Vaken verkefnið – Sprint 3 í Háskólanum á Akureyri

Opin málstofa í Viðskiptadeild

Haustið 2020 var farið af stað með samstarfsverkefni nokkurra háskóla sem ber yfirskriftina Vaken. Kennarahópurinn sem samanstendur af Veru Kristínu og Hafdísi Björgu, ásamt kollegum frá Finnlandi, Danmörku og Eystrasaltsríkjunum. Undanfarin tvö ár hefur hópurinn útbúið verkfærakistu sem nýtist bæði í skólastofu og í rafrænni kennslu. Verkfærakistan inniheldur tæki og leiðir til þess að þjálfa og meta mjúka færni stúdenta. Haustið 2021 var verkferlið prófað í Óðinsvé með þátttöku 36 stúdenta, þar af 6 frá Íslandi. Annað rennsli var í Kaunas, Litháen vorið 2022, og þriðja og síðasta rennslið var á Akureyri nú í haust.

Í erindinu munu Vera og Hafdís gera nánar grein fyrir verkefninu, prufukeryslunum og gera grein fyrir upplifun stúdenta sem var sérstaklega jákvæð. Stúdentar unnu í blönduðum hópum að verkefni fyrir Hauganes þar sem markmiðið var að efla Hauganes sem áfangastað. Þau kynntu lausnir sínar í tvígang og fengu endurgjöf frá Elvari Reykjalín og Sigmari Reykjalín Hjelm frá Ektafisk á Hauganesi sem og kennurum. Í lok vikunnar var lögð fyrir könnun og er ánægjulegt að segja frá því að stúdentar voru mjög ánægðir með að fá tækifæri til að taka þátt í þessari alþjóðlegu samvinnu.

Verkefnið er styrkt af Nordplus.

Öll velkomin!