457. fundur Háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS

Fundur var haldinn daginn 25. janúar 2024, á Borgum, R262.

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:30.

Mætt voru auk hans:

Bjarni Smári Jónasson fulltrúi háskólaráðs
Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi háskólaráðs
Guðmundur Kristján Óskarsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir fulltrúi stúdenta (í fjarfundi)
Kristrún Lind Birgisdóttir fulltrúi ráðherra
Sigríður Margrét Sigurðardóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

Einnig mætt:

Sólveig María Árnadóttir sem ritar fundargerð

Gestir:

Helga María Pétursdóttir
Guðrún Ragnarsdóttir, í fjarfundi.

Rektor kynnti dagskrá.

1. Fjármál og rekstur

2401050

Helga María Pétursdóttir, verkefnastjóri gagnagreiningar og fjárhags kom inn á fundinn undir þessum lið.

Drög að rekstrarniðurstöðu 2023

Helga María fór yfir rekstrarniðurstöðu ársins 2023. Umræður sköpuðust um rekstrarniðurstöðu og áætlanagerðina almennt. Fræðasviðin voru rædd sérstaklega sem og aðrar einingar. Sérstök umræða var um stofnanir með sértekjur.

Rekstarniðurstaða ársins er rúmar 93 milljónir í mínus. Háskólaráð bókar eftirfarandi athugasemdir í ljósi þessarar niðurstöðu:

,,Háskólaráð lýsir yfir vonbrigðum með niðurstöðu rekstrarársins 2023 sérstaklega í ljósi þeirra áskorana sem eru væntanlegar á næstu árum vegna nýs reiknilíkans sem gilda á fyrir alla háskóla frá árinu 2025. Nauðsynlegt er að rekstur háskólans sé í jafnvægi árið 2024 og að fjárhagsáætlun verði fylgt ítarlega eftir. Þá er einnig áhyggjuefni að flestar stofnanir með sértekjur séu að skila hallarekstri og er rektor falið að finna leiðir til þess að tryggja að fjármögnun og rekstur þeirra sé innan fjárhagsáætlunar og umfangs stofnananna.‘‘

Háskólaráð óskar eftir því að forstöðumenn stofnana með sértekjur komi á fundi Háskólaráðs og greini frá rekstri þeirra og helstu verkefnum. Stefnt verði að því að fá fyrstu heimsókn í febrúar og síðan eina stofnun á hvern fund eftir það.

Helga María yfirgaf fundinn.

2. Samstarf háskóla – samtalið við Háskólann á Bifröst

2308052

Háskólaráð ræddi stöðuna í samtalinu við Háskólann á Bifröst.

Að loknum umræðum er það samhljóma niðurstaða háskólaráðs að bóka eftirfarandi:

,,Háskólaráð fjallaði ítarlega um ályktun háskólafundar frá 22. janúar, ásamt því að fjalla um þau erindi sem Háskólaráði hefur borist frá þremur deildum háskólans. Þá hafa fulltrúar í Háskólaráði átt í samtölum við ýmsa aðila innan háskólasamfélagsins í kjölfar fundarins. Ljóst er að skoðanir eru mjög skiptar en almennur vilji er til þess að greina betur hvaða tækifæri leynast í frekara samstarfi eða sameiningu við Háskólann á Bifröst. Slík greining verði að liggja fyrir áður en lokaákvörðun um sameiningu er tekin. Háskólaráð felur því rektor að leggja fram greinargóða áætlun um hvernig aflað verði svara við þeim spurningum sem hafa borist. Jafnframt verði áfram unnið að því að greina tækifæri sem felast í sameiningu skólanna beggja í góðu samstarfi við Háskólann á Bifröst. Nauðsynlegt er að fá ítarlegri svör en þau sem þegar liggja fyrir í niðurstöðu fýsileikakönnunar um kosti og galla sameiningar skólanna tveggja. Slíkt verður gert með því að fylgja eftir verkáætlun um skipun nefnda sem starfi í umboði rektors og vinnuhópa einstakra eininga háskólans þar sem aðkoma starfsfólks og stúdenta er tryggð.‘‘

Rektor var falið að kynna þessa niðurstöðu á opnum starfsmannafundi föstudaginn 26. janúar.

3. Erindi til háskólaráðs vegna samkeppnisprófa í sálfræðideild

2401045

Rektor kynnti erindi til Háskólaráðs vegna beiðni um undanþágu frá reglum um samkeppnispróf í Sálfræðideild. Fyrir liggur umsögn frá deildarforseta Sálfræðideildar og forseta Hug- og félagsvísindasviðs vegna málsins.

Háskólaráð tekur undir álit forseta Hug- og félagsvísindasviðs og deildarforseta Sálfræðideildar og telur ekki forsendur til að veita umbeðna undanþágu. Beiðninni er vísað frá og rektor falið að svara erindinu.

Sigríður Margrét yfirgaf fundinn.

3. Ráðningarferli rektors

2308053

Guðrún Ragnarsdóttir, starfsmaður valnefndar vegna ráðningar rektors var gestur fundarins undir þessum lið. Guðrún kom inn á fundinn í fjarfundi.

Guðrún fór yfir verklag og ferli valnefndar og hvar málið væri statt. Áætlað er að valnefnd skili áliti sínu í byrjun febrúar og mun það verða tekið fyrir á næsta fundi háskólaráðs þar sem einnig verður farið nánar yfir næstu skref háskólaráðs í málinu.

5. Bókfærð mál til samþykktar

  • Breytingar á reglum nr. 699/2018 um val á nemendum til náms í sálfræði
  • Niðurfelling reglna nr. 390/2021 um námsmat fyrir sálfræðideild

Ofangreind mál eru samþykkt og skrifstofu rektors falið að gera nauðsynlegar breytingar á reglum til birtingar í Stjórnartíðindum.

6. Til fróðleiks og upplýsinga

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:58.