Reynsla íslenskra kvenna af alvarlegu ofbeldi í nánu sambandi

Grein Sigríðar Halldórsdóttur í opnum aðgangi
Reynsla íslenskra kvenna af alvarlegu ofbeldi í nánu sambandi

Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum fékk á dögunum birta greinina In the Jaws of Death: Surviving Women’s Experience of Male Intimate Terrorism í tímaritinu Journal of Advanced Nursing. Tímaritið hefur ákveðið að birta greinina í opnum aðgangi í óákveðinn tíma. Greinin fjallar um lífshættulegt heimilisofbeldi, hvernig það þróast og hver hættueinkennin eru.

„Það er erfitt að átta sig á því hvort kona býr við slíkar aðstæður svo ég tel greinina vera skyldulesningu fyrir alla. Það er líklega ástæðan fyrir því að tímaritið valdi þessa grein fyrir opinn aðgang,“ segir Sigríður.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna reynslu kvenna af alvarlegu ofbeldi í nánu sambandi, það sem á ensku hefur verið nefnt intimate terrorism. Vancouver-skólinn í fyrirbærafræði var notaður sem rannsóknaraðferð og var rætt við níu konur á Íslandi sem lifað höfðu af slíkt ofbeldi, í samtals 16 djúpviðtölum. Niðurstöður eru þær að ofbeldið var skelfileg reynsla. Konurnar upplifðu sig í lífshættu og voru þakklát fyrir að sleppa lifandi. Ofbeldið ágerðist með tímanum, allt frá innilokunarstiginu þar sem karlarnir voru helteknir af konunum, fylgdust grannt með þeim og byrjuðu að loka þær af, yfir í þöggunarstigið þar sem ofbeldið varð sífellt alvarlegra og karlarnir einangruðu konurnar algjörlega. Dauðastigið var hættulegast en þá fannst konunum þær orðnar skuggar af sjálfum sér og í rauninni „meira en dauðar“. Konurnar lýstu einnig vakningar- og batastiginu, hvernig þær komust út úr prísundinni og bataferlið hófst. Heiftarleg árásargirni mannana, nauðgun í hjónabandi og tilraunir til að kyrkja þær, voru verstu hliðarnar á þessu lífshættulega ofbeldi og það sem stuðlaði að því að þeim fannst þær á endanum vera í mikilli lífshættu.

„Það sem er mest sláandi í niðurstöðunum er hvernig brotið var gegn grundvallarmannréttindum kvennanna og hversu nálægt dauða þær voru. Allir þurfa að vera fróðir um hættuna af alvarlegu ofbeldi í nánum samböndum og veita þeim sem hafa orðið fyrir slíkum áföllum áfallamiðaða hjálp. Ítrekað skal að alvarlegt ofbeldi í nánu sambandi á sér ekki eingöngu stað milli karla sem geranda og kvenna sem þolenda þótt það hafi verið sérstaklega rannsakað í þessari rannsókn,“ segir Sigríður að lokum.

Áhugasöm geta nálgast greinina hér