Samþykkt háskólaráðs um námsmat á vormisseri 2020

Kæru nemendur,

Stærsta verkefni starfsfólks HA þessa vikuna hefur verið að endurskoða námsmat misserisins til að koma til móts við nemendur og það mikla álag sem á ykkur hvílir í Kóvinu miðju. Deildir hafa lagt fram tillögur um það með hvaða hætti sé unnt að ljúka námsmati þannig að komið sé til móts við nemendur á sama tíma og við tryggjum að nemendur nái að ljúka sínu námi með þeirri færni og hæfni sem krafist er innan hvers fags. Lausnirnar eru nánast jafn margar eins og námsleiðir við skólann og vil ég þakka öllum sem hafa komið að þessum breytingum fyrir hröð og góð vinnubrögð með lausnarmiðaðri nálgun á verkefnið.

Svo unnt sé að koma þessum tillögum í framkvæmd hefur háskólaráð Háskólans á Akureyri samþykkt auglýsingu um framkvæmd á reglum HA þetta vormisserið.  Auglýsinguna sjáið þið aftast í þessum skilaboðum en hér fyrir neðan er listi yfir helstu atriðin:

  • Tilkynning um breytingar á námsmati í námskeiðum kemur frá viðkomandi deild eða sviði.
  • Ákvæði um að nemendur þurfi að standast alla námsþætti til að ljúka námskeiði fellur niður. Lokaeinkunn er þá vegið meðaltal allra námsþátta námskeiðsins. 
  • Næsta skref er að deildir, í samráði við sviðsforseta, tilkynni til nemenda með hvaða hætti námsmati verði lokið í einstökum námskeiðum deilda. Námsmat námskeiða byggi á þeim tillögum sem þegar liggja frammi inná hverju fræðasviði.
  • Nemendur sem staðist hafa námsmat og fá tölulega einkunn fyrir námskeiðið geta óskað eftir því að einkunn sé birt sem „staðið“. Þeir sem óska eftir slíku senda tilkynningu beint til nemendaskrár á nemskra@unak.is úr UNAK netfangi þar sem fram kemur nafn og kennitala ásamt nafni og númeri námskeiðs sem um ræðir.
  • Gjald vegna skráningar í endurtökupróf er fellt niður á vormisseri 2020.
  • Ekki verður krafist veikindavottorða vegna fjarvista í prófum eða öðru námsmati á vormisseri 2020. Nemendur sendi tilkynningu frá UNAK netfangi um veikindi til nemendaskrár, nemskra@unak.is, með heiti og númer námskeiðs, nafni sínu og kennitölu.
  • Frestur til að skrá sig úr námskeiðum vormisseris er framlengdur til 7. apríl nk.
  • Umsóknarfrestur um meistaranám og bakkalárnám er framlengdur til 15. júní n.k.

 Auglýsingin sem mun birtast í Stjórnartíðindum hljómar svo:

„Þrátt fyrir ákvæði reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009, reglna um námsmat við Háskólann á Akureyri nr. 921/2018 og annarra reglna Háskólans sem í gildi eru um kennslu, fyrirkomulag prófa og námsmat gildir eftirfarandi ákvæði um vormisseri háskólaársins 2019-2020:

Deildum er heimilt í nánu samráði við forseta viðkomandi fræðasviðs að ákveða með hvaða hætti framkvæmd kennslu, prófa og námsmats vegna vormisseris 2020 verður fyrir komið. Skal leitast við að fara eftir gildandi reglum um námsmat eftir því sem unnt er.

Ákvæði námsmatsreglna um að nemendur þurfi að ná lágmarkseinkunn í öllum námsmatsþáttum munu ekki gilda á vormisseri 2020. Vegið meðaltal allra námsmatsþátta gildir þá sem lokaeinkunn. Nemendur sem staðist hafa námsmat í námskeiði á vormisseri skv. ákvörðun deildar geta óskað eftir að fá birtri lokaeinkunn breytt í „staðið“ á námsferli.

Gjald vegna skráningar í endurtökupróf verður ekki innheimt á vormisseri 2020.

Deildir skulu leitast við að hafa samráð um breytingarnar við fulltrúa stúdenta eftir því sem kostur er. Markmiðið er að létta álagi af nemendum vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem nú eru uppi og gera nemendum kleift að ljúka námi á vormisseri 2020 þannig að það hindri ekki frekari framgang í námi eða starfi næsta árs.“

Auglýsing þessi er birt með stoð í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla og taka ákvæði hennar þegar gildi.

Nú þegar þið eruð að sinna námi heima við og ljóst er að samkomubanni verður ekki aflétt á næstu vikum, er enn nauðsynlegra en áður að eiga í hefðbundnum félagslegum samskiptum eins og unnt er. Ég hef heyrt af allskonar frumlegum aðferðum þar sem fólk hittist í kaffispjalli á föstum tímum, jafnvel borðar saman og spjallar um daginn og veginn – en allt að sjálfsögðu yfir netið. Hægt er að skipuleggja rafræn spilakvöld með vinum og ættingjum og almennt bara „tengjast“ öðru fólki rafrænt. Nýtum tæknina bæði til náms og aukins félagsskapar – forðumst einangrun.

Kóvinu mun létta um síðir – eina leiðin fyrir okkur til þess að komast í gegnum það er að sýna samkennd og virðingu fyrir aðstæðum hvers annars og hugsa vel um okkur sjálf, bæði líkamlega og andlega. Hreyfum okkur reglulega, gefum okkur tíma til að njóta og þökkum fyrir það góða sem í kringum okkur er. 

Með vinsemd og virðingu fyrir líðan ykkar allra á erfiðum tímum,

Eyjólfur Guðmundsson, rektor