Grænu kennsluverðlaunin 2022

Verðlaunin veitt í annað sinn
Grænu kennsluverðlaunin 2022

Á mynd frá vinstri: Bjarni Jónasson, Sólveig Zophoníasdóttir, Áskell Örn Kárason, Brynhildur Bjarnadóttir og Sean Michael Scully

Annað árið í röð veitir Umhverfisráð Háskólans á Akureyri Grænu kennsluverðlaunin. Verðlaunin eru veitt kennurum sem hafa tvinnað umhverfisvernd inn í námskeiðin sín. Yvonne Höller, formaður Umhverfisráðs afhenti verðlaunin í ár fyrir hönd ráðsins. Að þessu sinni voru það Sólveig Zophoníasdóttir, aðjúnkt við Kennaradeild og meðumsækjendur hennar Bjarni Jónasson, Áskell Örn Kárason og Brynhildur Bjarnadóttir, annars vegar, og hins vegar Sean Michael Scully, aðjúnkt við Auðlindadeild sem hljóta verðlaunin.  

Líftæknileg örverufræði 

Sean fær verðlaunin fyrir námskeiðið Líftæknilega örverufræði. Í námskeiðinu er fjallað um notkun örvera til að framleiða nytsamleg efni og efnasambönd, allt frá sýklalyfjum og próteinum til lífeldsneytis og virkra lyfjaefna, úr endurnýjanlegu hráefni. Lögð er áhersla á sjálfbæra nýtingu lífmassa sem orkugjafa við örveruræktun í framleiðslu lífrænna lokaafurða. Stúdentar þurfa að takast á við marglaga verkefni sem felst í því að mynda og/eða framleiða nytsamlegar lífsameindir með hjálp heilla frumna eða ensímkerfa.  

Sjálfbærni í öllum námskeiðum

Sólveig, Áskell Örn, Bjarni og Brynhildur fá verðlaun fyrir námskeiðin Nám og starf með upplýsingatækni, Raunvísindi í námi og leik, Siðfræði, hugmyndir og skólar og Þroskakenningar, nemendur og nám. Í námslotum kennaranema á fyrsta ári í kennarafræði er unnið út frá þemanu sjálfbærni í öllum námskeiðum og vinna stúdentar saman í hópum að verkefnum tengdum sjálfbærni undir leiðsögn kennara. 

Við óskum hópnum hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna