Minning um Ingvar Gíslason

Minning um Ingvar Gíslason

Ingvar Gíslason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést þann 17. ágúst síðastliðinn 96 ára að aldri. Ingvar var brautryðjandi í því starfi að koma á háskólakennslu á Akureyri. Kona Ingvars var Ólöf Auður Erlingsdóttir, fædd 1928, látin 2005.

Ingvar Gíslason átti sæti á Alþingi 1961–1987 sem þingmaður Framsóknarflokksins á Norðurlandi eystra. Tvisvar sinnum lagði hann fram, ásamt meðflutningsmönnum, tillögur á Alþingi um eflingu Akureyrar sem skólabæjar, í fyrra skiptið 1964. Þar með var fyrst komin fram formleg tillaga um stofnun háskóla á Akureyri. Umræða um háskólakennslu á Akureyri var þó ekki ný.  

Ingvar var menntamálaráðherra 1980–1983. Hann skipaði nefnd til að gera tillögur um hvernig efla mætti Akureyri sem miðstöð mennta og vísinda utan höfuðborgarinnar, og til að kanna möguleika á að taka upp háskólakennslu á Akureyri. Nefndin skilaði áliti 1984. Í sem stystu máli var talinn vera grundvöllur fyrir kennslu frá Háskóla Íslands en ekki tímabært að stofna sjálfstæðan háskóla. 

Hugmyndin um háskóla á Akureyri þróaðist hratt næstu árin, sérstaklega meðal skólafólks og fræðafólks norðanlands. Stuðningur við málefnið kom líka víðar að. Bæjarstjórn Akureyrar skipaði sérstaka háskólanefnd sem starfaði á árunum 1985–1987. Niðurstaðan var að stofnaður yrði sjálfstæður háskóli og nú varð ekki aftur snúið. Á fyrri hluta árs 1987 voru tekin ákveðin skref. Sverrir Hermannsson var þá menntamálaráðherra og einlægur stuðningsmaður málsins. Háskólakennsla hófst þá um haustið að hans ákvörðun og hafist var handa um að semja frumvarp till laga um sjálfstæðan háskóla á Akureyri. 

Ingvar Gíslason og Ólöf Auður voru viðstödd fyrstu skólasetningu Háskólans á Akureyri þann 5. september 1987. Ingvar heimsótti háskólann síðast á 30 ára afmæli háskólans árið 2017.  

Um leið og við minnumst framlags Ingvars Gíslasonar til stofnunar Háskólans á Akureyri, sendi ég  fjölskyldu Ingvars innilegar samúðarkveðjur fyrir hönd allra hér í Háskólanum á Akureyri. 

Eyjólfur Guðmundsson, rektor 
Háskólinn á Akureyri 

Nánar má lesa um aðkomu Ingvars að stofnun Háskólans á Akureyri í afmælisriti Háskólans á Akureyri, Háskólinn á Akureyri 1987–2012, í kaflanum Háskóli verður til.