Menntabúðir á netinu um fjarkennslu og upplýsingatækni

Fjarmenntabúðum fyrir skólafólk

Starfsfólk við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Kennaradeild Háskólans á Akureyri standa að fjarmenntabúðum fyrir skólafólk vorið 2020 í samvinnu við Nýsköpunarmiðju menntamála við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Menntamálastofnun, Kennarasamband Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Menntamiðju.

Kennarar um allt land standa nú skyndilega frammi fyrir því að þurfa að breyta öllu kennslufyrirkomulagi sínu. Í faghópum skólafólks á samfélagsmiðlum eru margir þegar farnir að deila reynslu og upplýsingum. Þessar menntabúðir eru ætlaðar sem óformlegur vettvangur fyrir skólafólk til þess að miðla tilraunum og lausnum og læra hvert af öðru á netinu í rauntíma.

Áhersla menntabúðanna er á fjar- og netkennslu og notkun upplýsingatækni í námi og samskiptum við sérstakar aðstæður. Skólafólk er hvatt til þess að koma með tillögur um framlög sem hægt er að skrá inn í skráningarskjal fyrir kynningar þar sem dagskráin er mótuð.

Framlög eru um hálftíma löng og gætu verið sýnikennsla, kynningar eða umræður um ákveðið afmarkað vandamál, viðfangsefni eða lausn. Til dæmis má ræða app, þjónustu, verkefni eða aðferð sem reynst hefur vel með nemendum og vilji er fyrir að deila eða skapa umræðu um.

Þátttaka er öllum opin án skráningar – aðeins þarf að opna endanlega dagskrá á viðkomandi degi og velja sér vefstofu að vild. Þátttakendur geta verið með í allri dagskránni eða hluta hennar. Fólk er hvatt til þess að tjá sig um viðburðina á Twitter (#fjarmenntabudir, #menntaspjall, …) og öðrum samfélagsmiðlum.

Menntabúðirnar fara fram í opnum aðgangi á ZOOM (Zoom-leiðbeiningar hér).

Frjóir fimmtudagar vorið 2020 – dagskrá

Fimmtudagur 26. mars, kl. 15:00-17:30 (24 framlög, 200+ gestir)
Fimmtudagur 16. apríl, kl. 15:00-16:50
Fimmtudagur 7. maí, kl. 15:00-16:50

Nánari upplýsingar um fjarmenntabúðir veitir Sólveig Zophoníasdóttir