399. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fimmtudaginn 19.11.2018 kl. 11. Borgir, R262

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 11:00.

Mætt voru auk hans:

Sólveig María Árnadóttir fulltrúi nemenda
Hermína Gunnþórsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Óskar Þór Vilhjálmsson varafulltrúi háskólasamfélagsins
Björn Ingimarsson fulltrúi menntamálaráðherra

Forföll:

Brynhildur Pétursdóttir
Erla Björg Guðmundsdóttir
Finnbogi Jónsson
Sigfríður Inga Karlsdóttir

Aðrir mættir:

Martha Lilja Olsen ritari og starfsmaður háskólaráðs

Gestir:

Daði Már Kristófersson
Vaka Óttarsdóttir forstöðumaður umbóta og þróunar við hug- og
félagsvísindasvið
Anna Ólafsdóttir starfandi forseti hug- og félagsvísindasviðs
Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir forseti heilbrigðisvísindasviðs
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármálasviðs
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Katrín Árnadóttir forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármögnun háskóla – OECD-viðmið

Fulltrúum úr framkvæmdastjórn var boðið að sitja þennan lið fundarins. Anna Ólafsdóttir, Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, Harpa Halldórsdóttir, Hólmar Svansson og Vaka Óttarsdóttir komu inn á fundinn.
Daði Már Kristófersson hefur verið í vinnuhópi um að skoða OECD-viðmið um framlög til háskóla og samræmingu þeirra við íslenska háskólakerfið. Daði kom á fund háskólaráðs og kynnti útreikninga vinnuhópsins á meðaltalsframlögum OECD landa til háskólastigsins samanborið við framlög íslenskra stjórnvalda til málaflokksins. Stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau stefni að því að framlög til háskóla aukist og verði sambærileg við meðaltal OECD-landanna. Miðað við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2020 og útreikninga sem Daði kynnti er ljóst að það markmið mun ekki nást.

Ef fjármögnun háskóla verður samkvæmt því sem gert er ráð fyrir nú í fjármálaáætlun ríkisstjórnar verður mikil áskorun fyrir Háskólann á Akureyri að takast á við áframhaldandi fjölgun nemenda miðað við umsóknarfjölda undanfarinna ára. Nemendafjöldi og hugsanlegar aðgangstakmarkanir verður því áfram umræðuefni og áskorun Háskólans á Akureyri.

2. Rekstraryfirlit

Fjármálastjóri og framkvæmdastjóri kynntu rekstraryfirlit janúar til október. Staða háskólans í heild í samræmi við áætlanir og gert ráð fyrir að heildarniðurstaða ársins verði jákvæð.

3. Fjárhagsáætlun 2019

Fjármálastjóri og framkvæmdastjóri fóru yfir vinnubrögð við gerð fjárhagsáætlunar 2019 og ný og breytt vinnubrögð við alla áætlanagerð innan skólans. Einnig kynnt samandregin drög að fjárhagsáætlun 2019. Áætlunin mun verða lögð fram til samþykktar í háskólaráði á næsta fundi.
Fjármálastjóri yfirgaf fundinn.

4. Nemendatölur

Framkvæmdastjóri fór yfir þróun í nemendafjölda sl. þrjú ár. Nemendum hefur fjölgað markvisst á hverju ári undanfarin ár og fjölgunin á milli áranna 2017 og 2018 er í heild 15% og eru nemendur háskólans á núverandi haustmisseri samtals 2389. Áætlanir gera ráð fyrir að nemendum fjölgi enn á næsta ári. 

Aðgerðir sl. vor til að draga úr fjölgun nemenda skiluðu ákveðnum árangri miðað við þá fjölgun sem fyrst stefndi í. Það er því mikilvægt að ræða viðbrögð og aðgerðir ef umsóknum um nám heldur áfram að fjölga. Ljóst er að skólinn nálgast hratt þolmörk í fjölda nemenda miðað við núverandi starfsemi og starfsmannafjölda. Háskólaráð óskar eftir að rektor taki málið til umræðu innan háskólasamfélagsins á háskólafundi. Hugað verði m.a. að aðgangsviðmiðum með tilliti til reynslu haustsins og með tilliti til þess að fjármögnun núverandi starfsemi næstu þrjú árin er tryggð. Leggja þarf áherslu á að gæði náms og kennslu sé í fyrirrúmi og í því sambandi er nauðsynlegt að draga úr vinnuálagi á starfsfólk.

5. Skipulagsbreytingar – til kynningar

Framkvæmdastjóri kynnti drög að nýju skipuriti HA. Um er að ræða lítilsháttar breytingar sem eru að mestu gerðar í hagræðingarskyni út frá áætlanagerð og rekstri. Ekki er um neinar breytingar á skipulagi fræðasviða að ræða. Rektorsskrifstofa og háskólaskrifstofa verða sjálfstæðar einingar í skipuriti en áður voru þessar einingar skilgreindar sem „yfirstjórn“ í kerfum skólans. 

Framkvæmdastjóri yfirgaf fundinn.

Endurskoðun á reglum HA

Rektor og Martha Lilja sögðu frá vinnu við endurskoðun á heildarreglum HA, sem nú stendur yfir. Reglurnar eru í vinnslu og munu fara í frekari umræðu innan skólans á vormisseri.

6. Málefni hug- og félagsvísindasvið: skýrsla um stöðu mála

Vaka Óttarsdóttir kom inn á fundinn og kynnti stöðuna í endurskoðunarferlinu á hug- og félagsvísindasviði. Gert er ráð fyrir að tillögur breytingateymis verði lagðar fram á fræðasviðsfundi í desember. Háskólaráð fær því frekari kynningu á þeim tillögum á fundi í desember.

7. Fullveldishátíð HA – 100 ára fullveldi 2018

Forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs kom inn á fundinn og fór yfir dagskrá hátíðarhalda HA í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands. Hátíðin verður tvískipt, annars vegar föstudaginn 30. nóvember og hins vegar 1. desember. Nánari upplýsingar um dagskrá er að finna í viðburðadagatali á vefsíðu skólans.

8. Erindi frá samstarfsneti opinberu háskólanna – Háskólabrú Keilis

Rektor kynnti minnisblað frá samstarfsneti opinberu háskólanna um aðild að samstarfssamningi við Keili um háskólabrú. Háskólaráð felur rektor að skoða málið áfram í samstarfi við gæðastjóra. Gert ráð fyrir að rektor leggi fram tillögu á fundi háskólaráðs í janúar.

9. Önnur mál

  • Hermína óskaði eftir upplýsingum um stöðuna í vinnu starfshóps um Miðstöð skólaþróunar við HA. Rektor greindi frá því að gert væri ráð fyrir að hópurinn skilaði tillögum í desember.
  • Hermína spurðist fyrir um veitingu aukarannsóknamisseri fyrir doktorsnema 2019. Rektor greindi frá því að ein umsókn hefði borist á hug- og félagsvísindasviði og var viðkomandi úthlutað rannsóknamisseri. Ekki bárust umsóknir frá starfsmönnum á öðrum fræðasviðum.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:06.