Ungmenni læra um sjávarútveg og fiskeldi

Samtals sóttu 288 ungmenni Sjávarútvegsskólann í sumar og 10 ungmenni sóttu Fiskeldisskólann
Ungmenni læra um sjávarútveg og fiskeldi

Sjávarútvegsskóla unga fólksins er nú lokið þetta sumarið. Kennsla fór fram á fimm stöðum á Austurlandi, fimm stöðum á Norðurlandi, í Reykjavík, og í fyrsta sinn á Ísafirði. Skólinn var rekinn í samstarfi sjávarútvegsfyrirtækja, vinnuskóla byggðarlaga og Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Kennsla fór fram í júní og júlí og nemendur voru á aldrinum 13-16 ára.

Kennarar voru samtals sex auk þriggja annara sem hlupu í skarðið þegar þess þurfti með. Kennararnir eru ýmist útskrifaðir sjávarútvegsfræðingar frá Háskólanum á Akureyri eða enn í námi. Kennt var 4-6 tíma á dag, fjóra daga vikunnar. Nemendur fengu bóklega fræðslu í formi fyrirlestra og leikja, lærðu að meta gæði fisks með skynmati, heimsóttu fyrirtæki í sjávarútvegi/fiskeldi og tengdum greinum og skoðuðu fiskiskip, vinnslur og eldisstöðvar. Fjölbreyttir gestafyrirlesarar komu í heimsókn og fræddu nemendur um sjávarútveg. Einnig heimsóttu nemendur björgunarsveitir og fengu fræðslu um þeirra störf.

Sjávarútvegsskóli unga fólksins
Sjávarútvegsskóli unga fólksins

Aðsókn fer vaxandi

Sjávarútvegsskólinn hóf starfsemi sína árið 2013 og var þá rekinn af Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Fleiri sjávarútvegsfyrirtæki á Austfjörðum sóttust eftir því að taka þátt í verkefninu og árið 2015 var svo samið við Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri um að taka við umsjón skólans. Á næstu árum var ákveðið að staðsetja skólann á Norðurlandi í samstarfi við sjávarútvegsfyrirtækin þar. Sumarið 2020 var skólinn svo í fyrsta skipti í Reykjavík, á Sauðárkróki og í Vesturbyggð og nú sumarið 2022 var í fyrsta sinn kennt á Ísafirði. Fyrsta rekstrarár skólans voru nemendur rúmlega 20 og hefur aðsókn í skólann farið vaxandi í gegnum árin en þetta sumarið voru þeir 288.

Sjávarútvegsskóli unga fólksins

Fiskeldisskóli unga fólksins hittir beint í mark   

Í sumar var Fiskeldisskóli unga fólksins haldinn í annað sinn. Kennsla fór fram í júlí og kennt var í Vesturbyggð. Skólinn var rekinn í samstarfi fiskeldisfyrirtækja, vinnuskóla byggðarlaga og Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Kennt var eftir ramma Bridges CoVE en það er Erasmus+ samvinnuverkefni Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands um nám í fiskeldi. Tíu ungmenni sóttu Fiskeldisskólann og eru þeir á aldrinum 13-16 ára. Kennarar þetta sumarið voru tveir, annar útskrifaður sjávarútvegsfræðingar frá Háskólanum á Akureyri og verkefnisstjóri í Bridges og hinn er starfsmaður Arnarlax og er í námi við Háskólann á Akureyri.

Fiskeldisskóli unga fólksins
Fiskeldisskóli unga fólksins