Íslensku menntaverðlaunin 2023

Kennaradeild og Miðstöð skólaþróunar (MSHA) standa meðal annarra að verðlaununum
Íslensku menntaverðlaunin 2023

Nú er opið fyrir tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2023!

Embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneyti, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Mennta­vísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Samtök iðnaðarins og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hafa tekið höndum saman um að veita árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Verðlaunin heita Íslensku menntaverðlaunin.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum:

  • A. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
  • B. Framúrskarandi kennari. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
  • C. Framúrskarandi þróunarverkefni. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.
  • D. Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Ein verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar.
  • E. Hvatningarverðalun til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Viðurkenningarráð (sjá hér) velur þrjár til fimm tilnefningar í hverjum flokki til kynningar á alþjóðadegi kennara 5. október. Tillögur um tilnefningar skal senda ráðinu með því að nýta þessi skráningarform:

Einnig má senda tillögur um tilnefningarnar í pósti:

Íslensku menntaverðlaunin
hjá / Ingvar Sigurgeirsson
Sóltún 16
105 Reykjavík
(Merkið umslagið: Íslensku menntaverðlaunin)

Tillögur skulu hafa borist fyrir 1. júní.

Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í nóvember.

Frétt tekin af vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun.