Áhrif loftslags og veðurfars á örverulífríki fléttna könnuð í nýju verkefni við Auðlindadeild

Verkefnið Engjaskófir og örverulífríki þeirra í hlýnandi loftslagi fór af stað með sýnatöku- og vettvangsrannsóknaferðum í liðnum mánuði
Áhrif loftslags og veðurfars á örverulífríki fléttna könnuð í nýju verkefni við Auðlindadeild

Verkefnið Engjaskófir og örverulífríki þeirra í hlýnandi loftslagi (Dog lichens and their associated microbiota as indicators of climate warming) fór af stað með sýnatöku- og vettvangsrannsóknaferðum í liðnum mánuði. Verkefnið, sem styrkt er af samstarfssjóði Bretlands og Íslands um norðurslóðarannsóknir (United Kingdom – Iceland Arctic Science Partnership Scheme), snýst um að bera saman örverulífríki og efnamengi fléttna af engjaskófarætt í sambærilegum vistgerðum á Íslandi, Skotlandi og Englandi og draga af þeim samanburði ályktanir um áhrif veðurfars og loftslags á sambýlisörverur og efnaframleiðslu í þessum algengu og mikilvægu fléttum.

Verkefnið er unnið undir sameiginlegri stjórn Roberts Jackson, rannsóknaprófessors og sviðsforseta lífvísinda við Háskólann í Birmingham (UoB), og Odds Þórs Vilhelmssonar, prófessors við Auðlindadeild HA. Auk þeirra koma að rannsóknunum dr. Nathan Chrismas, fléttufræðingur við Konunglega grasagarðinn í Edinborg, dr. Auður Sigurbjörnsdóttir, dósent og deildarforseti Duðlindadeildar HA, dr. Diana Vinchira-Villarraga, nýdoktor við UoB, og dr. Natalia Ramírez, doktor í auðlindavísindum frá Auðlindadeild HA.

Í vettvangsferð ágústmánaðar var útbreiðsla nokkurra tegunda af engjaskófum könnuð og sýni tekin til frekari rannsókna á nokkrum stöðum á Norðurlandi, m.a. í nágrenni Akureyrar, í Fjörðum, á Melrakkasléttu og Langanesi. Meðfylgjandi myndir voru teknar við Gil í Hvalvatnsfirði, þar sem sólin lék við rannsakendurna. Í september verður svo farið í sambærilega vettvangsferð í Hálöndum Skotlands og í Kumbaralandi (Cumbria) í norðvestanverðu Englandi.