Ávarp rektors á Háskólahátíð 2019

Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, Háskólahátíð 2019

ÁVARP REKTORS, EYJÓLFS GUÐMUNDSSONAR, Á HÁSKÓLAHÁTÍÐ HÁSKÓLANS Á AKUREYRI, 15. JÚNÍ 2019:

Kandídatar, gestir og starfsfólk HA.

Háskólinn á Akureyri hefur verið í örum vexti undanfarin ár og þið, ágætu kandídatar, eruð hluti af þeim mikla vexti. Að þessu sinni eru 419 nemendur af þremur fræðasviðum brautskráðir, þar af 303 úr grunnnámi og 116 nemendur úr framhaldsnámi. Þetta er stærsti útskriftarárgangur skólans frá upphafi og til merkis um þann mikla árangur sem náðst hefur í uppbyggingu háskóla sem þjónar öllu landinu með nýjum og framsæknum hætti. Þrotlaus vinna starfsfólks og öflugir nemendur skólans hafa gert Háskólann á Akureyri að einni stærstu og öflugustu menntastofnun landsins.

Kæru kandídatar,

Þetta er stór áfangi og í dag fagnið þið. Það eru forréttindi fyrir okkur sem störfum við Háskólann á Akureyri að hafa fengið að taka þátt í lífi ykkar og vonandi aðeins náð að móta ykkur til betri útgáfa af ykkur sjálfum. Það eru forréttindi að hafa tækifæri til þess að geta leyft sér að læra, að afla sér þekkingar í gegnum lestur, verkefnavinnu og samtöl við aðra nemendur, kennara ykkar og leiðbeinendur. Stundum er það þannig að við áttum okkur ekki á því hversu mikil forréttindin eru þangað til að við höfum ekki lengur aðgengi að þeim eða aðrir geta ekki fetað í okkar eigin fótspor.

Ágætu gestir, hér í salnum og þið sem heima sitjið,

Á síðustu fimm árum hefur aðsókn við Háskólann á Akureyri aukist gífurlega. Heildarfjöldi nemenda hefur vaxið um tæplega 50% frá árinu 2014 og er nú svo komið að við getum ekki lengur tekið við öllum nemendum sem vilja stunda nám við skólann. Nú eru samkeppnispróf í þremur námsgreinum ásamt því að valið er inn í viðskiptafræði þannig að ekki er lengur nóg að hafa stúdentspróf í samkeppni um námspláss, heldur verður meira að koma til. Nú þegar menntun er að verða lykillinn að því að samfélög geti tekist á við hraðar breytingar verðum við sem myndum íslenskt samfélag að spyrja okkur hvort við teljum að það sé rétt að aðgengi að háskólanámi sé takmarkað með þessum hætti. Hverri menntastofnun ber að sjálfsögðu að halda sig innan þeirra fjárheimilda sem útdeilt er á hverju tímabili en þegar vinsældir einnar stofnunar aukast verulega, líkt og Háskólans á Akureyri, vakna upp áhugaverðar spurningar. Hvernig á að velja þegar færri komast að en hafa vilja til? Er menntun á háskólastigi forréttindi eða mannréttindi? Ber stjórnvöldum skylda til að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að því námi sem landsmenn vilja stunda? Okkur hættir nefnilega stundum til að setja ábyrgðina á herðar stjórnvöldum; þingmönnum og ráðherrum – og vissulega er ábyrgð þeirra mikil – en hver er ábyrgð okkar í að koma því á framfæri við stjórnvöld hvað við teljum að rétt sé að gera. Háskólinn á Akureyri mun velja til náms, með einum eða öðrum hætti, rétt um helming þeirra nemenda sem sækjast eftir því að komast í skólann fyrir komandi skólaár, þ.e. þegar tekið hefur verið tillit til niðurstöðu samkeppnisprófa og vals á nemendum í upphafi skólaárs. Sú staðreynd gefur góða ástæðu til að spyrja: Er þetta sú staða sem við viljum vera í? Nú þegar efnahagsskórinn er farinn að þrengjast örlítið um tærnar er stóra spurningin: Hafa stjórnvöld stuðning ykkar, ágætu gestir, til þess að efla íslenska háskóla svo að þeir séu fyllilega samkeppnisfærir við erlenda háskóla og geti tekið á móti þeim mikla fjölda sem hér vill stunda nám – og þá sérstaklega hér við Háskólann á Akureyri? Ert þú, ágæti skattborgari, tilbúinn að greiða hærri skatta eða endurraða fjármunum þannig að menntun fái forgang? Staðreyndin er sú að ef stjórnvöld fá ekki stuðning frá okkur öllum, frá almenningi, til þess að fjárfesta í menntun þá mun það ekki gerast. Og ef háskólarnir fá ekki stuðning til að eflast og dafna er veruleg hætta á því að aðgengi takmarkist enn frekar, að enn færri nemendur komist að. Ég horfi því til ykkar, ágætu gestir, ömmur og afar framtíðarnemenda við HA. Ég horfi til ykkar, foreldrar nemenda sem á næstu árum munu leitast eftir að komast í háskóla. Ég horfi til ykkar, frænkur og frændur ungra snillinga sem þið þráið að fái tækifæri til að láta ljós sitt skína. Ég horfi til ykkar allra um stuðning við að koma þeim skilaboðum á framfæri við íslensk stjórnvöld að þið metið háskólamenntun og að þið viljið að unga fólkið okkar hafi öll tækifæri til þess að mennta sig í öflugu, framsæknu og skapandi háskólasamfélagi. Ég treysti á ykkur!

Kæru kandídatar,

Fyrir framan ykkur liggur leið inn í nýja tíma, nýjan heim sem er svo frábrugðinn þeim gamla að enginn getur í raun spáð fyrir um með hvaða hætti þessi heimur mun gefa ykkur færi á að skapa ykkar eigin framtíð. Það er kannski óþægileg staðreynd fyrir okkur sem störfum innan háskóla, en staðreynd engu síður, að sú menntun sem þið hafið aflað ykkur á síðustu árum mun úreldast hraðar en nokkru sinni fyrr og þið munið stöðugt þurfa að hugsa um með hvaða hætti þið getið eflt ykkur. Ég vil þó hvetja ykkur til að leggja í þetta ferðalag með bjartsýni og opnum huga. Í þeim umbreytingum eru mörg tækifæri sem munu gera ykkur kleift að gera algerlega nýja hluti, sama hvort það felst í því að finna upp nýjar aðferðir í framleiðslu, betri kennsluháttum í grunnskólum, nýjum leiðum í heilbrigðisþjónustu með aðstoð gervigreindar, rekstri á rafrænum lögfræðistofum, nýrri afþreyingu, öflugum alþjóðlegum fyrirtækjum sem ekki eru til nema í stafrænum heimi, löggæslu í netheimum, uppbyggingu sjálfbærra og umhverfisvænna byggðarlaga, að taka þátt í innleiðingu orkuskipta eða í því að sálfræðiþekkingu ykkar, til viðbótar við menntun um mannkynssögu og menningu, lífeðlisfræði, taugalíffræði, tungumál og skipulag, takist að skapa algerlega nýtt líkan fyrir vinnustaði og umhverfi þeirra. Tækifærin eru nánast óendanleg – það er ykkar að grípa þau og láta drauma ykkar rætast.

Kæru kandídatar,

Þið hafið gefið allt til að ljúka ykkar námi – og stundum jafnvel eitthvað meira af orku en þið hafið raunverulega átt. Því hefur oft verið lítill tími til að sinna öðru fólki eða hugðarefnum. Ég verð þó að segja að síðustu árgangar nemenda við HA hafa verið einstaklega kraftmiklir og öflugir í að láta gott af sér leiða og taka þátt í virkri hagsmunabaráttu stúdenta. Nemendur við Háskólann á Akureyri hafa verið sérstaklega áberandi og öflugir í starfi sínu fyrir Landssamtök Íslenskra Stúdenta (LÍS) og hafa með þátttöku sinni haft bein og óbein áhrif á þróun gæðakerfa háskólanna, styrkt réttindi nemenda og stutt við samnemendur í gegnum erfiða tíma. Sá öflugi hópur nemenda sem hefur staðið vörð um ykkar eigin hagsmuni á miklar þakkir skildar og hefur jafnframt öðlast dýrmæta reynslu í að hafa áhrif á samfélag sitt. Þau hafa verið miklar og góðar fyrirmyndir um það hvernig unnt er að tengja saman annasama vinnudaga og samfélagslega þátttöku.

Ágætu gestir,

Samfélagið sem við búum í er spegilmynd af okkur sjálfum og á samfélagsmiðlum endurspeglast skoðanir og lífsgildi þar sem við keppumst við að ná í staðfestingu á okkar eigin ágæti eða koma nýjustu áhrifum á framfæri svo við getum sagt að við séum að breyta heiminum – með einni Instagram-mynd í einu. Í þessu nýja og flókna samfélagi „fjöl“miðlunar kemur skýrt fram að ef við látum ótta og reiði vera upplýsingu og samkennd yfirsterkari munum við lifa í fátækara samfélagi í víðum skilningi. Um heim allan hefur farið bylgja stjórnmála (sem reyndar er alls ekki ný af nálinni) sem hægt er að kenna við populisma eða lýðhyggju. Eitt megineinkenni slíkrar stefnu er að búa til óvin í einfaldaðri heimsmynd sem snýst um okkur á móti þeim, hinum, þessum vondu. Við erum hin réttu, þau eru hin röngu. Í þessum nýja heimi lýðhyggjunnar er það skylda hverrar þjóðar að vernda sína hagsmuni fyrst og helst loka sig af frá víðtæku alþjóðlegu samstarfi í nafni misskilins sjálfstæðis og sjálfsstjórnar. Það versta er að með stuttum lestri sagnfræðirita um 19. og 20. öldina er auðvelt að sjá hvert þessi nýja stefna mun leiða okkur – hún mun leiða okkur til mannvonsku, illsku og styrjalda. Heimurinn er mun flóknari en svo að hægt sé að stilla öllum upp sem vinum eða óvinum, okkur á móti þeim.

Ágætu kandídatar,

Það er spurning hvort það sé „rétti stemmarinn“ að tala um styrjaldir og mannvonsku við jafn hátíðlega athöfn og við höfum hér í dag, en stundum verðum við að minna á grunngildi og láta í okkur heyra til að tryggja að það verði ekki frá okkur tekið sem við aldrei megum missa – frelsið til að fá að vera við sjálf.
Og nú þegar þið hafið lokið ykkar fyrstu háskólagráðu standið þið á þeim merku tímamótum að þurfa að taka enn stærri ákvarðanir. Hvert á að halda næst? Á að stefna á frekara nám eða skella sér í uppgrip til að greiða yfirdráttarlán námsáranna? Ætlið þið að veita fjölskyldu og vinum alla athygli í sárabót fyrir tapaðan tíma á námsárunum? Er ykkar tími kominn til að slaka á og aðrir geta þá séð um að byggja upp samfélagið? Staðreyndin er sú að við verðum öll, og þið unga fólkið sérstaklega, að takan virkan þátt í að móta og byggja upp samfélag okkar. Við verðum að taka þátt í samræðunni, ekki sem nettröll sem skríða fyrir framan lyklaborðin eftir miðnættið, heldur sem upplýstir einstaklingar sem hlusta og ræða saman þangað til samfélagið kemst að niðurstöðu um það hvað sé rétt og hvað sé rangt. Svo hefjum við hringinn á ný; þetta er stöðugt samtal um samfélag okkar og grunngildin, og hvernig við viljum nota þau til að byggja upp frjálst, öflugt samfélag. Ekki láta hjá líða að mæta á kjörstað, ekki láta hjá líða að gera athugasemdir við frumvörp og lög sem sett eru fram og – sem er kannski mikilvægara – ekki láta hjá líða að gera jákvæðar athugasemdir við ný lög eða stefnur sem settar eru fram á Alþingi á hverjum tíma. Nútíminn býður uppá auðveldar leiðir til þess að við séum öll virk sem þátttakendur í samfélagi okkar, leiðir sem við getum notað til að hafa jákvæð áhrif. Við getum þó líka valið þær til að vera virk í athugasemdum, en hvernig verður samfélag okkar ef við leyfum virkum að einoka lyklaborðin og færa miðnæturorðræðunettröllin yfir í raunheima. Það er á okkar ábyrgð að skapa gott samfélag og ég vil hvetja ykkur, kæru kandídatar, til að vera virk í uppbyggingu ykkar bæjarfélags, taka þátt í mótun íslensks samfélags og muna að þið eruð hluti af pínulitlu samfélagi íbúa á pínulitlum hnetti í alheiminum hvers eina leið til að deyja ekki út er að vinna saman, í sátt og samlyndi, til lausnar á þeim miklu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir.

Kæru kandídatar, samstarfsfólk og gestir,

Síðasta starfsár hefur á margan hátt verið erfitt fyrir okkur vegna álags, sístækkandi skóla og aukinna krafna sem til okkar eru gerðar sem opinberrar alþjóðlegrar menntastofnunar. Ekkert var þó erfiðara en að missa einn af okkar eigin starfsmönnum sem lést eftir skammvinna baráttu við krabbamein síðla vetrar. Við minnumst Ágústar Þórs Árnasonar, eins af frumkvöðlum háskólasamfélagsins og samstarfsfélaga, fyrir kraft hans og vilja til að efla Háskólann á Akureyri og heimspekilega rýni á tilgang okkar og markmið.

Kæru kandídatar og gestir nær og fjær,

Við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að skilgreina með hvaða hætti við viljum hafa aðgengi að íslenskum háskólum. Það er verkefni sem bíður okkar allra að leysa. En á sama tíma gleymum við ekki því sem vel er gert. Háskólarnir eru öflugar menntastofnanir sem enn ná að bjóða uppá nám sem er fyllilega sambærilegt við nám sem almennt býðst í öðrum löndum. Með eflingu rannsóknarþáttarins og meiri tengingu við alla hluta samfélagsins munum við ná að bæta hag okkar allra, sama hvar við búum. Þetta væri ekki hægt nema fyrir þá staðreynd að við höfum byggt upp öflugan mannauð sem er reiðubúinn að leggja mikið á sig til að viðhalda gæðum náms og rannsókna í umhverfi sem á markan hátt er takmarkað. Ég vil því þakka öllu starfsfólki Háskólans á Akureyri fyrir óeigingjarnt starf og tryggð við skólann okkar sem við viljum svo gjarnan geta boðið sem flestum til að stunda nám við, með stuðningi stjórnvalda, svo unnt sé að tryggja gæði náms og tryggja að við leggjum ekki sífellt auknar byrðar á herðar sama starfsfólksins, sömu kennara og sömu stoðþjónustueininga. Við treystum á stuðning ykkar allra.

Ágætu kandídatar,

Ykkur, fjölskyldum ykkar og ástvinum óska ég til hamingju. Takk fyrir að hafa verið með okkur síðustu árin og fyrir að hafa valið HA sem ykkar háskóla. Ég minni samt á að þetta er áfangi í leit ykkar að góðu og innihaldsríku lífi – og leitin heldur áfram. Hvert sem sú leit ber ykkur óska ég ykkur góðs gengis í frekara námi eða starfi.