Heiðursverðlaun Góðvina 2022

Góðvinir veittu viðurkenningar í 18. skipti
Heiðursverðlaun Góðvina 2022

Góðvinir Háskólans á Akureyri eru samtök stúdenta sem brautskráðir eru frá HA og annarra velunnara háskólans. Í 18 skipti veittu Góðvinir viðurkenningar til kandídata sem hafa sýnt góðan námsárangur og óeigingjarnt starf í þágu háskólans með því til dæmis að kynna hann, efla félagslífið og/eða sitja í hagsmunanefndum fyrir hönd stúdenta. Það er gríðarlega mikilvægt að stúdentar taki þátt, segi sínar skoðanir, því félagslífið er ekkert síður mikilvægur hluti af lærdómi háskólagöngunnar. 

Heiðursviðurkenningarnar eru nælur sem gullsmiðurinn Kristín Petra Guðmundsdóttir smíðar og það er von Góðvina að handhafar viðurkenningarinnar beri næluna með stolti. Til að mynda á endurfundum en einnig við önnur hátíðleg tækifæri. Nælan er eftirlíking listaverksins Íslandsklukkan eftir Kristinn Hrafnsson sem stendur á háskólasvæðinu og vísar til þeirrar árvekni sem einkennir gott háskólafólk. 

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, formaður Góðvina, afhenti heiðursviðurkenningarnar. 

Heiðursverðlaun Góðvina 2022
Berglind Ósk Guðmundsdóttir, formaður Góðvina

 

Fjórir hlutu heiðursverðlaun Góðvina að þessu sinni 

Framhaldsnám: Sonja Finnsdóttir, iðjuþjálfun - Starfsréttindanám á meistarastigi 

Í umsögn um Sonju segir: 

„Sonja Finnsdóttir hefur tekið virkan þátt í að kynna Iðjuþjálfunarfræði bæði innan háskólans sem og utan hans. Hún hefur einnig stýrt samtalsmiðaða námskeiðsmati deildarinnar með miklum sóma. Sonja er hugulsöm og vingjarnleg ásamt því að vera metnaðarfull í þeim verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur. Sonja lætur sig málin varða og er óhrædd að vekja athygli á því sem má betur fara. Þetta á sérstaklega við um málefni fatlaðra og þá sér í lagi Einstakra barna.“ 

Heiðursverðlaun Góðvina 2022
Frá vinstri: Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Þórdís Jónsdóttir tók á móti viðurkenningunni fyrir hönd Sonju Finnsdóttur og Eyjólfur Guðmundsson

 

Heilbrigðisvísindasvið: Eva María Matthíasardóttir, BS í hjúkrunarfræði 

Í umsögn um Evu segir: 

„Eva María hefur sinnt góðu starfi innan Hjúkrunarfræðideildar og hefur m.a. verið fulltrúi hjúkrunarfræðinema í stúdentaráði er hún gegndi stöðu formanns Eirar skólaárið 2019-2020. Eva María stóð sig með prýði og lagði mikla áherslu á hagsmunabaráttu stúdenta ásamt því að sinna náminu vel. Eva María var formaður Gæðanefndar SHA skólaárið 2020-2021 ásamt því að gegna stöðu hagsmunafulltrúa Eirar þar sem hún var talsmaður stúdenta um gæðamál Háskólans á Akureyri. Eva María er jákvæð, metnaðarfull og dugleg, þá er einnig afskaplega gaman að vinna með henni.“ 

 

Viðskipta- og raunvísindasvið: Særún Anna Brynjarsdóttir, BS í sjávarútvegsfræði 

Í umsögn um Særúnu segir: 

„Særún var formaður Stafnbúa skólaárið 2020-2021 og fjármálastjóri SHA skólaárið 2021-2022. Eins og gefur að skilja voru þetta krefjandi tímar en Særun var einstaklega áreiðanleg í sínu starfi. Einnig kom Særún sterk inn við framkvæmd Opnu daganna og sem aðalfulltrúi SHA í starfi Landssambands íslenskra stúdenta. Særún gengur í málin af miklu öryggi og festu. Hún hefur ríka ábyrgðarkennd og er góður málamiðlari – kostur sem kemur sér verandi þríburi!“ 

Heiðursverðlaun Góðvina 2022
Frá vinstri: Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Særún Anna Brynjarsdóttir, Eva María Matthíasardóttir og Eyjólfur Guðmundsson

 

Hug- og félagsvísindasvið: Sólveig Birna Halldórsdóttir Elísabetardóttir, B.Ed. í kennarafræði 

Í umsögn um Sólveigu segir: 

„Sólveig Birna hefur verið ötull talsmaður Háskólans á Akureyri og tekið virkan þátt í félagsstörfum háskólans frá því hún hóf nám. Hún tók við stöðu formanns Magister skólaárið 2020-2021 og leiddi félagið til ársins 2022. Í störfum sínum sem formaður Magister var Sólveig áberandi í hagsmunastörfum innan Kennaradeildar, þar sem hún tók virkan þátt í að þróa m.a. samtalsmiðaða námskeiðsmatið. Sólveig tók við stöðu formanns Stúdentafélags Háskólans á Akureyri í mars á þessu ári og hefur hún sinnt starfinu með mikilli alúð, umhyggju á drifkrafti. Sólveig Birna er vinur vina sinna, umhyggjusöm og veigrar sér ekki við áskorunum.“ 

Heiðursverðlaun Góðvina 2022
Frá vinstri: Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Sólveig Birna Halldórsdóttir Elísabetardóttir og Eyjólfur Guðmundsson 

Allir brautskráðir stúdentar frá HA – eru hvattir til að gerast Góðvinir til að halda góðum tengslum við háskólann sinn, sækja endurfundi og safna fjármunum í stofnfjársjóð.