Vísindaviku norðurslóða ýtt úr vör

Vísindi í þágu sjálfbærra norðurslóða
Vísindaviku norðurslóða ýtt úr vör

Vísindavika norðurslóða var formlega ýtt úr vör síðastliðinn föstudag með opnu málþingi – Vísindi í þágu sjálfbærra norðurslóða (e. Science for a Sustainable Arctic). Yfir 400 þátttakendur víðsvegar um heiminn fylgdust með og tóku virkan þátt í umræðum með því að senda inn spurningar til sérfræðinga í pallborði. Einn yngsti þátttakandinn var sex ára strákur sem býr London og vaknaði upp með móður sinni til að fylgjast með dagskránni. Í málstofu um plastmengun á norðurslóðum sendi hann spurningu til sérfræðinga um hvort það væri meira af plasti á norðurskautssvæðinu en við Suðurskautið. Skýr og mikilvæg spurning hjá sex ára dreng og það er ljóst að von okkar er hjá ungu kynslóðinni sem skilur og spyr réttu spurninganna.

Vísindavikunni er eingöngu streymt á netinu en málþingið allt er aðgengilegt YouTube rás Alþjóðlegu Norðurskautsvísindanefndarinnar. Þar má finna opnunarávarp forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, kveðjur til ráðstefnugesta frá rektor Háskólans á Akureyri, Eyjólfi Guðmundssyni, og sérstakt ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra.

Alþjóðleg vinnustofa nemenda um málefni norðurslóða

Í aðdraganda Vísindavikunnar stóð Háskólinn á Akureyri fyrir alþjóðlegri vinnustofu háskólanema um málefni norðurslóða, í samvinnu við háskólann í Fairbanks, Alaska, og Háskóla Norðurslóða (e. University of the Arctic). Vinnustofan nefnist á ensku Model Arctic Council en þar gefst nemendum kostur á að líkja eftir störfum Norðurskautsráðsins (e. Arctic Council) og vinna í sameiningu að tillögum í átt að sjálfbærari samfélögum og heilbrigðu lífríki á norðurslóðum. Þá hlýddu nemendur einnig á margvísleg gestaerindi, t.a.m. um störf Norðurskautsráðsins og uppbyggingu friðar á Norðurlöndum.

Vinnustofan fór alfarið fram á netinu og voru nemendur sammála um að það hefði verið ánægjuleg og lærdómsrík reynsla – og uppbyggilegt fordæmi fyrir alþjóðlega samvinnu á Norðurslóðum. Skýrsla nemenda og tillögur þeirra verða kynntur fyrir Norðurskautsráðinu, en Ísland tók við formennsku þess á síðasta ári. Hér má sjá nemanda við Háskólann á Akureyri, Jonathan Wood, segja frá reynslu sinni en hann tók þátt í málstofunni Informing Arctic Marine Decision-Making - Science for a Sustainable Arctic síðastliðinn föstudag.

Vísindavikan heldur áfram og stendur til næstkomandi fimmtudags, 2. apríl. Dagskráin er aðgengileg á vefsíðu ráðstefnunnar.

Uppfærslur og lífleg skoðanaskipti er einnig hægt að nálgast á Facebook og Twitter undir myllumerkinu #ASSW2020.