Baráttan við kerfið

Sjónarhorn móður og lögmanns.

Í erindinu fáum við að heyra sjónarhorn móður og sjónarhorn lögmanns um dóm sem féll í sumar þar sem synjun Tryggingastofnunar á foreldragreiðslum var ógild. Í dómnum er fundið að því hvernig Tryggingastofnun hefur komið fram í deilunni, en Tryggingastofnun hefur nú áfrýjað dómnum til Landsréttar. 

Beint streymi

Að eiga við ríkisstofnanir fyrir dómstólum – sjónarhorn móður

Kristján Logi er 13 ára langveikur og fjölfatlaður drengur. Hann var greindur með þroska-og hreyfiþroska skerðingar fyrir 1. október 2007. Þar af leiðandi eiga foreldrar hans ekki rétt á tekjutengdum foreldragreiðslum, þær eru einungis í boði fyrir foreldra sem eiga börn sem hafa greiningu eftir 1. október 2007.

Vera K Vestmann Kristjánsdóttir, móðir Kristjáns Loga, mun segja frá baráttu þeirra hjóna við kerfi sem mismunar börnum og foreldrum þeirra. Barátta þeirra við Tryggingastofnun hefur tekið mörg ár og höfðu þau hjónin sigur í málinu í Héraðsdómi nú í sumar. Vera Kristín mun fjalla um þau áhrif sem barátta af þessu tagi hefur á fjölskylduna og hvað það er sem drífur þau áfram.

Að eiga við ríkisstofnanir fyrir dómstólum – sjónarhorn lögmanns

Júlí Ósk Antonsdóttir mun fara yfir feril málsins sem hófst gegn Tryggingastofnun ríkisins fyrir héraðsdómi Reykjavíkur árið 2014 og er í raun enn til meðferðar fyrir dómstólum.

Það að eiga við ríkisstofnanir fyrir dómstólum reynist oftar en ekki erfitt og virðist almennt mikið kapp lagt í það af hálfu ríkisstofnana að fá málum vísað frá eða fá sýknu fyrir hið opinbera. Málið snýst um það hvort Tryggingastofnun ríkisins hafi brotið ákvæði stjórnarskrár með ákvörðunum sínum. Í velferðarríki hefði mátt telja að hið opinbera myndi vilja fá úr því skorið hvort að ákvarðanir þess standist stjórnarskrá eða ekki. Hið gagnstæða virðist þó vera raunin, þar sem Tryggingarstofnun hefur leitað allra leiða til þess að fá málinu vísað frá dómi og til þess að fá sýknu og hefur enn ekki gefist upp á að reyna að fá málinu vísað frá dómi, samanber kröfugerð þeirra fyrir Landsrétti.

Torgið er opið öllum endurgjaldslaust