Gellur sem mála í bílskúr

Samsýningin „Bland í poka“ á Bókasafni Háskólans á Akureyri.

Sýningin „Bland í poka“ opnar fimmtudaginn 28. febrúar kl. 16 á Bókasafni HA.

Hópurinn „Gellur sem mála í bílskúr“ samanstendur af fólki sem er á öllum aldri, úr öllum stéttum og allir mála saman í bílskúr.

Þörfin fyrir að skapa sameinar okkur og fátt stoppar þegar pensill er kominn í hönd. Hópurinn sem að sýningunni stendur kynntist á námskeiði hjá Listfræðslunni veturinn 2015–2016 þar sem öndvegiskennararnir Billa og Guðmundur Ármann tóku okkur í fangið og kenndu okkur og fræddu.

Hópurinn small saman og stofnuðum við klúbbinn Gellur sem mála (jafnvel þó herra sé í hópnum!) í janúar 2016. Síðan þá höfum við hist einu sinni í viku, haldið langa listsköpunar laugardaga og jafnvel skellt okkur í helgarferð á Raufarhöfn til að mála. Markmið hópsins er að hittast og styðja hvert annað í listsköpuninni og hafa gaman.

Meðlimir hópsins eru: Anna María Hjálmarsdóttir, Barbara Hjálmarsdóttir, Björgvin Kolbeinsson, Harpa Halldórsdóttir, Jóhanna Bára Þórisdóttir, Jónína Sigurðardóttir, Kristín Hólm, Líney Helgadóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Við höfum bæði tekið þátt í samsýningum og haldið einkasýningar. Þema sýningarinnar er, eins og nafnið gefur til kynna, sitt lítið af hverju frá hverjum og einum. Að þessu sinni taka Anna María, Barbara, Björgvin, Harpa, Jóhann, Jónína og Kristín þátt í sýningunni. Kannski bætist við mynd frá Líney þegar líður fram í mars.

Opnunartími bókasafnsins er mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 8:00 – 16:00 og þriðjudaga og fimmtudaga kl. 8:00 – 18:00. Lokað um helgar.