Vísindaskóli unga fólksins

Skólinn verður nú haldinn í fimmta sinn!

Vísindaskólinn

Vísindaskólinn er fyrir ungmenni á aldrinum 11-13 ára. Markmið Vísindaskólans er að bjóða upp á fræðandi og skemmtilega afþreyingu. 

Nú eru ný þemu og nýjar áherslur. Eftirfarandi þemu verða kennd: Besta útgáfan af þér, Fagur fiskur í sjó, Fjármalavit - hvað kostar að vera unglingur?, Kynslóðarbrúin og Leikur að kóðum, smáforrit og róbótaforritun. 

Besta útgáfan af þér
Hvernig getur þú verið besta útgáfan af sjálfum þér? Skiptir máli að hreyfa sig, hvíla sig, borða næringarríkan mat og hlúa að andlegri heilsu?

Fagur fiskur í sjó
Fræðst verður um sjómennsku og undur hafsins. Fylgst verður með ferðalagi fisksins úr sjó á disk. Farið verður í heimsókn í ÚA en þar læra nemendur m.a. að elda fisk á skemmtilegan hátt með Friðriki V.

Fjármálavit – hvað kostar að vera unglingur?
Flestir unglingar eru mun dýrari í rekstri en þeir telja. Á námskeiðinu verður unnið með verðskyn og kostnaðarvitund þátttakenda.

Kynslóðabrúin
Hvernig var lífið hér áður fyrr og hvernig verður það í framtíðinni? Hvað mótar okkur sem einstaklinga? Brugðið verður á leik með Minjasafninu og skyggnst inn í fortíðina.

Leikur að kóðum, smáforrit og róbótaforritun
Hvernig er hægt að nýta forritun og smáforrit í leik og starfi? Nemendur verða kynntir fyrir ýmsum spennandi möguleikum varðandi forritun og fá að búa til sín eigin smáforrit.

Skráning í Vísindaskólann og frekari upplýsingar má finna á síðu Vísindaskólans.