáfan af þér

Hvernig getur þú verið besta útgáfan af sjálfum þér? Skiptir máli að hreyfa sig, hvíla sig, borða næringarríkan mat og hlúa að andlegri heilsu? Landsliðsmarkvörður í
handbolta miðlar reynslu sinni.

Fagur fiskur í sjó

Fræðst verður um sjómennsku og undur hafsins. Fylgst verður með ferðalagi fisksins úr sjó á disk. Farið verður í heimsókn í ÚA en þar læra nemendur m.a að elda fisk á skemmtilegan hátt með Friðriki V.

Fjármálavit – Hvað kostar að vera unglingur

Flestir unglingar eru mun dýrari í rekstri en þeir telja. Á námskeiðinu verður unnið með verðskyn og kostnaðarvitund þátttakenda. Fræðst verður um peninga og gildi þeirra.

Kynslóðabrúin

Hvernig var lífið hér áður fyrr og hvernig verður það í framtíðinni? Hvað mótar okkur sem einstaklinga? Brugðið verður á leik með Minjasafninu og skyggnst inn í fortíðina.

Leikur að kóðum, smáforrit og róbótaforritun

Hvernig er hægt að nýta forritun og smáforrit í leik og starfi? Nemendur verða kynntir fyrir ýmsum spennandi möguleikum varðandi forritun og fá að búa til sín eigin smáforrit og prófa þau.

Vertu með: Skráning