Sjónaukinn 2024

Árleg ráðstefna Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs

Takið daginn frá — við hlökkum til að eiga fræðandi og nærandi tíma saman!

Sjónaukinn verður haldin í Háskólanum á Akureyri og í streymi dagana 15.-16. maí. Sjónaukinn er árleg ráðstefna Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni er Nýsköpun: Tækifæri og áskoranir.

Smelltu hér til að skrá þig

Aðalfyrirlesarar

Kjartan Sigurðsson

Lektor við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri

Kjartan Sigurðsson er lektor við Viðskiptadeild HA og er með doktorsgráðu frá Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Kjartan hefur víðtæka reynslu á sviði rannsókna, sem framkvæmdastjóri, frumkvöðull og kennari og hefur starfað víða við ráðgjöf á innleiðingu og framkvæmd áætlanagerða í fyrirtækjum í Evrópu og á Íslandi. Sérþekking hans er á sviði frumkvöðlafræða og nýsköpunar, samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja og sjálfbærni. Rannsóknir Kjartans fela meðal annars í sér að skoða hvort að fyrirtæki hafi hag af því að innleiða og ræða markmið nýsköpunar með áherslu á sjálfbærni, hringrásarhagkerfið og með samfélagslega ábyrgð fyrirtækja að leiðarljósi.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson

Forstjóri og stofnandi Kerecis

Kerecis er líftæknifyrirtæki sem fæst við þróun lækningarvara úr fiskipróteinum. Fyrirtækið var stofnað á Ísafirði árið 2009. Fyrirtækið vinnur meðal annars að þróun á nýrri tegund lækningavara sem hjálpa til við endurnýjun vefja. Kerecis hefur vakið athygli á heimsvísu fyrir sárabindi fyrir þrálát sár gerð úr fiskroði.

Nánari upplýsingar um Guðmund og erindið hans koma von bráðar.

Bergljót Borg og Ósk Sigurðardóttir

Bergljót Borg er framkvæmdastjóri Styrktarfélagsins og Ósk er deildarstjóri Höfuðborgardeildar Rauða krossins

Bergljót lauk B.Sc prófi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands árið 2000. Hún er með diplómu og D-vottun í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Endurmenntun Háskóla Íslands (2006) og kláraði MPM í verkefnastjórnun árið 2008. Árið 2019 lauk Bergljót meistaraprófi í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun frá Háskólanum á Akureyri. Síðustu 13 árin hefur Bergljót starfað við kennslu, rannsóknir og verkefnastjórnun við Iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri. Í maí gengt stöðu framkvæmdastjóra Styrktarfélagsins.

Ósk Sigurðardóttir er menntaður iðjuþjálfi frá Danmörku, er með MPM meistaragráðu í verkefnastjórnun og framhaldsnám í straumlínustjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur einnig lokið MBA gráðu og nú síðast Postgraduate gráðu í nýsköpun og stefnumótun frá Oxford Háskóla. Ósk hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra, sem verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra Landspítala og yfirmaður á barna- og unglingageðdeild. Ósk starfaði einnig sem formaður iðjuþjálfafélags Íslands í nokkur ár, kennir nýsköpun við Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri og er samfélagslegur frumkvöðull.

Kynning á erindi Bergljótar og Óskar

Árið 2015 hófst vinna við að breyta námskrá í iðjuþjálfun. Eitt af markmiðunum var að efla færni nemenda til nýsköpunar. Tekin var ákvörðun um að búa til nýtt 12 ECTS eininga námskeið í nýsköpun. Fyrsti nemendahópurinn í iðjuþjálfunarfræði lauk námskeiðinu vorið 2020 og í dag er fimmti nemendahópurinn að vinna að lokaverkefnum sínum. Haustið 2020 bauðst meistaranemum í heilbrigðisvísindum einnig að vinna að styttri nýsköpunarverkefnum sem hluta öðru námskeiði.

Nýsköpunarnámskeið fyrir iðjuþjálfanema er byggt upp sem nýsköpunarhraðall þar sem nemendur þurfa að skilgreina áskorun, meta markaðinn og gera þarfagreiningu. Þau vinna svo fjárhags- og markaðsáætlun og búa til frumútgáfu (MVP). Þannig spannar námskeiðið ýmis verkefni frá áskorun að lausn.

Ferlið við að hanna og kenna námskeiðið hefur verið einstaklega áhugavert og skemmtilegt. Í upphafi voru nemendur efins um tilgang og mikilvægi þess að læra nýsköpun en bíða nú spenntir eftir að taka námskeiðið.

Nýsköpun er ekki aðeins grundvöllur efnahagslegrar velgengni heldur lykillinn að úrlausn stærstu viðfangsefna komandi áratuga. Öldrun þjóðarinnar og aukning lífstílssjúkdóma verður ein af stærstu áskorunum komandi ára. Heilbrigðismenntað fólk, þarf ekki bara að sinna sínu daglega starfi heldur einnig að sinna umbóta- og nýsköpunarverkefnum. Þau standa næst áskorununum og því er mikilvægt að þau fái þjálfun í að leysa vandamálin og geta óhrædd tekist á við áskoranirnar með þeim verkfærum sem þau hafa fengið í náminu.

Það er einnig mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að skilgreina ekki frumkvöðla of þröngt. Nýsköpun er ekki einungis fyrir fólk í viðskiptafræði eða tæknigreinum. Það er mikilvægt að frumkvöðlar séu jafn fjölbreyttir og notendurnir. Þess vegna er svo mikilvægt að kenna nýsköpun í heilbrigðisvísindum, bæði til að fá fólk sem er daglega að vinna að stærstu áskorunum samfélagsins en einnig til að fá fjölbreyttara fólk að borðinu. 

Arna Sól Mánadóttir, Hrafnhildur Ósk Halldórsdóttir og Thelma Dögg Grétarsdóttir

Arna Sól Mánadóttir starfar sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla. Í haust stefnir hún á meistaranám í heilbrigðisvísindum með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi.

Hrafnhildur Ósk Halldórsdóttir klárar í vor starfsréttindanám í iðjuþjálfun á meistarastigi frá Háskólanum á Akureyri og stefnir á að starfa sem iðjuþjálfi eftir útskrift.

Thelma lærir íþróttavísindi á meistarastigi frá Háskólanum í Reykjavík og er atvinnumaður í blaki. Í sumar mun hún starfa hjá Norðurál sem sérfræðingur á öryggis-, umhverfis og umbótasviði með sérstaka áherslu á titringsálagi.

Kynning á erindinu kemur von bráðar.

Gojiro Nakagami

Prof. Dr. við UTokyo

Eftir að hafa lokið námi í heilbrigðisvísindum við Kobe University School of Medicine og UTokyo og starfað sem lektor var Gojiro skipaður gestarannsakandi við háskólann í Kaliforníu árið 2013. Hann sneri aftur til UTokyo árið 2017.

Rannsóknarsvið Dr. Nakagami er innan hjúkrunarfræði og verkfræði með áherslu á að þróa tækni til að draga úr öldrunareinkennum. Hann notar dýralíkön til að skýra sjúkdómsvalda, til að bera kennsl á ný lífmerki og þróa meðferðaraðferðir fyrir sár sem gróa illa. Um heim allan hefur verið vísað til framlags Gojiro á rannsóknarsviðum einfaldari auðkenningartækni, vegna hönnunar nýrrar aðferðar með lágmarksinngripi við að fjarlægja filmur úr sárum sem og vegna nýs sárastjórnunarkerfis sem byggist á notkun örveruhimna (e. biofilm).

Dr. Nakagami hefur verið í samstarfi við UTokyo sjúkrahúsið í yfir 15 ár þar sem hann hefur þróað mjög nákvæmt spálíkan fyrir þrýstingssáravarnir byggt á gervigreind. Hann er virkur meðlimur í mörgum rannsóknarhópum, þar á meðal japanska öldrunarlæknafélaginu, japanska þrýstingssárafélaginu, japanska félaginu um sára-, stoma- og þvagleka, japanska hjúkrunarfræðifélaginu og japönsku hjúkrunarfræðiakademíunni þar sem hann er stjórnarmaður. Meðan á doktorsnámi sínu stóð var hann tilnefndur “Society for the Promotion of Science (DC2)” í Japan.

Sigríður Halldórsdóttir

Prófessor við Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum

Sigríður Halldórsdóttir PhD (Med. Dr.) lauk meistaraprófi frá University of British Columbia í Kanada árið 1988 og doktorsprófi frá Háskólanum í Linköping í Svíþjóð árið 1996. Hún hefur verið prófessor við Háskólann á Akureyri síðan 1998 og hefur einkum kennt aðferðafræði rannsókna. Hún hefur birt fjölda rannsóknargreina um hinar ýmsu hliðar mannlegs lífs og einnig gefið út þrjár bækur um aðferðafræði rannsókna.

Kynning á erindi Sigríðar kemur von bráðar.

Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir

Verkefnastjóri Hátinds 60+

Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir er verkefnastjóri Hátinds 60+ í FJallabyggð. Hún hefur starfað sjálfstætt s.l. 12 ár og er með B.A. gráðu í félagsvísindum frá Háskólanum á Bifröst.

Nýsköpunar- og þróunarverkefni í Fjallabyggð um þjónustu við eldri íbúa sveitarfélagsins. Verkefnið í Fjallabyggð hefur verið þátttakandi á Norrænum vettvangi þar og verið eitt af þeim sveitarfélögum sem um er fjallað í skýrslu Norænu velferðarmiðstöðvarinnar sem ber heitið "intergrated healthcare & care". Markmið verkefnisins er að velferðarþjónusta í Fjallabyggð verði nútímaleg, sjálfbær og tryggi lífsgæði íbúa. Unnin verða fjölbreytt verkefni innan þeirra samninga sem gerðir hafi verið við einstök fagráðuneyti. Þverfaglegt samstarf félags-og heilbrigðisþjónustu er grundvallaratriði til að ná fram samlegðaráhrifum fagþekkingar á hvoru sviði fyrir sig og tryggja þannig betur þjónustu við stækkandi þjóðfélagshóp.

Kerfi sniðið að þörfum notenda m.a. með því að samþætta þjónustu sem stuðlar að því að eldra fólk geti búið lengur heima við góðar aðstæður, bæði hvað varðar öryggi og félagslega þætti. Þannig skapast meira svigrúm til að nýta mannafla, fjárveitingar og mannvirki með skilvirkari hætti.

Dagskrá

Sjónaukinn fer fram miðvikudaginn og fimmtudaginn, 15.-16. maí, og hefst dagskráin kl. 9 báða daga. Nánari dagskrá verður kynnt þegar nær dregur.

Streymi

Streymt verður frá ráðstefnunni, hér munu koma hlekkir fyrir streymi þegar nær dregur. Ráðstefnan verður ekki tekin upp.

Nánari upplýsingar

Vanti frekari upplýsingar, ekki hika við að hafa samband við einhverja af eftirfarandi:

 

Öll velkomin!