426. fundur háskólaráðs

Fundur var haldinn 20. maí 2021 í fundarherbergi R402 á Borgum

Rektor, Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:34

Mættir voru auk hans:
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra (í gegnum Teams fjarfundarbúnað)
Katrín Björg Ríkharðsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs (í gegnum Teams fjarfundarbúnað)
Nökkvi Alexander Rounak Jónsson fulltrúi stúdenta
Rúnar Gunnarsson varafulltrúi háskólasamfélagsins
Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Forföll:
Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins

Einnig mætt: 
Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri Rektorsskrifstofu sem ritar fundargerð

Gestir:
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

Framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu fór yfir rekstraryfirlit janúar til mars. Reksturinn er innan marka áætlunar.

2. Staðan á fjölda umsókna og breyting á lögum um háskóla

Rektor fór yfir stöðuna á fjölda umsókna um nám á haustmisseri en umsóknir eru eitthvað færri í ár en á sama tíma undanfarin 3 ár en staðan þó í ákveðnu jafnvægi.

Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla þar sem inntökuskilyrði í háskóla eru útvíkkuð og hafa lögin þegar tekið gildi. Fyrir fundinum liggur fyrir tillaga að breytingu á reglum HA til samræmis við lagabreytingarnar. Búast má við að þessi lagabreyting hafi þau áhrif að umsóknum muni fjölga töluvert á næstu vikum.

Framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu yfirgaf fundinn.

3. Fyrirkomulag brautskráningar 2021

Rektor kynnti fyrirkomulag brautskráningar. Brautskráning mun fara fram 11. og 12. júní. Brautskráning úr framhaldsnámi fer fram föstudaginn 11. júní og brautskráning úr grunnnámi fer fram í tveimur athöfnum laugardaginn 12. júní.

4. Málefni Norðurslóða

  • Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar
    Rektor fór yfir samtalið og samstarfið sem hefur verið í gangi vegna undirbúnings fyrir Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar, en rektor var fulltrúi í starfshópi um undirbúning fyrir stofnunina og mun áfram starfa sem fulltrúi í þessum undirbúningi.
  • UArctic Congress
    UArctic Congress var haldið á Íslandi nú á dögunum en upphaflega átti það að vera haustið 2020 en var frestað vegna Covid-19. Þingið var haldið í samstarfi allra stofnana á Íslandi sem eru aðilar að UArctic. Af þessu tilefni heiðraði Háskólinn á Akureyri Þorstein Gunnarssonar fyrrverandi rektor HA og Níels Einarsson forstöðumann Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, fyrir framlag þeirra til norðurslóðamála, en bæði Háskólinn á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar voru stofnaðilar að University of the Arctic.

Í stefnu stjórnvalda í málefnum norðurslóða er lögð áhersla á að Akureyri sé miðstöð norðurslóðamálefna á Íslandi. Háskólaráð styður rektor í því að halda áfram uppbyggingu norðurslóðamála innan Háskólans á Akureyri og vinna að því að draga fram heildarímynd Norðurlands og HA sem miðstöðvar norðurslóða, t.d. með því að vinna að nánara samstarfi þeirra stofnana og fyrirtækja sem starfa innan þessa málaflokks á svæðinu og þannig auka sýnileika þeirrar starfsemi sem fer fram á sviði norðurslóðamála á Norðurlandi.

5. Endurskoðun á reglum HA

Skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, formaður starfshóps um endurskoðun á reglum HA, kynnti niðurstöðu starfshópsins. Drög að endurskoðuðum reglum HA lögð fram til kynningar, ásamt greinargerð starfshópsins. Málið verður tekið aftur fyrir í júní en í millitíðinni er rektor falið að óska eftir áliti framkvæmdastjórnar og gæðaráðs á framlögðum drögum.

6. Bókfærð mál til samþykktar

  • Bókun um framkvæmd prófa á vormisseri (samþykkt rafrænt á milli funda)
  • Breyting á reglum rannsókna- og útgáfusjóðs
  • Tímabundið frávik frá reglum ferðasjóðs vegna Covid-19. Heimild til greiðslu starfstengdra ráðstefnugjalda (rafrænar ráðstefnur) án ferðakostnaðar
  • Breyting á 33. gr. reglna HA vegna breytinga á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla (inntökuskilyrði)

Ofangreind mál eru samþykkt.

Nökkvi Alexander Rounak Jónsson yfirgaf fundinn.

7. Til upplýsinga og fróðleiks

  • Study Iceland samningur
    Rúnar Gunnarsson, alþjóðafulltrúi HA og varafulltrúi í háskólaráði kynnti samning við fyrirtækið Study Iceland sem gefur möguleika á sumarnámi/stökum sumarnámskeiðum í samstarfi við ýmsa aðila. Símenntun HA og RHA halda utan um verkefnið.

  • Háskólanám á Austurlandi
    Háskólanum hefur verið úthlutað aukafjármagni til að sinna þjónustu vegna brúarnáms og hugsanlega tæknifræðináms í framhaldi af því, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, á Austurlandi. Ráðinn verður einn starfsmaður vegna verkefnisins sem verður starfsmaður HA. Vonast er til að þarna sé að verða til fyrsti vísir að háskólasamfélagi á Austfjörðum þar sem þátttaka Háskólans á Akureyri er mjög mikilvæg.

  • Framgangur veittur frá 1. júlí 2021
    Eftirfarandi starfsfólk hefur fengið framgang frá og með 1. júlí n.k.:

    Hug- og félagsvísindasvið:
    Antje Neumann fær framgang í dósent
    Birgir Guðmundsson fær framgang í prófessor
    Birna María Svanbjörnsdóttir fær framgang í dósent
    Margrét Elísabet Ólafsdóttir fær framgang í dósent
    Margrét Valdimarsdóttir fær framgang í dósent 

    Heilbrigðisvísindasvið:
    Sigfríður Inga Karlsdóttir fær framgang í prófessor
    Sigríður Sía Jónsdóttir fær framgang í dósent 

    Viðskipta- og raunvísindasvið
    Stefán B. Gunnlaugsson fær framgang í prófessor

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:30.