Íslenskir lögreglunemar í innlendum og evrópskum samanburði

Þriðjudaginn 27. mars mun Dr. Guðmundur Oddsson, félagsfræðingur og dósent við félagsvísinda- og lagadeild, fjalla um fjölþjóðlega rannsókn á lögreglunemum og eiga samtal við áheyrendur um efnið.

Lögreglufræði við Háskólann á Akureyri tekur um þessar mundir þátt í samevrópsku rannsóknarverkefni: RECPOL – Recruitment, Education, and Careers in the Police. Umrætt verkefni hefur verið í gangi síðan 2007 og er eina rannsókn sinnar tegundar í heiminum, þ.e.a.s. fjölþjóðleg langtímarannsókn á lögreglunemum.

Tilgangur RECPOL er að fræðast um lögreglunema í sjö Evrópulöndum: Belgíu, Danmörku, Íslandi, Noregi, Skotlandi, Svíþjóð og Spáni (Katalóníu) með reglulegum spurningalistakönnunum (við upphaf náms, lok náms, 3 árum eftir útskrift og 6 árum eftir útskrift). RECPOL-rannsóknin eykur skilning okkar á hvaðan lögreglunemar koma, hvað þeir vilja og hvaða viðhorf hafa þeir til lögreglustarfsins. Þetta eykur skilning á gildismati og viðhorfum lögreglunema og hvernig þeir mótast í námi og starfi.

Í erindi sínu mun Guðmundur kynna frumniðurstöður rannsóknar á félagslegum bakgrunni og stjórnmálaviðhorfum íslenskra lögreglunema, nánar tiltekið hvernig þeir staðsetja sig á hægri/vinstri ás stjórnmálanna. Niðurstöðurnar eru bornar saman við félagslegan bakgrunn og stjórnmálaviðhorf almennings. Þá verða niðurstöðurnar settar í evrópskt samhengi.

Útgangspunktur erindisins er íslensk gögn sem safnað var á tímabilinu 2011-2015 og eiga íslensku niðurstöðurnar þ.a.l. við nemendur gamla Lögregluskólans. Færsla lögreglunáms upp á háskólastig hérlendis árið 2016 gefur kost á víðtækum samanburði á lögreglunemum á mismunandi skólastigum þegar fram í sækir.

Dr. Guðmundur Oddsson

Guðmundur er dósent við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri. Hann lauk doktorsprófi í félagsfræði frá Missouri-háskóla 2014 og kenndi við félagsfræðideild háskólans samhliða námi. Guðmundur var lektor við Félags- og mannfræðideild Norður Michigan-háskóla frá 2014 til 2017. Síðastliðið haust hóf Guðmundur störf við Háskólann á Akureyri. Rannsóknir Guðmundar hverfast um frávik og félagslegt taumhald, einkum störf lögreglunnar og ójöfnuð, sér í lagi hugmyndir fólks um stéttaskiptingu.
Lögfræðitorgið verður í stofu M102 og er opið almenningi án endurgjalds.

Nánari upplýsingar

Dr. Hermann Óskarsson prófessor, Háskólinn á Akureyri, hug- og félagsvísindasvið, sími 862-0475

Allir velkomnir