Áætlun um jafna stöðu kynjanna

Í stefnu Háskólans á Akureyri er lögð áhersla á fjögur gildi: framsækni, jafnrétti, sjálfstæði og traust. Jafnréttisáætlun þessi gildir fyrir árin 2021 til 2024. 

 Leiðarljós og heildarmarkmið

Háskólinn á Akureyri leitast við að tryggja í allri starfsemi skólans jafnan rétt og jafna stöðu kvenna, karla og fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Þetta á við um stúdenta, starfsfólk og þau sem koma að starfseminni á annan hátt.

Háskólinn á Akureyri vinnur að því að flétta kynjasjónarhornið inn í alla stefnumörkun og ákvarðanir, en mun auk þess nýta tímabundnar sértækar aðgerðir til að leiðrétta ójafna stöðu kynjanna.

 Um jafnréttisáætlunina

Þessi áætlun tekur eingöngu til jafnréttis og jafnrar stöðu kynjanna, en leggur áherslu á að samþætta kynjasjónarmið öðrum sjónarmiðum við stefnumörkun, ákvarðanatöku og framkvæmdir. Hún er í samræmi við þær hugmyndir og kröfur sem fram koma í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr.150/2020.

Áætlunin er í samræmi við aðrar stefnur og áætlanir HA sem ætlað er að tryggja jafna stöðu starfsfólks og stúdenta, s.s. Stefnu um jafnt aðgengi að námi og störfum við Háskólann á Akureyri, Mannauðsstefnu Háskólans á Akureyri, Málstefnu og Stefnu Háskólans á Akureyri 2018 til 2023. Jafnréttisráð háskólans fer með umsjón og eftirfylgni áætlunarinnar í samráði við framkvæmdastjórn. Lögð er áhersla á sameiginlega ábyrgð allra stjórnenda HA varðandi frumkvæði að því að sinna jafnréttismálum almennt.

Markmið og aðgerðir

Áætlun þessi fjallar um jafnrétti kynjanna meðal starfsfólks og stúdenta, og kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvarðanatöku skólans.

Í áætluninni eru sett fram markmið í átta liðum og aðgerðir sem eru til þess ætlaðar að stuðla að því að markmiðunum verði náð. Aðgerðir eru tímasettar þar sem við á og ábyrgðaraðili tilgreindur.

I. Stjórnun jafnréttismála, fræðsla og kynjasamþætting

1. Ábyrgð og stjórnun jafnréttismála

Rektor, háskólaráð og framkvæmdastjórn, bera meginábyrgð á framkvæmd þessarar áætlunar en geta falið öðrum, s.s. öðrum stjórnendum, jafnréttisráði HA, eða einstökum starfsmönnum, umsjón og eftirfylgni einstakra þátta. 

1.1. Jafnréttisráð

Jafnréttisráð er skipað einum fulltrúa af hverju fræðasviði, einum frá háskólaskrifstofu og skrifstofu rektors og tveimur fulltrúum Stúdentafélags Háskólans á Akureyri (SHA). Auk þess skipar rektor formann ráðsins. Háskólinn útvegar ráðinu starfsmann. Karl og kona skulu tilnefnd í hvert sæti og sitji annað sem aðalfulltrúi en hitt til vara og skal rektor tryggja að kynjahlutföll séu sem jöfnust (þ.e. 40/60%). Ákvæði þetta kemur þó ekki í veg fyrir tilnefningu og skipun fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.

Jafnréttisráð skal að öllu jöfnu funda mánaðarlega og ekki sjaldnar en sex sinnum á ári. Á hverju ári skulu forsetar fræðasviða, gæða- og mannauðsstjóri, forstöðumaður markaðs- og kynningarmála og framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu mæta á fund ráðsins, þar sem farið er yfir stöðu jafnréttismála í skólanum í heild og á hverju fræðasviði. Þá skal meta hvernig verkefnum áætlunar þessarar miðar áfram og grípa til nauðsynlegra ráðstafana eða endurskoðunar ef ekki miðar sem skyldi.

Jafnréttisráð birtir samantekt á starfsemi ráðsins í ársskýrslu HA.

Helstu hlutverk ráðsins eru:

  • Eftirfylgni þessarar áætlunar.
  • Eftirfylgni með Stefnu um jafnt aðgengi að námi og störfum við Háskólann á Akureyri.
  • Stuðla að því að kynjasamþættingar sé gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð.
  • Tryggja að stúdentar og starfsfólk hljóti fræðslu um jafnréttismál.
  • Vera í tengslum við Jafnréttisstofu, svo sem vegna jafnlaunavottunar og jafnréttisáætlunarinnar.

Tími: Jafnréttisráð er skipað til tveggja ára í senn.
Ábyrgð: Rektor ber ábyrgð á skipan jafnréttisráðs og störfum þess.

1.2. Fulltrúar í jafnréttisráði

Fulltrúar í jafnréttisráði skulu, sér að kostnaðarlausu, sækja námskeið um jafnrétti kynjanna og samþættingu kynjasjónarmiða (sjá lið 2.1. hér á eftir). Þá skulu þeir hafa yfirsýn yfir kynjahlutföll í hópi starfsfólks og stúdenta á sínu sviði. Hlutverk þeirra er að hvetja til þess að áætluninni sé framfylgt og vera tengiliður milli umbjóðenda sinna og jafnréttisráðs. Til að svo megi verða skulu þau sem gegna hlutverkinu hverju sinni vera undanþegin einhverjum öðrum þeim verkefnum sem að jafnaði tilheyra þeirra störfum, í því skyni skal leitað til viðkomandi yfirmanns.

Tími: Fulltrúar í ráðinu skulu sækja námskeið og vera virkir í starfi sínu innan sex mánaða frá skipan nýs ráðs.
Ábyrgð: Rektor, sviðsforsetar, framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu og jafnréttisráð.

2. Kynjasamþætting* í stjórnsýslunni

Kynja- og jafnréttissjónarmið skulu samþætt allri starfsemi háskólans s.s. við stjórnun, mannauðsmál, kennslu og rannsóknir og jafnrétti kynja haft að leiðarljósi við stefnumótun, ákvarðanatöku og áætlanagerð, sbr. 30. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. 150/2020 (jafnréttislaga). Fræðsla um jafnréttismál til handa stjórnendum er grunnforsenda þess að samþætting verði árangursrík. 

*Sjá skilgreiningu á kynjasamþættingu og fleiri hugtökum sem notuð eru í þessari áætlun, í 2. gr. jafnréttislaga.

2.1. Kynning og fræðsla

Eftir samþykkt jafnréttisáætlunarinnar skal hún kynnt öllum stjórnendum skólans á sérstöku námskeiði eða fundi. Það skal tryggt á hverjum tíma að stjórnendur skólans og fulltrúar í jafnréttisráði hafi grundvallarþekkingu á aðferðafræði kynjasamþættingar, á áhrifum ómeðvitaðra kynbundinna fordóma og á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og öðrum opinberum skuldbindingum sem lúta að jafnrétti kynjanna. Til að tryggja það skal reglulega halda námskeið fyrir fulltrúa í ráðinu, auk stjórnenda. Þá skal tryggt að jafnréttisáætlun skólans og áhersluþættir úr henni séu sýnileg á vefsíðu skólans og kynningarefni.

Tími: Innan þriggja mánaða frá samþykkt háskólaráðs og Jafnréttisstofu á áætluninni.
Ábyrgð: Rektor, jafnréttisráð, framkvæmdastjórn og forstöðumaður markaðs- og kynningarmála.

2.2. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða – jafnréttisskimun

Öll fræðasvið, stofnanir og stjórnsýsla háskólans skulu samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í starfsemi sína. Þegar unnið er að stefnumótun eða ákvarðanir teknar skal ávallt huga að því að taka mið af þörfum og viðhorfum kynjanna og greina afleiðingar stefnu og aðgerða með tilliti til jafnréttis.
Útbúa skal sérstakt eyðublað sem einfaldar og auðveldar þetta ferli.

Tími: Eyðublaðið skal tilbúið og kynnt fyrir starfsfólki haustið 2021 og komið í reglulega notkun í nefndum og ráðum og á öllum sviðum skólaárið 2021 - 2022.
Ábyrgð: Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á framkvæmd en gæða- og mannauðsstjóri og jafnréttisráð á endurskoðun eyðublaðsins.

2.3. Kyngreindar upplýsingar

Tölulegar upplýsingar, svo sem varðandi framgang í starfi og rannsóknarvirkni, skulu kyngreindar þegar við á og liggja fyrir á vefsíðu HA nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir mæli gegn því.

Tími: Viðvarandi.
Ábyrgð: Lykiltöluteymi HA.

2.4. Almenn fræðsla og ráðgjöf um jafnréttismál

Allt starfsfólk og stúdentar háskólans skulu eiga kost á og vera hvött til að sækja fræðslu og ráðgjöf um jafnrétti kynja og kynjasamþættingu ár hvert. Við móttöku nýrra starfsmanna og á nýnemadögum skal kynna þessa áætlun.

Tími: Árlega.
Ábyrgð: Jafnréttisráð, gæða- og mannauðsstjóri og forstöðumaður markaðs- og kynningarmála

2.5. Jafnrétti kynja í minnihlutahópum

Sérstök áhersla skal lögð á að tryggja að kynjamisrétti viðgangist ekki í þeim hópum sem kunna að búa við annars konar misrétti, s.s. vegna fötlunar, litarháttar, þjóðernis, kynhneigðar, trúar eða annarra þátta. Í tengslum við eftirfylgni Stefnu um jafnt aðgengi að námi og störfum við Háskólann á Akureyri, Málstefnu Háskólans á Akureyri o.fl. skal ávallt hafa í huga að staða kvenna og karla í minnihlutahópum kann að vera ólík og gæta þess að huga sérstaklega að því kyni sem á hallar hverju sinni.

Tími: Viðvarandi.
Ábyrgð: Jafnréttisráð og gæða- og mannauðsstjóri.

II. Aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna meðal starfsfólks 

3. Laun starfsfólks

Markmið: Að innan Háskólans á Akureyri finnist enginn kynbundinn launamunur.

3.1. Eftirfylgni

Til viðhalds jafnlaunavottunar er framkvæmd reglubundin innri úttekt á ferlum jafnlaunavottunar. Jafnréttisráð útnefnir fulltrúa til að taka þátt í innri úttekt.

Tími: Tvisvar á ári samkvæmt úttektaráætlun.
Ábyrgð: Jafnréttisráð.

3.2. Kynning á niðurstöðum innri úttektar

Jafnréttisráð skal útnefna fulltrúa í rýni stjórnenda þar sem niðurstöður innri úttektar eru kynntar og aðgerðaáætlun mótuð. Fulltrúinn hefur málfrelsi og tillögurétt á fundum en ekki atkvæðisrétt.*

Tími: Árlega.
Ábyrgð: Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu.

*Grein 3.2. var endurskoðuð með ákvörðun háskólaráðs 16. desember 2021 og seinni málslið bætt við.

4. Kynjaskipting starfa

MarkmiðStörf við HA skulu ekki flokkast í karla- og kvennastörf. 

4.1. Auglýsingar og ráðningar

Við auglýsingar á störfum og við ráðningar skal þess ávallt gætt að stuðla að jafnvægi milli kynjanna í viðkomandi starfshópi. Við auglýsingar á störfum skal þess gætt að ekki sé einungis gert ráð fyrir karl- og kvenkyni, sbr lög nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði og lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Hvert það starf sem laust er til umsóknar skal opið öllum kynjum.

Tími: Viðvarandi.
Ábyrgð: Gæða- og mannauðsstjóri.

4.2. Stjórnunarstöður

Við ráðningar í stjórnunarstöður við HA skal gæta þess að hafa hlut kvenna og karla sem jafnastan.

Ábyrgð: Rektor, framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu og gæða- og mannauðsstjóri.
Tími: Viðvarandi.

4.3. Rannsóknir

Sjá skal til þess að öll kyn hafi sömu tækifæri til rannsóknarvirkni og öflunar rannsóknarstiga og til að sækja um styrki í rannsóknarsjóði.

Tími: Á þetta skal minnt ár hvert í tengslum við kynningar á rannsóknarmisserum og styrkjum úr rannsóknarsjóðum.
Ábyrgð: Forsetar fræðasviða, rannsóknamisseranefnd og stjórnir sjóða.

4.4. Endurmenntun

Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að öll kyn njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf, sbr. 2. mgr. 12. gr. jafnréttislaga.

Tími: Árlega.
Ábyrgð: Gæða- og mannauðsstjóri og næsti yfirmaður hvers starfsmanns.

4.5. Akademísk húsverk og önnur tilfallandi störf

Gæta skal þess að svokölluð akademísk húsverk og önnur tilfallandi störf falli jöfnum höndum á allt akademískt starfsfólk, óháð kyni.

Tími: Viðvarandi.
Ábyrgð: Næsti yfirmaður hvers starfsmanns.

4.6. Sýnileiki kynjanna

Reynt skal eftir fremsta megni að tryggja að hlutföll karla og kvenna séu sem jöfnust meðal starfsfólks sem kemur fram fyrir hönd háskólans. Á það við um fjölmiðla, á vefsíðu HA, á fundum og viðburðum. Í því skyni skal skólinn hafa lista yfir sérfræðisvið starfsfólks tiltækan ef fjölmiðlar falast eftir að tala við fólk með ákveðna sérfræðiþekkingu. Jafnframt skal starfsfólk markaðs- og kynningarmála fylgjast með hlutfalli kynjanna meðal þeirra sem koma fram fyrir hönd skólans og kynna niðurstöðurnar fyrir jafnréttisráði einu sinni á ári. Finnist kynjahalli má beita sértækum úrræðum til að leiðrétta þann halla, svo sem með fjölmiðlaframkomunámskeiði.

Tími: Viðvarandi.
Ábyrgð: Forstöðumaður markaðs- og kynningarmála og jafnréttisráð.

5. Nefndir og ráð

Markmið: Ávallt skulu sitja sem næst jafnmargar konur og karlar í öllum nefndum og ráðum á vegum HA. Málefnaleg rök skulu liggja fyrir ef vikið er frá þessum markmiðum, sbr. 28. gr. jafnréttislaga.

5.1. Kona og karl í hvert sæti

Þegar óskað er tilnefninga í nefndir, innan sem utan HA, skal tilnefna bæði karl og konu í hvert sæti og sá eða sú sem skipar nefndina velur af handahófi jafnt hlutfall kynjanna úr þeim hópi. Heimilt er að víkja frá þessu þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að það er ekki mögulegt, sbr. 2. mgr. 28. gr. jafnréttislaga. Ákvæði þetta kemur ekki í veg fyrir tilnefningu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.

Tími: Viðvarandi.
Ábyrgð: Rektor.

5.2. Framkvæmdastjórn

Í framkvæmdastjórn skal leitast við að tryggja sem jafnast hlutfall kvenna og karla. Náist það ekki skal leita leiða til að leiðrétta þann halla, svo sem með því að huga að breyttri samsetningu.

Tími: Viðvarandi.
Ábyrgð: Háskólaráð og rektor.

6. Starfsumhverfi

Markmið: Leita skal allra leiða til að jafna aðstöðu þeirra sem nema og starfa við HA og skapa umhverfi þar sem öll kyn njóta sín. Einelti, ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni og kynbundið og kynferðislegt ofbeldi er aldrei liðið. 

6.1. Fræðsla

Fræðsluefni um eðli, afleiðingar og viðbrögð við kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi skal vera aðgengilegt í handbók stúdenta á vefsíðu HA. Þar skulu vera upplýsingar um ferli fyrir kvartanir, s.s. vegna kynbundinnar áreitni. Í upphafi hvers skólaárs skal setja umræðu um kynbundna áreitni og mismunun á dagskrá sviðsfunda og deildarfunda, jafnframt skal ávallt minnt á þetta við bæði stúdenta og starfsfólk þegar rætt er um starfsumhverfi, öryggi og líðan í skólanum.

Tími: Tryggt skal að slíkar upplýsingar liggi ávallt fyrir og séu aðgengilegar fyrir bæði stúdenta og starfsfólk.
Ábyrgð: Forstöðumaður náms- og starfsráðgjafar, gæða- og mannauðsstjóri, SHA, forstöðumaður markaðs- og kynningarmála, sviðsforsetar, deildarformenn og aðrir stjórnendur.

6.2. Skýrt viðbragðsferli

Háskólaráð skipar fagráð til þriggja ára í senn sem hefur það hlutverk að taka til meðferðar mál er varða einelti, ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni og kynbundið og kynferðislegt ofbeldi.

Tími: Viðvarandi.
Ábyrgð: Fagráð um viðbrögð við einelti, ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni og kynbundið og kynferðislegt ofbeldi.

6.3. Samræming einkalífs og vinnu

Þar sem því verður við komið skal gæta þess að hafa ákveðinn sveigjanleika, t.d. hvað varðar vinnuaðstöðu og vinnutíma, svo að starfsfólk geti samræmt starf og einkalíf. Sérstaklega skal hafa þetta í huga þegar fólk snýr aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof, veikindaleyfi eða úr leyfi vegna brýnna fjölskylduaðstæðna (sjá Mannauðsstefnu HA og aðgerð 2.2. kynjasamþætting - gátlisti).

Tími: Viðvarandi.
Ábyrgð: Gæða- og mannauðsstjóri, rektor, forstöðumenn á háskólaskrifstofu og forsetar fræðasviða.

III. Aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna meðal stúdenta

7. Kynjasamþætting í kynningarefni og félagsstarfi

Markmið: Í öllu starfi og námi stúdenta við Háskólann á Akureyri skal staða kvenna og karla vera sem jöfnust sem og staða þeirra í stjórnarstörfum. Heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að það er ekki mögulegt, sbr. 2. mgr. 28. gr. jafnréttislaga. Ákvæði þetta kemur ekki í veg fyrir tilnefningu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.

7.1. Í kynningarefni Háskólans á Akureyri skulu bæði konur og karlar vera sýnileg 

Háskólinn skal, í samvinnu við SHA, gæta þess að allt kynningarefni skólans sýni bæði konur og karla og vinni þannig gegn staðalímyndum um hlutverk kynjanna

Tími: Viðvarandi.
Ábyrgð: Forstöðumaður markaðs- og kynningarmála og SHA.

7.2. Jöfn virkni í félagsstarfi

Markvisst skal hvetja til virkni í félagsstarfi stúdenta og tryggja að bæði konur og karlar séu tilnefnd í trúnaðar- og stjórnarstörf innan SHA sem og í nefndir og ráð háskólans, sbr. 28.gr. jafnréttislaga. Ákvæði þetta kemur ekki í veg fyrir tilnefningu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.

Tími: Í byrjun hvers skólaárs skal minna á að hlutföll kvenna og karla meðal stúdenta í ráðum og stjórnum skulu vera sem jöfnust.
Ábyrgð: SHA, jafnréttisráð og forstöðumaður markaðs- og kynningarmála.

8. Kynjasamþætting í náminu

MarkmiðKynjafræði skal fá aukið vægi í námsframboði skólans og kynjasjónarhornið samþætt öllum námsþáttum eftir því sem við á, til samræmis við 15. gr. jafnréttislaga. Einnig skal bjóða upp á námskeið sem taka á afmörkuðum þáttum kynjafræði.

8.1. Kynjafræði

Stefnt skal að því að bjóða upp á kynjafræði fyrir stúdenta í öllum deildum skólans. Fræðasviðin ákveða nánar um framkvæmd og setja fram áætlun.

Tími: Hugmyndin skal kynnt og rædd á deildarfundum fræðasviða haustið 2021.
Ábyrgð: Formenn námsnefnda og jafnréttisráð.

8.2. Kynjasamþætting í námsgreinum

Skoða skal öll námskeið m.t.t. þess hvort kyn getur verið breyta í viðkomandi námskeiðum. Ef svo er skal kynjasjónarhornið fléttað inn í kennslu og skal það koma fram í náms- og kennsluskrám og/eða lærdómsviðmiðum, sbr. 15. gr. jafnréttislaga.

Tími: Viðvarandi.
Ábyrgð: Umsjónarkennarar, námsnefndir og deildarformenn.

8.3. Árlegt jafnréttisátak

Ár hvert skal jafnréttisráð í samvinnu við SHA standa fyrir jafnréttisátaki þar sem vakin er athygli á jafnrétti. s.s. í formi málþinga, torga, erinda, námskeiða, listviðburða, hópastarfs o.fl. sem snýr að jafnrétti kynjanna. Tryggja skal þátttöku stúdenta og starfsfólks í sem flestum viðburðum, en einnig skulu einhverjir viðburðir opnir almenningi.

Tími: Jafnréttisdagar sem eru á vormisseri ár hvert.
Ábyrgð: Jafnréttisráð, SHA, forsetar fræðasviða og forstöðumenn stofnana.

Samþykkt af háskólaráði 15. apríl 2021
Staðfest af Jafnréttisstofu 19. apríl 2021