Dr. Romain Francois R Chuffart nýr Nansen prófessor

Tekur stöðu gestaprófessors í heimskautafræði við Háskólann á Akureyri
Dr. Romain Francois R Chuffart nýr Nansen prófessor

Dr. Romain Francois R Chuffart gegnir stöðu forstöðumanns og framkvæmdastjóra Arctic Institute- Centre for Circupolar Security Studies (TAI) sem er opinber hugveita sem upplýsir um stefnumótun á Norðurslóðum. Auk þess hefur hann gengt stöðu aðjúnkts í heimskautarétti við Lagadeild HA á þessu skólaári. Romain lauk MA prófi í heimskautarétti við HA árið 2017 og á síðasta ári lauk hann doktorsprófi í lögfræði við Háskólann í Durham.

Romain er sérfræðingur í þjóðarétti, alþjóðarétti, frumbyggjarétti og mannréttindalögfræði á norðurslóðum. Hann hefur leitt og tekið þátt í rannsóknaverkefnum um norðurslóðafræði ásamt þátttakendum frá Grænlandi, Rússlandi, Japan, Íslandi og Noregi. Í Doktorsritgerð sinni fjallar hann um tengsl mannréttinda, umhverfis og þjóðaréttar, með áherslu á að stjórna umhverfisbreytingum á norðurslóðum og auka réttlæti í umhverfis- og nýlendumálum. Með þær áherslur að leiðarljósi þróar ritgerðin rök fyrir því að í sjálfræði frumbyggja felist geta til að skapa lagaleg viðmið og venjur.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Romain getið sér gott orð í sínum rannsóknum tengdum norðurslóðum og samstarfi við ýmsar norskar, íslenskar og alþjóðlegar stofnanir um norðurslóðamál. Frekari upplýsingar um Romain Chuffart má finna hér, og hann mun dvelja að fullu á Íslandi á meðan á starfinu stendur.

Gestaprófessorsstaðan er kennd við Fridtjof Nansen, hinn kunna norska heimskautafræðing og húmanista, og er veitt framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum. Ráðið er í stöðuna til eins árs í senn, samkvæmt samkomulagi um samstarf á sviði heimskautafræða og rannsókna á milli Íslands og Noregs.

Nánar hér: Nansen prófessor | Háskólinn á Akureyri (unak.is)