Hvað einkennir kennaramenntun á Íslandi?

Rannsóknin Heildarsýn og umbætur í kennaramenntun: Framþróun fyrir íslenskt menntakerfi (Monitoring and improving teacher education: Strengthening educational foundations) hlaut þriggja ára verkefnastyrk frá Rannís 2024
Hvað einkennir kennaramenntun á Íslandi?

Ísland stendur frammi fyrir áskorunum eins og kennaraskorti og slakri frammistöðu nemenda í alþjóðlegum könnunum og þrátt fyrir umfangsmiklar breytingar á íslenskri kennaramenntun síðustu tvo áratugina hafa fáar rannsóknir verið gerðar á inntaki kennaranáms og undirbúningi kennaranema fyrir starfið.

Tilgangur verkefnisins er að rannsaka með heildstæðum hætti inntak grunnskólakennaranáms á Íslandi og mun veita mikilvæga sýn á undirbúning kennara á landsvísu. Leitast verður við að móta og prófa aðferðir í kennaramenntun sem tengja saman fræði og starf með árangursríkum hætti. Gagna verður aflað með spurningakönnunum til kennaranema, viðtölum, rýni í námskeið, vettvangsathugunum og myndupptökum í kennslu í kennaranáminu.

Kennaramenntun byggist bæði á fræðilegum og hagnýtum þáttum og vísbendingar eru um að lykilatriði í árangursríkum undirbúningi fyrir kennarastarfið séu tækifæri kennaranema til að æfa og læra aðferðir sem byggja á raunverulegu starfi kennara í skólastofu. Því er mikilvægt að leggja áherslu á að móta aðferðir í kennaramenntun sem brúa bilið milli fræða og starfs. Verkefnið tengist rannsókninni Gæði kennslu á Norðurlöndum/Quality in Nordic Teaching (QUINT).

Rannsakendur á Íslandi eru:

  • Dr. Birna María B. Svanbjörnsdóttir dósent, kennaradeild HA
  • Dr. Berglind Gísladóttir dósent, MVS HÍ, sem leiðir rannsóknina (PI)
  • Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor, MVS HÍ
  • Dr. Amalía Björnsdóttir prófessor, MVS HÍ

Tveir rannsakendur frá Oslóarháskóla koma einnig að verkefninu, Dr. Kirsti Klette prófessor og Dr. Inga Staal Jenset dósent. Utanaðkomandi sérfræðingur og ráðgjafi er Dr. Karen Hammerness.

Bæði verður ráðinn doktorsnemi og nýdoktor til verkefnisins og hægt er að fylgjast með á heimsíðu HA.