Fékk 21 milljón úthlutað í rannsóknarstyrk

Rannsakar svæðisbundinn framburð, viðhorf og málbreytingar í rauntíma
Fékk 21 milljón úthlutað í rannsóknarstyrk

Rannsóknarverkefni undir stjórn Finns Friðrikssonar, dósents við Kennaradeild Háskólans á Akureyri, og Ásgríms Angantýssonar, prófessors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, fékk fyrir helgi úthlutað 21 milljón króna í rannsóknarstyrk frá Rannís. Alls nemur styrkurinn 65 milljónum til þriggja ára.

Markmið þessa verkefnis er að kanna hvernig einstaklingar breyta framburði sínum á lífstíð sinni og hvaða áhrif meðvituð og ómeðvituð viðhorf til máls hafa á slíkar málbreytingar. Einstakar fyrirliggjandi upplýsingar um þróun staðbundins hljóðfræðilegs breytileika á Íslandi mynda grunn rannsóknarinnar og henni er ætlað að kortleggja núverandi stöðu svæðisbundinna mállýskna á Íslandi á þann hátt að niðurstöðurnar verði samanburðarhæfar við niðurstöður þriggja fyrri yfirlitsrannsókna af sama toga.

„Við ætlum að skoða hvaða áhrif viðhorf hafa á innra mál einstaklinga með tilliti til svæðisbundinna málvenja og reyna að átta okkur á því hvort og þá hvernig framburður einstaklinganna breytist yfir ævina, um leið og við vonumst til að geta metið stöðu og lífvænleika íslenskra framburðarmállýskna,“ segir Finnur

Verkefnið samanstendur af tveimur meginverkþáttum. Í þeim fyrri verða 3000 þátttakendur á aldrinum 12 til 95 ára um allt land beðnir um að taka þátt í framburðarprófi, að hlusta á upptökur af fólki sem talar aðra mállýsku en þeir tala sjálfir og bregðast við, og að svara spurningalista sem hverfist um viðhorf þeirra til eigin mállýsku. Í síðari hlutanum verða þátttakendur 300 og þar verður einkum horft til fólks sem tók þátt Í RÍN-verkefninu (Rannsókn á íslensku nútímamáli) á 9. áratug síðustu aldar, auk hóps unglinga frá nokkrum mállýskusvæðum, en þeirri viðbót er ætlað að skapa forsendur fyrir áframhaldandi rannsóknir á þessu efni.

„Við erum mjög ánægð með að fá þennan styrk og ég er spenntur fyrir því að hefjast handa með samstarfsfólki mínu og þeim doktors- og framhaldsnemum sem verða ráðnir til verkefnisins og munu vinna lokaritgerðir sínar innan ramma þess,“ segir Finnur Friðriksson, en stefnt er að því að gagnasöfnun hefjist fyrir alvöru um mitt þetta ár, að lokinni nauðsynlegri undirbúningsvinnu.