Byrjendalæsi

Námstefna 2024

Námstefnan verður haldin í Háskólanum á Akureyri 13. september 2024.

Námstefnustjóri er Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og dósent við Kennaradeild HA.

14. september verður Læsisráðstefna MSHA og MMS haldin í HA.

Hér má nálgast drög að dagskrá.

Drög að dagskrá

12:30-13:00 Húsið opnar - kaffisopi

13:00-13:15 Setning - Brynhildur Þórarinsdóttir

13:15-14:00 Samfélagsgerjun, nám og læsi - Guðmundur Engilbertsson

14:00-14:30 Þróun lestrarfærni - Dr. Rannveig Oddsdóttir

14:30-14:50 Kaffi

14:50-15:20 Mál- og vinnustofur

15:30-16:00 Mál- og vinnustofur

16:10-16:40 Myndir segja meira - Bergrún Íris Sævarsdóttir

16:40-17:00 Málstefnuslit - Brynhildur Þórarinsdóttir

 

Aðalfyrirlesarar

  • Bergrún Íris Sævarsdóttir, rit- og myndhöfundur
    Bergrún Íris er margverðlaunaður barnabókahöfundur sem barist hefur fyrir stöðu myndhöfunda með læsi barna að leiðarljósi. Börn verða myndlæs löngu áður en þau læra að ráða í stafi og orð. Hvernig geta kennarar nýtt myndlýsingar til að styðja við lestrarkennslu? Getur verið að myndlæsi sé svarið við læsisvanda 21. aldarinnar?

  • Guðmundur Engilbertsson, læsisfræðingur og lektor í menntunarfræði við Kennaradeild HA
    Í umræðu undanfarin ár hafa gerjast ýmsar hugmyndir um hvað læsi er og hvað það telst að vera læs. Það sem einnig hefur gerjast á undanförnum árum er samfélagið okkar. Börnum með ólíkan bakgrunn og mál fjölgar og menningin sem börn lifa í hefur breyst á ýmsan hátt. Net-, síma- og skjánotkun er orðin tiltölulega almenn meðal barna og bókin og ritmálið hefur gefið eftir á ýmsan hátt fyrir öðrum miðlum. Við skólastarfinu blasa áskoranir og vert að hugleiða í því ljósi hvers konar nám við þurfum að leggja áherslu á? Hvernig högum við námi og kennslu þannig að það stuðli að læsi til nútíðar og framtíðar? Hvernig aðlögumst við breyttum aðstæðum og hvernig virkjum við aðstæðurnar til góðs? Og hvernig virkjum við sem best samvinnu heimilis og skóla í þágu læsis og náms barna?

  • Dr. Rannveig Oddsdóttir, dósent við Kennaradeild HA
    Byrjendalæsi er kennsluaðferð í læsiskennslu fyrir yngstu bekki grunnskóla þar sem lögð er áhersla á að vinna með alla helstu undirþætti læsis það er talað mál, hlustun, lestur og ritun. Þar sem aðferðin leggur áherslu á víða nálgun í læsiskennslu hafa verið uppi áhyggjuraddir um það að ef til vill sé ekki lögð nægileg rækt við lesturinn sem slíkan, það er kennslu í stöfum og hljóðum og þjálfun lesfimi. Í erindinu kynnir Rannveig niðurstöður rannsóknar á lestrarfærni barna í 1.–2. bekk í Byrjendalæsisskólum, þar sem kannað var hvernig lestrarfærni barna í Byrjendalæsisskólum þróast á fyrstu tveimur árum grunnskólagöngu. Rannsóknin nær til 312 barna í 11 skólum sem nota aðferðir Byrjendalæsis í læsiskennslu. Lögð voru fyrir próf til að meta þróun stafaþekkingar, lestrarfærni og lesskilnings barnanna á þessu tímabili. Frammistaða og framvinda barnanna var metin með því annars vegar að bera saman við tölur úr Lesferli hjá Menntamálastofnun og hins vegar að skoða framfarir yfir tímabilið eftir því hvernig börnin stóðu í upphafi rannsóknarinnar.

Málstofukall

MSHA auglýsir eftir erindum (vinnu- og málstofur) frá Byrjendalæsiskennurum og öðrum sem hafa áhuga á að kynna efni sem snýr að læsi yngstu barnanna. Frestur til að senda inn lýsingu á erindi eða vinnustofu er til 1. maí 2024. Upplýsingar um skil á erindum eru hér.