Að láta til sín taka sem stúdent við Háskólann á Akureyri

Í dag fer fram Fullveldishátíð: Dagur stúdenta í Háskólanum á Akureyri. Að því tilefni ritar Sólveig Birna Elísabetardóttir, formaður SHA hugvekju
Að láta til sín taka sem stúdent við Háskólann á Akureyri

Gleðilega hátíð. Dagurinn í dag, fullveldisdagur Íslendinga, er táknrænn fyrir mikilvægan hóp samfélagsins: Stúdenta. Ég hóf nám við Háskólann á Akureyri haustið 2019 og heillaðist strax af því einstaka samfélagi sem hér er. Ég vissi um leið að ég vildi taka virkan þátt í þessu samfélagi og leggja mitt af mörkum til að efla það og styrkja enn frekar. Ári seinna fór ég að sinna hagsmunagæslu stúdenta og setti mér markmið að vera ávallt til staðar fyrir stúdenta háskólans. Sérstaklega fyrir stúdenta sem þurfa á stuðningi að halda þegar kemur að því að leita réttar síns og standa á sínu. Það gaf því auga leið að þegar ég var kosin formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri (SHA) var það mitt leiðarljós – að vera til staðar fyrir ykkur, stúdentar. Ég vil því nota tækifærið hér og nú og þakka ykkur, stúdentum við Háskólann á Akureyri, fyrir að treysta mér og leita til mín þegar eitthvað liggur ykkur á hjarta – því saman getum tekist á við krefjandi verkefni og klifið himinhá fjöll.

Stúdentar eru hjarta háskólans

Án stúdenta væri Háskólinn á Akureyri ekki neitt. Það má því segja að stúdentar háskólans séu hjarta hans – án hjartans væri ekkert líf. Félagslífið við Háskólann á Akureyri er margrómað en eins og í öðrum samfélögum höfðu samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldurs töluverðar áskoranir í för með sér. Við erum þó að vinna okkur út úr þessu aftur og stefnum á enn öflugra og sterkara námssamfélag og einstakt félagslíf. Það eru þó alltaf ófyrirséðar breytingar þegar hrist er hressilega upp í samfélaginu. Í haust þegar Sprellmótið fór fram var fjöldi stúdenta að taka þátt í fyrsta skipti þrátt fyrir að vera stúdentar á þriðja ári. Það má með sanni segja að það hafi verið breyttur bragur yfir mótinu. Fyrir þá sem til þekkja kann þetta að vera mikið sjokk því stúdentafélögin, Stafnbúi og Reki eru allt í einu orðnir vinir og ýmsar hefðir sem voru hér ríkjandi fyrir heimsfaraldur heyra nú sögunni til. Þannig breytast hefðir.

Hlustað á stúdenta

Forsvarsmenn Háskólans á Akureyri eiga hrós skilið fyrir að hlusta á raddir stúdenta og sýna vilja til þess að vinna með stúdentum í stað þess að vinna á móti þeim. Þegar eitthvað bjátar á eða álitamál koma upp þar sem stúdentar eru ekki sáttir og finnst jafnvel á sér brotið getum við verið viss um að traustir verkferlar eru til staðar. Á okkur er hlustað þó svo að allir séu ekki alltaf sammála þá finnum við þó yfirleitt góða niðurstöðu í sátt og samlyndi. Þessi góða undirstaða samskipta forsvarsmanna Háskólans á Akureyri og SHA má ekki glatast. Sérstaklega núna þegar háskólinn stefnir í nýja stefnumótun. Því geri ég fastlega ráð fyrir því að sjónarmið stúdenta verði höfð að leiðarljósi.

Látum til okkar taka

Kæru stúdentar Háskólans á Akureyri. Ég vona svo sannarlega að þið sjáið ykkur hag í því að taka virkan þátt í að mynda, móta og efla einstakt námssamfélag við háskólann okkar. Það gerið þið á fjölbreyttan hátt með því að mæta í lotur, læra saman á „teppinu“, mæta á viðburði SHA og ykkar aðildarfélaga, taka þátt í nefndum og ráðum háskólans og SHA og svo mætti lengi telja. Hér eru tækifærin til staðar og hvet ég ykkur til þess að nýta þau. Í störfum mínum innan SHA hef ég lært svo ótal margt og það er ekki síðri lærdómur en háskólagráðurnar. Þátttaka í stúdentapólitík og hagsmunagæslu stúdenta er frábær og gefandi og einstakur undirbúningur fyrir það sem koma skal.

Ég er stolt af því að leiða Stúdentaráð SHA til góðra verka. Stúdentaráð samanstendur af fjölbreyttum hópi einstaklinga þar sem ólík sýn og skoðanir mætast. Hópurinn stendur þó fyrst og fremst saman af metnaðarfullum einstaklingum sem setja stúdenta í fyrsta sæti. Takk fyrir ykkar óeigingjörnu störf og ég hlakka til áframhaldandi vinnu með ykkur, því við erum bara rétt að byrja.