412. fundur háskólaráðs

Fundargerð háskólaráðs
Fimmtudaginn 2. apríl 2020 kl. 13:30
Rafrænn fundur á Teams

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:35.

Mætt voru auk hans: 

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra
Katrín Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Aðrir mættir:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu ritar fundagerð

Gestir:

Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Jón Torfi Jónasson formaður stjórnar vísindasjóðs

Rektor setti fundinn og kynnti dagskrá. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu og samkomubanns er um rafrænan fund að ræða, haldinn í gegnum samskiptaforritið Teams.

Þar sem fundargerð síðasta fundar lá ekki fyrir fullbúin fyrr en í þessari viku óskaði rektor eftir staðfestingu fulltrúa á samþykkt fundargerðar 411. fundar. Fundargerðin samþykkt.

Rektor sagði frá því að starfsemi háskólans á þessum fordæmalausu tímum gengur vel. Starfsfólk hefur staðið sig með eindæmum vel að koma allri starfsemi skólans á rafrænt form og aðeins örfáir einstaklingar hafa verið í húsnæði skólans á hverjum tíma. Stærsta áskorunin tengist klínísku verknámi, vettvangsnámi og verklegu námi á rannsóknastofum.

Stofnuð var neyðarstjórn HA en hana skipa rektor, formaður öryggisnefndar og framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu. Neyðarstjórnin fundaði daglega fyrstu vikurnar eftir að faraldurinn hófst en dregið hefur úr fundum undanfarið þar sem þær aðgerðir sem gripið var til hafa gengið vel og starfsfólk og nemendur staðið sig mjög vel.

Fjármál og rekstur

Fjármálastjóri og framkvæmdastjóri komu inn á fundinn.
Fjármálastjóri fór yfir rekstraryfirlit fyrstu tvo mánuði ársins 2020. Reksturinn er nokkurn veginn á áætlun en ljóst að reksturinn er í járnum og halda þarf mjög vel utan um mál til að halda rekstrinum innan marka. Covid- 19 mun hafa einhver áhrif til kostnaðarauka fyrir skólann. Sérstaklega var vakin athygli á stöðu stofnana háskólans sem reka sig með sértekjum þar sem fyrirsjáanlegt er að staðan í samfélaginu mun hafa mikil áhrif á tekjumöguleika þessara eininga næstu mánuði.
Fjármálastjóri og framkvæmdastjóri yfirgáfu fundinn.

Aðgerðir vegna COVID-19

Komið hefur fram ósk frá menntamálaráðherra um hvort háskólar muni geta haldið uppi námi í sumar til að stemma stigu við atvinnuleysi námsmanna sem fyrirsjáanlegt er vegna stöðunnar í íslensku atvinnulífi. Háskólinn á Akureyri hefur ekki boðið upp á sumarönn og því myndi það krefjast bæði aukins námsframboðs, aukins kostnaðar og aukins álags á starfsfólk, sem nú þegar er undir miklu álagi. Rektor skoðar með forsetum fræðasviða og framkvæmdastjóra hvort Háskólinn á Akureyri muni geta komið til móts við háskólanema með námsframboði á sumarönn en það þarf að vera með þeim fyrirvara um að það slíkt sé að fullu fjármagnað af stjórnvöldum og að unnt sé að ráða starfsfólk í sumarafleysingar.

Rektor ræddi einnig að gert er ráð fyrir mikilli aðsókn í háskóla á komandi skólaári. Háskólinn á Akureyri hefur verið í markvissri vinnu og aðgerðum til að draga úr vexti í nemendafjölda. Ákvörðun um að fjölga nemendum þyrfti því að vera með mjög miklum fyrirvörum um auknar fjárveitingar stjórnvalda ásamt því að slíkt þyrfti að samrýmast áherslum og stefnumálum skólans. Þar er um að ræða áherslur í tengslum við fjölgun hjúkrunarfræðinema, fjölgun kennaranema, fagháskólanám fyrir sjúkraliða, fagháskólanám í sjávarútvegsfræði og nýtt nám í tæknifræði.
Háskólaráð telur mjög mikilvægt að fyrir liggi samningur við stjórnvöld um aukið fjármagn til lengri tíma áður en hægt er að taka ákvörðun um hvort háskólinn geti tekið við auknum fjölda nemenda. Ekki nægir að fyrir liggi ákvörðun um auknar fjárveitingar á næsta skólaári þar sem inntaka nemenda fyrir skólaárið 2020-2021 þýðir skuldbinding til næstu 3-5 ára.

Rektor sagði frá því að opinberu háskólarnir hafi verið í samtali um að framlengja umsóknarfrest í háskólana til 15. júní. Háskólinn á Akureyri mun fylgja þeirri línu, fyrir utan að umsóknarfrestur í lögreglufræði er þann 4. maí. Háskólaráð gerir ekki athugasemdir við framlengingu á umsóknarfresti.

Fulltrúi stúdenta kynnti niðurstöður könnunar sem SHA gerði meðal stúdenta um líðan og stöðu stúdenta í þessum fordæmalausu aðstæðum í samfélaginu. Ljóst er að staðan hefur gríðarleg áhrif á nemendur, líðan þeirra, streitu og álag, stöðu þeirra í námi, námsárangur og afköst. Nemandafulltrúi vildi koma á framfæri þökkum til kennara og annarra starfsmanna fyrir sveigjanleika og að koma til móts við þessar breyttu aðstæður.

Háskólaráð samþykkir eftirfarandi bókun um framkvæmd námsmats á vormisseri 2020:

„Þrátt fyrir ákvæði reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009, reglna um námsmat við Háskólann á Akureyri nr. 921/2018 og annarra reglna Háskólans sem í gildi eru um kennslu, fyrirkomulag prófa og námsmat gildir eftirfarandi ákvæði um vormisseri háskólaársins 2019-2020: Deildum er heimilt í nánu samráði við forseta viðkomandi fræðasviðs að ákveða með hvaða hætti framkvæmd kennslu, prófa og námsmats vegna vormisseris 2020 verður fyrir komið. Skal leitast við að fara eftir gildandi reglum um námsmat eftir því sem unnt er. Ákvæði námsmatsreglna um að nemendur þurfi að ná lágmarkseinkunn í öllum námsmatsþáttum munu ekki gilda á vormisseri 2020. Vegið meðaltal allra námsmatsþátta gildir þá sem lokaeinkunn. Nemendur sem staðist hafa námsmat í námskeiði á vormisseri skv. ákvörðun deildar geta óskað eftir að fá birtri lokaeinkunn breytt í „staðið“ á námsferli. Gjald vegna skráningar í endurtökupróf verður ekki innheimt á vormisseri 2020. Deildir skulu leitast við að hafa samráð um breytingarnar við fulltrúa stúdenta eftir því sem kostur er. Markmiðið er að létta álagi af nemendum vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem nú eru uppi og gera nemendum kleift að ljúka námi á vormisseri 2020 þannig að það hindri ekki frekari framgang í námi eða starfi næsta árs. Auglýsing þessi er birt með stoð í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla og taka ákvæði hennar þegar gildi.“
Kristján Þór Magnússon vék af fundi kl. 15:48.

Innritun 2020 – Aðgerðir vegna nemendafjölda

Fyrir liggur álit frá þremur deildum háskólans; hjúkrunarfræðideild, framhaldsnámsdeild á heilbrigðisvísindasviði og kennaradeild, vegna fyrirhugaðra aðgerða til að takmarka fjölda nýnema.

Hjúkrunarfræðideild: Háskólaráð styður eindregið við þær tillögur sem liggja fyrir í ráðuneytinu um fjölgun hjúkrunarfræðinema og skorar á stjórnvöld að bregðast hratt við og auka fjármagn til Háskólans á Akureyri svo unnt sé að fjölga hjúkrunarfræðinemum. Aðsóknin í hjúkrunarfræðinám við Háskólans á Akureyri hefur verið mjög mikil undanfarin ár og því ljóst að ef nægilegt fjármagn fæst getur Háskólinn á Akureyri fjölgað þeim hjúkrunarfræðinemum sem komast áfram eftir samkeppnispróf um 20 í áföngum.

Kennaradeild: Sýnt hefur verið fram á að kennaraskortur mun verða vandamál í íslensku samfélagi á næstu árum ef ekki verður brugðist við og hefur menntamálaráðherra lagt áherslu á að fjölga útskrifuðum kennurum. MT nám hluti af þessu. Óskað er eftir að háskólaráð forgangsraði í þágu kennaranáms og hins vegar að skorað verði á stjórnvöld að veita meira fjármagni í kennaranám. Óskað eftir að háskólaráð taki skýra afstöðu til átaks stjórnvalda um að fjölga kennaranemum og hætti við þá fyrirætlun að fækka nýnemum í kennaranámi eins og ráð er fyrir gert.  Háskólaráð ítrekar að ef til kemur aukafjármagn frá stjórnvöldum þá verði því varið í þau verkefni sem háskólinn hefur lagt áherslu á að vanti fjármagn í, þ.e. hjúkrunarfræði og kennaranám og til viðbótar fagháskólanám sem áætlanir liggja fyrir um sem og tæknifræðinám. Háskólaráð bendir á að án aukins fjármagn er nauðsynlegt að viðhalda núverandi starfsemi háskólans innan fjárhagsramma og því óhjákvæmilegt að til komi aðgangstakmarkanir ef ekki kemur til aukið fjármagn. Háskólaráð telur því ekki ástæðu til að víkja frá fyrri ákvörðun um fjölda nemenda í kennaranám.

Framhaldsnámsdeild heilbrigðisvísindasviðs: Við framhaldsnámsdeild er í boði klínískt sérnám í heilsugæsluhjúkrun en þessi kennsla er samkvæmt samningi á milli Háskólans á Akureyri og heilbrigðisstofnana. Samkvæmt þeim samningi er háskólinn skuldbundinn til að taka inn 12 nemendur á ári í þetta nám. Framhaldsnámsdeild heilbrigðisvísindasviðs óskar eftir því að þessir 12 nemendur séu utan við þann kvóta nýrra nemenda sem framhaldsnámsdeild hefur verið heimilað að taka inn á haustmisseri 2020. Háskólaráð samþykkir að koma til móts við þessa ósk frá framhaldsnámsdeild heilbrigðisvísindasviðs með því að fjölga þeim nemendum sem teknir eru inn í deildina um 6 vegna þeirra skuldbindinga sem skólinn hefur gengist undir í samningi um þetta nám. Heildarfjöldi nýrra nemenda við framhaldsnámsdeild heilbrigðisvísindasvið verði því 66 í staðinn fyrir 60. Þessari ráðstöfun fylgir ekki aukið fjármagn.

Úthlutun úr rannsóknasjóði á vormisseri 2020

Formaður stjórnar vísindasjóðs, Jón Torfi Jónasson, kom inn á fundinn og fór yfir úthlutun úr rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri árið 2020. 29 umsóknir bárust og 20 umsóknir fengu úthlutun. Til úthlutunar voru 20 milljónir samtals og voru einstaka úthlutanir frá kr. 250.000 upp í kr. 1.800.000.

Tillögur um breytingu á Rannsóknarsjóði HA

Rektor óskaði sl. haust eftir því að stjórn vísindasjóðs skoðaði hugsanlegar breytingar á aðferðafræðinni við úthlutun úr rannsóknasjóði. Jón Torfi Jónasson formaður stjórnar Vísindasjóðs kynnti helstu niðurstöður skýrslu sem unnin hefur verið um rannsóknasjóð ásamt tillögum að útfærslu á nýju fyrirkomulagi.
Rektor er falið að koma þessum hugmyndum og tillögum í frekari umræðu innan háskólasamfélagsins og taka málið til umræðu innan framkvæmdastjórnar og óska eftir umsögn vísindaráðs áður en lengra er haldið með málið.

Álit Umboðsmanns Alþingis

Rektor upplýsti háskólaráð um niðurstöðu umboðsmanns Alþingis sem varðar málsmeðferð innan háskólans í starfsmannamáli.

Bókfærð mál til samþykktar

  • Fjöldatakmarkanir í hjúkrunarfræði á vormisseri 2021. Samþykkt.
  • Reglur um aðstöðugjald. Háskólaráð óskar eftir umsögn vísindaráðs um reglurnar áður en þær fara í lokasamþykkt. Gert ráð fyrir að reglurnar verði teknar fyrir aftur á næsta fundi háskólaráðs.
  • Reglur um tölvunotkun. Reglurnar ekki tilbúnar til samþykktar og verða því lagðar fram aftur á næsta fundi háskólaráðs.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:48.