Rannsóknardagar Miðstöðvar doktorsnáms

Viðburðaríkir og áhugaverðir tíu dagar tengdir rannsóknum og stuðningi við rannsóknir
Rannsóknardagar Miðstöðvar doktorsnáms

Miðstöð doktorsnáms stóð fyrir spennandi dagskrá á rannsóknadögum 3.-13. október sl. Fræðasamfélaginu bauðst að kynna sér vaxandi rannsóknarstuðning sem miðstöðin býður rannsakendum við Háskólann á Akureyri og að fá innsýn í spennandi rannsóknarverkefni og sérfræðiþekkingu innan skólans.

Viðburðirnir voru öllum opnir og sérfræðingar á ýmsum sviðum rannsókna og rannsóknarstuðnings, innan og utan háskólans, voru með erindi og vinnustofur.

Fyrirlesarar á vinnustofum, fræðslufundum og málstofum voru frá RANNÍS, Háskóla Íslands, Hagstofu Íslands, fræðafólki frá báðum fræðasviðum HA og starfsfólki frá mismunandi stoðeiningum, þar á meðal Bókasafninu, Rannsóknamiðstöð HA og Miðstöð doktorsnáms.

Hilal Sen, lektor í sálfræðideild sagði: „Sem nýr starfsmaður við HA var þetta frábært tækifæri fyrir mig sem rannsakanda að fá upplýsingar um hvaða rannsóknaraðstaða er í boði. Það var einnig frábært að hlusta á sérfræðingana og njóta góðs af ráðgjöf þeirra.“

Adam Fishwick, rannsóknarstjóri, bar hitann og þungann af skipulaginu: „Þetta var mikilvægt tækifæri til að sýna hvaða rannsóknarstuðningur er í boði og hvaða leið við viljum fara til að styðja við rannsóknir og rannsakendur okkar hér við HA á næstu árum. Það var frábært að fá áhugasama þátttakendur, þróa tengslanet og fá vitneskju um hvaða stuðning rannsakendur þurfa til að framkvæma rannsóknaráætlanir sínar“.

„Við erum stolt af dagskránni og þakklát fyrir framlag allra sem tóku þátt í þessu með okkur. Auk þess að finna réttu fyrirlesarana og viðburðina fór mikil vinna í að tryggja að þessir viðburðir myndu vísa rannsakendum á sérfræðiþekkingu og reynslu sem þeir hafa aðgang að innan háskólasamfélagsins okkar. Dagskráin hjálpar til við að auka sýnileika okkar og sýnileika rannsóknarsamfélagsins okkar. Það er ósk okkar að fleiri sjái sér hag í því að taka þátt í rannsóknardögunum framvegis og kynnast þannig þjónustu miðstöðvarinnar -- aðeins þannig getum við fullnýtt þá styrki sem rannsakendum við Háskólann á Akureyri standa til boða,“ sagði Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms.“

Nánari upplýsingar um Rannsóknadagana, þar á meðal dagskrána í heild sinni, er að finna hér.