
Öll velkomin á opinn fyrirlestur á vegum Félagsvísindadeildar og Iðjuþjálfunarfræðideildar
Bíbí hét fullu nafni Bjargey Kristjánsdóttir (1927–1999) en hún var kennd við kotbæ foreldra sinna sem hét Berlín sem er rétt fyrir utan Hofsós í Skagafirði. Hún þótti bráðgert barn en veiktist á fyrsta ári og var síðar merkt sem „fáviti“ af læknum, fölskyldu sinni og sveitungum. Bíbí var hornreka á heimilinu framan af og var falin fyrir gestum og gangandi. Þegar Bíbí stóð á þrítugu var hún send á Héraðshælið á Blönduósi þar sem hún dvaldi í tæp 20 ár.
Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu, dr. Sólveig Ólafsdóttir og Guðrún Valgerður Stefánsdóttir prófessor í fötlunarfræði við Háskóla Íslands, könnuðu hinar mörgu hliðar á lífi Bíbíar í þriggja ára rannsóknarverkefni sem stutt var af Rannís. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að greina þá flóknu og samtvinnuðu sögulegu, menningarlegu og félagslegu þætti sem höfðu áhrif á líf Bíbíar og skópu samfélagsleg viðhorf í garð fatlaðs fólks. Rannsóknin tengir saman tvö fræðasvið, fötlunarfræði og einsögu, í þeim tilgangi að skapa nýja gagnrýna hugsun og umræðu um fatlað fólk í sögu og samfélagi. Í fyrirlestrinum sem Sigurður Gylfi leiðir verður fjallað um margskonar heimildir sem tengjast lífi Bíbíar og hún skapaði. Sýnt verður fram á hvernig þessi merkilega kona tók ákveðið frumkvæði í lífi sínu þrátt fyrir þröngan kost um ævina.
Prófessor í menningarsögu
Sigurður Gylfi Magnússon er prófessor í menningarsögu við Háskóla Íslands (www.sgm.hi.is). Hann hefur skrifað 30 bækur sem hafa komið út á Íslandi og erlendis. Nýjustu bækur hans á ensku eru: Wasteland with Words. A Social History of Iceland (Reaktion Books, 2010); What is Microhistory? Theory and Practice (Routledge, 2013), meðhöfundur er dr. István M. Szijártó; Minor Knowledge and Microhistory. Manuscript Culture in the Ninetheenth Century (Routledge, 2017), sem hann ritaði með Davíð Ólafsson; Emotional Experience and Microhistory. A Life Story of a Destitute Pauper Poet in the 19th Century (Routledge, 2020); Archive, Slow Ideology and Egodocuments as Microhistorical Autobiography: Potential History (Routledge, 2021). Á síðasta ári (2023) kom út bókin Autobiographical Traditions in Egodocuments. Icelandic Literary Practices sem Bloomsbury gaf út. Nýlega kom svo út bókin Disability Studies Meets Microhistory. The Secret Life of Bíbí in Berlín sem Sigurður Gylfi, Guðrún Valgerður Stefánsdóttir og Sólveig Ólafsdóttir skrifuðu og gefin var út hjá Routledge. Sigurður Gylfi er einn fjögurra ritstjóra Sýnisbókar íslenskrar alþýðumenningar en í ritröðinni hafa birst 34 bækur á sviði hversdagssögu, einsögu og heimildafræði (www.sia.hi.is), þ.á m. bókin Bíbí í Berlín. Sjálfsævisaga Bjargeyjar Kristjánsdóttur. Hann er ásamt István M. Szijártó ritstjóri ritraðar sem Routledge gefur út og nefnist Microhistories en þar hafa nú þegar birst 20 bækur.
Öll velkomin!