422. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐ
Fimmtudaginn 21.01.2021 kl. 13:30. Rafrænn fundur á Teams

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:32.

Mætt voru auk hans:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð

Gestir:

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu og forstöðumaður fjármála og greiningar sátu þennan lið fundarins.

  • Fjárhagsáætlun 2021

    Forstöðumaður fjármála og greiningar kynnti endurskoðaða fjárhagsáætlun, sem hefur verið send til menntamálaráðuneytis eftir hækkun á fjárframlögum í fjárlögum. Áætlun var skilað með rúmlega 38 milljón króna halla. Uppsafnaður afgangur síðustu ára vegur upp á móti þessum halla og telst þetta því innan marka. Háskólaráð samþykkir framlagða áætlun fyrir sitt leyti með fyrirvara um samþykkt menntamálaráðuneytis.

  • Drög að rekstrarniðurstöðu 2020

    Forstöðumaður fjármála og greininga kynnti fyrstu drög að rekstrarniðurstöðu 2020. Fyrstu drög gera ráð fyrir lítilsháttar afgangi af rekstri en heildarniðurstaða mun ekki liggja fyrir fyrr en í febrúar.

Forstöðumaður fjármála og greiningar yfirgaf fundinn.

2. Innritun 2021

Fyrir liggja tillögur frá öllum deildum fræðasviðanna um þann fjölda nýnema sem þær telja sig geta tekið á móti. Deildir þurfa að skilgreina sértæk inntökuskilyrði fyrir hverja námsleið og gera ráð fyrir þeirri breytingu sem væntanleg er á lögum um háskóla er varðar inntökuskilyrði í háskóla. Háskólaráð gerir ekki athugasemd við þær tillögur um innritun nýrra nemenda sem liggja fyrir en leggur áherslu á að eins og síðustu ár þá þarf að gæta að heildarnemendafjölda út frá mannauði og fjármagni svo hægt sé að standa vörð um gæði náms. Lagt er upp með að heildarfjöldi nýrra nemenda verði mjög sambærilegur og árið 2020 með að hámarki 5% fjölgun miðað við núverandi fjármögnun.

Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu yfirgaf fundinn.

3. Skólastarf á vormisseri

Stefnt er að rafrænu misseri, með lotum í samræmi við sóttvarnarreglur samkvæmt ákvörðun deilda og mun verknám og klínískt nám hafa forgang í lotum. Kennsla fyrir skiptinema fer fram á staðnum. Ákvörðun um framkvæmd prófa mun liggja fyrir í síðasta lagi á fundi háskólaráðs í mars.

4. Lykilmælikvarðar og markmið í stefnu HA: Ánægja starfsfólks, framhaldsumræður

Framhaldsumræður þeirra mála sem rædd voru í háskólaráði í nóvember og desember. Sjálfsmat deilda, stofnanaúttekt, aðgerðir til að draga úr streitu og álagi starfsfólks, ný könnun um stofnun ársins eru dæmi um verkefni sem eru í gangi. Háskólaráð samþykkir að rektor fylgi eftir þessum verkefnum og nýti þau til að vinna í að efla stjórnun og starfsanda innan HA.

5. Bókfærð mál til samþykktar:

  • Breytingar á Reglum um innritun nýrra stúdenta á 3. eða 4. námsár í hjúkrunarfræði. Samþykkt.

 

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15:23.