Ferðamál á umbrotatímum

Samfélagslegar áskoranir og vísindi

Vísindafélag Íslendinga og Rannsóknarmiðstöð ferðamála við Háskólinn á Akureyri standa að málþingi um ferðamál á umbrotatímum laugardaginn 13. október.

Málþingið er öllum opið og hefst kl. 13.30 í sal M102 í aðalbyggingu Háskólans á Akureyri.

Til umfjöllunar verða rannsóknir sem varða stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi í ljósi þolmarka, landsbyggðanna og sjálfbærni.

Fyrirlesarar og erindi

  • Gunnþóra Ólafsdóttir, forstöðumaður rannsókna- og tölfræðisviðs Ferðamálastofu: Staða íslenskrar ferðaþjónustu í ljósi þolmarkarannsókna
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri:Ferðaþjónusta – vannýtt auðlind í landsbyggðunum?
  • Auður H. Ingólfsdóttir, sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð ferðamála: Ferðamál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna – Hvaða máli skipta rannsóknir?

Fundarstjóri: Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstövar Háskólans á Akureyri 

Útdrættir

Staða íslenskrar ferðaþjónustu í ljósi þolmarkarannsókna

Gunnþóra Ólafsdóttir, forstöðumaður rannsókna- og tölfræðisviðs Ferðamálastofu

Íslensk ferðaþjónusta hefur á örskömmum tíma vaxið í að verða ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Áherslan í þróun atvinnuvegarins hingað til hefur einkum varðað stækkun hans með jákvæð hagræn áhrif þess að leiðarljósi.  Mikill árangur hefur náðst á því sviði en vöxtur greinarinnar gengdi lykilhlutverki í viðsnúningi efnahagslífsins eftir fjármálahrunið 2008.  Þróun ferðaþjónustu hefur hins vegar margvísleg önnur áhrif en efnahagsleg, bæði jákvæð og neikvæð, sem taka þarf með í reikninginn.  Hugtakið þolmörk ferðamennsku er stjórntæki til að stýra umferð ferðamanna en því hefur einnig verið beitt til að rannsaka heildstæð áhrif ferðamennsku. Hér á landi hafa þónokkrar rannsóknir verið gerðar á þolmörkum ferðamennsku en skort hefur yfirsýn á niðurstöður. Í erindinu verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum skýrslu sem höfundur vann veturinn 2017-2018 fyrir ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköðunarráðherra um þolmörk ferðamennsku þar sem gerð er heildstæð úttekt á 58 þolmarkarannsóknum sem og öðrum rannsóknum og úttektum sem þóttu varpa ljósi á stöðu mála.

 

Ferðaþjónusta – vannýtt auðlind í landsbyggðunum?

Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri

Erlendir ferðamenn koma til að sjá náttúruna. Ferðaþjónusta er því nýting á auðlind, auðlindin er náttúrufegurð.  Þrátt fyrir að ferðaþjónustan sé fyrst og fremst atvinnugrein á suðvesturhorninu á hún mikla möguleika í landsbyggðunum. Er víða komin á veg en á langt eftir. Ferðaþjónustan getur haft mikil áhrif á þjónustu og sem stuðningur við innviði í landsbyggðunum.  Má þar nefna veitingastaði, flugvelli og vegi.  Mikill munur er fyrir hinar dreifðari byggðir hvort ferðaþjónustan þar er heilsáratvinnugrein eða sumarvertíð.  Aukin ferðaþjónusta hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir landsbyggðirnar, sérstaklega ef hún eykst yfir vetrartímann þegar fjárfestingar eru vannýttar.  Slíkt hefur einnig efnahagslega þýðingu fyrir allt landið.  Í erindinu verður farið yfir efnahagslega þýðingu vetrarferða frá Bretlandi til Akureyrar í janúar og febrúar 2018.

 

Ferðamál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna – Hvaða máli skipta rannsóknir?

Auður H. Ingólfsdóttir, sérfræðingur við Rannsóknamiðstöð ferðamála

Í stefnumörkun hins opinbera um ferðamál er lögð áhersla á að ferðaþjónusta þróist í anda sjálfbærrar þróunar. Í því samhengi veita Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun mikilvæga leiðsögn. Í erindinu mun Auður velta fyrir sér eftirfarandi spurningum: Hver af heimsmarkmiðunum 17 tengjast helst ferðamálum og hver eru áhrif ferðamennsku á þessi markmið?  Hvernig geta ferðaþjónustuaðilar hagað sinni uppbyggingu þannig að hún sé sem mest í anda sjálfbærrar þróunar? Hvert er hlutverk hins opinbera? Hvað getur ferðamaðurinn sjálfur lagt af mörkum? Og hvaða hlutverki gegna rannsóknir og vísindaleg þekking í þessu samhengi?

 

Viðburðurinn á Facebook
Viðburðurinn á síðu Fullveldisafmælisins