420. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fimmtudaginn 18.11.2020 kl. 13:30. Rafrænn fundur á Teams

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:35.

Mætt voru auk hans:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra
Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Forföll:

Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins

Einnig mætt:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð

Gestir:

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu
Harpa Halldórsdóttir forstöðumaður Fjármála og greiningar
Elín Díanna Gunnarsdóttir forseti Hug- og félagsvísindasviðs
Lars Gunnar Lundsten forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna
Rannveig Björnsdóttir forseti Viðskipta- og raunvísindasviðs


Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

Framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu og forstöðumaður fjármála og greiningar komu inn á fundinn.

  • Rekstraryfirlit: Forstöðumaður fjármála og greiningar fór yfir rekstraryfirlit janúar til október. Staðan svipuð og undanfarna mánuði þar sem að það stefnir í jafnvægi í rekstri skólans við árslok.
  • Fjárhagsáætlun 2021: Fjárhagsáætlun 2021 var kynnt og hefur verið skilað til menntamálaráðuneytis með um 146 milljón króna halla, með fyrirvara um samþykkt háskólaráðs.
  • Stefna ríkisaðila til þriggja ára – HA: Stefnuskjali ríkisaðila til þriggja ára hefur verið skilað til menntamálaráðuneytisins.
  • Fréttir af nýju reiknilíkani háskólanna: Rektor fór yfir stöðu mála við endurskoðun á reiknilíkani háskólanna.

Háskólaráð minnir á að fallið var frá aðgangstakmörkunum síðastliðið vor eftir samtal við stjórnvöld og því er treyst á að stjórnvöld standi við orð sín um fjármögnun háskólans svo unnt sé að standa undir vexti skólans í ár, og undanfarin ár, án þess að ganga frekar á mannauð háskólans.

Ekki er unnt að samþykkja framlagða fjárhagsáætlun formlega fyrr en ljóst er hvernig stjórnvöld muni tryggja fjármögnun háskólans á næsta ári. Háskólaráð gerir þó ekki athugasemd við áætlunina út frá útreikningi á nauðsynlegum gjöldum til að standa undir rekstri og starfsemi skólans.

Framkvæmdastjóri og forstöðumaður fjármála og greininga yfirgáfu fundinn.

2. Rannsóknir og stigamat

Lars Gunnar Lundsten forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna, Elín Díanna Gunnarsdóttir forseti Hug- og félagsvísindasviðs og Rannveig Björnsdóttir forseti Viðskipta- og raunvísindasviðs komu inn á fundinn.

Lars Gunnar fór yfir rannsóknavirkni starfsfólks HA árið 2019, þróun rannsóknavirkni undanfarinnar ára og uppbyggingu doktorsnáms 2018-2020. Heildarfjöldi rannsóknastiga starfsfólks HA árið 2019 er meiri en nokkru sinni áður og því ljóst að rannsóknavirkni starfsfólks hefur mikið farið upp á við síðastliðin ár. Í kjölfarið sköpuðust umræður um rannsóknavirkni og aðstæður starfsfólks HA til rannsókna og uppbyggingu doktorsnáms við HA.

Háskólaráð fagnar þessum árangri og þróun í rannsóknavirkni og þakkar fyrir góða kynningu á stöðu mála.

Forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna, forseti Hug- og félagsvísindasviðs og forseti Viðskipta- og raunvísindasviðs yfirgáfu fundinn.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir yfirgaf fundinn.

3. Starfsemi háskólans á haustmisseri

Starfsemi háskólans gengur almennt vel í ljósi stöðunnar í samfélaginu. Aðeins próf sem tengjast námskeiðum þar sem eru samkeppnispróf eða fjöldatakmarkanir eru haldin á prófstöðum.

Rektor benti á að frumvarp til breytinga á háskólalögum er í almennu samráði í samráðsgátt stjórnvalda. Ef frumvarpið verður samþykkt mun það hafa áhrif á starfsemi og inntöku nýrra nemenda næsta vor. Rektor mun vinna umsögn fyrir hönd Háskólans á Akureyri.

Rætt að stefna ætti að því að nám og kennsla við háskólann á vormisseri verði áfram með rafrænum hætti eins mikið og mögulegt er líkt og á haustmisseri. Áherslan verði á að verkleg kennsla og klínískt nám verði á staðnum en allt annað rafrænt. Áherslan verði á að skipulagið verði eins fyrirsjáanlegt og mögulegt er þannig að hugsanlegar breytingar á aðstæðum í samfélaginu hafi eins lítil áhrif á starfið og mögulegt er. Skipulagið er í skoðun innan háskólans og verður lokaákvörðun tekin í desember.

4. Bókfærð mál til samþykktar:

  • Nýtt námsframboð: Fagnám til grunndiplómu fyrir sjúkraliða. Samþykkt.
  • Endurskoðaðar reglur um gjaldskrá. Reglurnar samþykktar. Erindi Lagadeildar um að undanskilja ríkisborgara frá norðurslóðaríkjum í reglunum er synjað en háskólaráð hvetur til þess að leitað verði leiða til að koma til móts við ákveðinn hóp umsækjenda frá norðurslóðaríkjum.
  • Sérreglur sálfræðideildar um námsmat. Þar sem um grundvallarbreytingar á námsmati við deildina er að ræða óskar háskólaráð eftir umsögn frá gæðaráði, stúdentaráði og deildarráði Hug- og félagsvísindasviðs áður en reglurnar eru samþykktar. Rektor falið að óska eftir þessum umsögnum. Málið verður tekið aftur fyrir eftir áramót.
  • Skipulagsskrá Végeirsstaðasjóðs. Með breytingu á skipulagsskrá sjóðsins verður Végeirsstaðasjóður skilgreindur sem sjálfseignarstofnun. Samþykkt.

5. Til fróðleiks og upplýsinga

  • Húsnæðismál – svar frá menntamálaráðuneyti. Háskólaráð felur rektor að halda áfram með málið og óska eftir samtali við menntamálaráðuneytið um næstu skref við uppbyggingu á húsnæði háskólans.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:56.