Skáldkonuspjall með Guðrúnu Steinþórsdóttur og Guðrúnu Ingólfsdóttur

Bókmenntaerindi í Háskólanum á Akureyri

Guðrún Ingólfsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir verða með erindi um skáldkonur miðvikudaginn 20. október í Háskólanum á Akureyri.

Erindi Guðrúnar Ingólfsdóttur kallast Ímyndunaraflið og náttúran í skáldskap Guðrúnar Þórðardóttur frá Valshamri (1816/1817‒1896).
Bókin Skáldkona gengur laus. Erindi 19. aldar skáldkvenna við heiminn kom nýverið út hjá bókaforlaginu Bjarti. Ætlunin er m.a. að kynna efni bókarinnar en í henni er fjallað um fjórar nær óþekktar skáldkonur sem allar voru einstakar. Þær áttu vissulega ekki þátt í að móta þá bókmenntastrauma sem efst voru á baugi á 19. öld. Þess í stað fóru þær sínar eigin leiðir og studdust m.a. við kvenlega skáldskaparhefð. Þær höfðu einnig skýra sýn á hlutverk sitt sem skálda og fóru sannarlega ekki í grafgötur um erindi sitt við heiminn. Að endingu verður kafað ofan í kvæði eftir skáldkonuna Guðrúnu Þórðardóttur frá Valshamri. Í kvæðinu veitir hún einstaka innsýn í sköpunarferlið og hvað það var sem kynti undir ímyndunarafli hennar.

Erindi Guðrúnar Steinþórsdóttur kallast Heillandi ástarsaga eða óhugnanleg hrollvekja? Um viðbrögð lesenda við Frá ljósi til ljóss eftir Vigdísi Grímsdóttur
Á dögunum kom út bókin Raunveruleiki hugans er ævintýri sem fjallar um valdar sögur Vigdísar Grímsdóttur, einkenni þeirra og viðtökur. Þar er meðal annars rætt um ímyndunarafl og sköpunarhæfni persóna, hugað að einkaheimum þeirra, ímynduðum vinum, samlíðan og valdabaráttu. Þá er lesandinn einnig í brennidepli því í bókinni er gerð grein fyrir eigindlegum rannsóknum á tilfinningaviðbrögðum lesenda andspænis persónum og aðstæðum í skáldskap Vigdísar. Í erindinu verður bókin kynnt stuttlega en einkum verður sagt frá einni lesendarannsókn þar sem viðbrögð lesenda við Frá ljósi til ljóss voru könnuð. Þátttakendur komu saman og ræddu upplifun sína af bókinni í hópviðtali en meðal þess sem kom í ljós var að sumum fannst sagan vera falleg ástarsaga og tengdu hana við ævintýri en aðrir töldu hana vera hryllingssögu. Í fyrirlestrinum verður gerð tilraun til að skýra þessi ólíku viðbrögð.

Öll velkomin!