Pseudomonas syringae algengust í fléttum á Íslandi samkvæmt höfðatölu

Aftur er Ísland á toppnum!
Pseudomonas syringae algengust í fléttum á Íslandi samkvæmt höfðatölu

Þegar ég var ung var ég vön að horfa upp til himins og fylgjast með skýjunum skreyta himininn með fallegum myndum. Ég ímyndaði mér mig sem fullorðin skýjafræðing en vissi ekki þá, að í framtíðinni myndi ég rannsaka bakteríur sem búa í skýjunum.

Þú hefur kannski ekki heyrt mikið um bakteríu sem heitir svolítið skrýtnu nafni, Pseudomonas syringae, en þessi baktería er hluti af skýjunum okkar og ísnum um allan heim!

Bakterían er alls staðar í heiminum sem er nokkuð sem búast má við þar sem hún finnst á skýjum og ferðast um með vindi og vatni. Það kom því Oddi Vilhelmssyni, prófessor við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri og Cindy Morris frá INRAE í Frakklandi ekki á óvart að Pseudomonas syringae skyldi finnast hér á Íslandi. Það sem kom þeim þó á óvart var hversu mikill munur er á stofnum hér á landi miðað við þá sem hingað til hafa fundist annars staðar í heiminum. Enn og aftur kemur hin heillandi náttúra Íslands á óvart!


Fléttur

Á grundvelli fyrri vísbendinga um að Pseudomonas syringae gæti verið til staðar í íslenskum fléttum bjuggu Oddur og Auður Sigurbjörnsdóttir, dósent við Auðlindadeild, til verkefni fyrir nýja doktorsnemann sinn. Sá nemandi var fyrrum ungi skýjafræðingurinn, ég, Natalia Ramirez, og ég fæ að rannsaka þessa bakteríu á Íslandi. Við notum aðeins öðruvísi nálgun en áður og reyndum við að finna bakteríurnar í fléttum - já, fléttum sem líta stundum út fyrir að vera dauðar en eru það ekki. Fléttur, sem og allt annað, inniheldur fullt af örverum. Því var lagt upp í ferðalag um allt Ísland, í alls kyns íslensku veðri, og fjölmörgum fléttum safnað.

Á Íslandi fannst Pseudomonas syringae í fléttum í fyrsta sinn í heiminum og er það önnur ástæða þess að Ísland er sérstakt. Það má hugsa sér að þessar stundum ágengu bakteríur hafi ollið fléttunum ama en í raun eru þær fullkomlega heilbrigðar. Vísindafólkið telur jafnvel gott fyrir flétturnar að hafa þessa bakteríu á sér.

Það sem er þó áhugaverðast er að bakterían fannst aðeins í einni ættkvísl fléttna sem kallast Peltigera. Sú staðreynd opnar margar spurningar fyrir frekari rannsóknir; eru aðrar fléttur ekki lífvænlegar fyrir Pseudomonas syringae? Eða er þessu öfugt farið, veitir Peltigera fléttan eitthvað umfram aðrar fléttur sem bakteríurnar þurfa til að lifa af? Og það sem skiptir mestu máli, er Ísland sigurvegari þegar kemur að skýjamyndun?

Eitt að lokum, vinsamlegast farðu varlega í kringum fléttur þar sem þær vaxa afar hægt og hýsa bakteríuna sem er hluti af skýjunum okkar!

Fyrir þau sem vilja fræðast er hægt að lesa vísindagrein okkar um þessa stórmerkilegu bakteríu.