419. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fimmtudaginn 22.10.2020 kl. 13:30. Rafrænn fundur á Teams

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:35.

Mætt voru auk hans:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð

Gestir:

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar
Vaka Óttarsdóttir gæða- og mannauðsstjóri

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

Forstöðumaður fjármála og greininga og framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu komu inn á fundinn.

Forstöðumaður fjármála fór yfir rekstraryfirlit janúar til september. Reksturinn í jafnvægi en síðasti hluti ársins alltaf þyngstur í rekstrinum.

Forstöðumaður fjármála og greininga fór jafnframt yfir stöðu mála í gerð fjárhagsáætlunar 2021.

Forstöðumaður fjármála og greininga yfirgaf fundinn.

Rektor fór yfir áætlaðar fjárveitingar HA skv. útkomnu fjárlagafrumvarpi 2021 og næstu þrjú ár. Enn vantar upp á fjárveitingar miðað við samtöl við stjórnvöld síðastliðið vor þegar þrýst var á að HA félli frá nauðsynlegum aðgangstakmörkunum. Skilyrði þess var að skólinn fengi fjárframlög miðað við þá fjölgun nemenda sem orðið hefur undanfarin ár og er umfram það sem háskólinn hefur fengið greitt fyrir í fjárveitingum ásamt fjárveitingum fyrir sérstökum verkefnum vegna áherslu stjórnvalda, svo sem fjölgun hjúkrunarfræðinema og fagháskólanáms fyrir sjúkraliða.

Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu yfirgaf fundinn.

2. Nemendafjöldi

Nemendafjöldi við Háskólann á Akureyri miðað við 15. október síðastliðinn er samtals 2.539 nemendur, sem er mesti fjöldi nemenda við HA frá upphaf.

  • Innritun um áramót

Samþykkt að heimila nemendum sem skráðir eru á haustmisseri 2020 að skrá sig í nám við aðrar deildir á vormisseri 2021 eftir því sem aðstæður leyfa í hverri deild. Jafnframt verði tekið við umsóknum frá þeim sem eiga þegar opinn námsferil við skólann og vilja hefja nám á ný. Ekki verður almennt opnað fyrir umsóknir nýrra nemenda.
Leitast sé eftir því að samræma á milli fræðasviða hvað telst vera opinn námsferill með tilliti til hversu langt er síðan viðkomandi hefur verið í virku námi við skólann.

3. Skólastarf á haustmisseri

  • Líðan nemenda v/covid og aðgerðir

Lagðar fram niðurstöður könnunar SHA um líðan og aðstæður stúdenta HA, sem framkvæmd var á dögunum en svarhlutfall var um 13%. Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að stór hluti stúdenta líði ekki vel í þeim aðstæðum sem ríkja í samfélaginu, yfir 70% svarenda sögðust hafa upplifað aukið álag og streitu og svipað hlutfall svarenda sögðust finna fyrir kvíða og depurð. Það er því mikilvægt að farið hefur verið í aðgerð til að styðja við ráðgjöf og þjónustu nemenda, meðal annars með því að fjölga starfsfólki við námsráðgjöf og tímabundinni ráðningu sálfræðings. En til viðbótar telja stúdentar mikilvægt að eyða allri óvissu um framkvæmd prófa á haustmisseri.

  • Framkvæmd prófa og námsmats á haustmisseri

Háskólaráð bókar eftirfarandi varðandi framkvæmd prófa og námsmats vegna haustmisseris 2020:

Í ljósi takmarkana á skólastarfi vegna farsóttar er ljóst að breyta þarf fyrirkomulagi prófa sem áætluð voru á prófstöðum á haustmisseri 2020, á hér einnig við um próf sem áætluð eru á símatsdögum. Önnur próf en próf sem eru hluti af samkeppnisprófum eða þar sem fjöldatakmarkanir eru verða ekki haldin á prófstöðum vegna námsmats haustmisseris 2020. Í einstaka tilfellum geta forsetar veitt undanþágu frá þessari reglu.

Fyrirkomulag lokaprófa skal liggja fyrir í síðasta lagi 2. nóvember næstkomandi. Umsjónarkennarar námskeiða ákveða tilhögun námsmats í samráði við stjórnendur á fræðasviði og verða nauðsynlegar breytingar á námsmati gerðar að höfðu samráði við fulltrúa stúdenta eftir því sem kostur er. Skal leitast við að fara eftir gildandi reglum um námsmat eftir því sem unnt er. Ef gerðar eru breytingar á fyrirkomulagi eða framkvæmd prófs eða öðru námsmati skal námsmat í endurtökupróftíð vera sambærilegt og í reglulegri próftíð.
Nemendur sem staðist hafa námsmat í námskeiði á haustmisseri 2020 geta óskað eftir að fá birtri lokaeinkunn breytt í „staðið“ á námsferli.

Gjald vegna skráningar í endurtökupróf verður ekki innheimt á haustmisseri 2020.

Samkeppnispróf verða haldin á próftökustöðum og nemendum skipt upp í hópa í samræmi við fyrirmæli stjórnvalda um takmarkanir á skólastarfi vegna farsóttar. Ef allir nemendur geta ekki tekið próf á sama tíma vegna fjöldatakmarkana er heimilt að dreifa próftöku yfir daginn.

Ákvarðanir um framkvæmd prófa og námsmats eru teknar í samræmi við leiðbeiningar stjórnvalda hverju sinni og er þessi ákvörðun kynnt með það að markmiði að eyða óvissu um framkvæmd prófa á haustmisseri til þess að létta álagi af nemendum vegna aðstæðna í samfélaginu vegna COVID-19 og gera nemendum kleift að ljúka námi á haustmisseri 2020.

4. Umfjöllun um HA í fjölmiðlum

Rektor fór yfir nokkur mál sem varða HA og hafa verið í umfjöllun í fjölmiðlum undanfarið.

5. Umræða um lykilmælikvarða og markmið í stefnu HA: Ánægja starfsfólks

Vaka Óttarsdóttir gæða- og mannauðsstjóri HA kom inn á fundinn og fór yfir stöðuna í mannauðsmálum, sérstaklega þáttum er snerta streitu og álag, ásamt kynningum á aðgerðum til að bæta líðan starfsfólks.

Kristján yfirgaf fundinn kl. 15:53.

Gæða- og mannauðsstjóri yfirgaf fundinn kl. 16:23.

6. Til fróðleiks og upplýsinga

  • Ársskýrsla siðanefndar 2019-2020

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:36.