Að ná því að vera „sáttur í eigin skinni“

Reynsla einstaklinga með geðrænan vanda af bjargráðum og bata.

Kynning á meistarannsókn í heilbrigðisvísindum

Nemandi: Sandra Sif Jónsdóttir, BA í félagsráðgjöf. Áætluð brautskráning í febrúar 2019 með MS í heilbrigðisvísindum. 
Leiðbeinendur: dr. Gísli Kort Kristófersson, dósent og dr. Sigríður Halldórsdóttir, prófessor

Geðrænir sjúkdómar eru gríðarstór vandi, bæði á heimsvísu sem og hér á landi, og er byrðin á einstaklinginn sem og samfélagið mikil. Lífeðlisfræðilega módelið hefur verið hið ríkjandi módel þegar horft er á geðrænan vanda. Háværar kröfur eru þó um að sýnin sé færð nær samþættri nálgun.

Megintilgangur rannsóknarinnar var að öðlast innsýn í hvaða bjargráð einstaklingar með geðrænan vanda nota til að stuðla að og viðhalda bata. Einnig var horft til viðhorfa þeirra á batahugtakið.

Notuð var eigindleg, fyrirbærafræðileg aðferð, nánar tiltekið Vancouver skólinn. Tekið var tilgangsúrtak, einstaklingar með geðrænan vanda hverskonar. Gangasöfnun fór fram í gegnum hálfstöðluð djúpviðtöl og var eitt viðtal tekið við hvern þátttakanda. Þátttakendur voru 17 talsins, 10 karlar og 7 konur, á aldrinum 27 - 64 ára, meðalaldur 41 ár.

Yfirþema rannsóknarinnar, að ná því að vera „sáttur í eigin skinni“, er lýsandi fyrir það hugarfar sem flestir þátttakenda leituðust við að ná fram á batavegferð sinni. Bataferlið var misjafnt þeirra á milli, en bjargráðin voru þar samofin. Það að vera virkur þátttakandi í lífinu var eitthvað sem flestir tóku þar fram. Einnig nefndu þátttakendur að það að hafa jákvætt viðhorf og jafnvægi í tilfinningalífi og á einkennum hefði með bata að gera.

Þátttakendur greindu frá fjölbreyttum bjargráðum, en þau sem helst stóðu upp úr voru stuðningur, lyf, að halda virkni og taka ábyrgð, að halda í jákvæð og uppbyggjandi viðhorf, fræðast um veikindin og úrlausnir og hafa drauma og markmið til að stefna á, sem og von

Bjargráð einstaklinga með geðrænan vanda eru fjölbreytt og bataferlið er einstaklingsbundið. Geðheilbrigðiskerfið þarf að mæta einstaklingum með geðrænan vanda með samþættri nálgun í þjónustu, þar sem notendur hafa vægi í ákvarðanatöku og lausnaleit við vanda sínum.