Heiðursdoktorar Háskólans á Akureyri

Háskólinn á Akureyri hefur veitt heiðursdoktorsnafnbót frá árinu 2000.

Doktorsnafnbót í heiðursskyni er æðsta viðurkenning sem Háskólinn á Akureyri veitir. Heiðursdoktorsnafnbót er veitt framúrskarandi einstaklingum sem viðurkenning fyrir langvarandi starf að vísindum, listum og menningu, eða fyrir sérstakt framlag til almannaheilla.

Herra Ólafur Ragnar Grímsson, 2022

Þann 30. september 2022 hlaut hr. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands heiðursdoktorsnafnbót á sviði félagsvísinda.

Herra Ólafur Ragnar Grímsson

Ólafur Ragnar Grímsson hefur markað djúp spor í Íslandssöguna á farsælum ferli sem fræðimaður, þjóðhöfðingi og alþjóðlegur stjórnmálamaður.

Ólafur Ragnar var brautryðjandi á sviði félagsvísinda á Íslandi og varð lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands 1970 og síðan prófessor þremur árum seinna. Hann haslaði sér snemma alþjóðlegan völl sem nafn innan stjórnmálafræðinnar og eftir hann liggja margar fræðigreinar í íslenskum og erlendum tímaritum.

Ólafur hefur ekki aðeins rannsakað stjórnmálin því þátttaka hans í þeim hefur einnig verið veruleg, bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Á sínum pólitíska ferli var Ólafur ritstjóri, þingmaður og ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins frá 1987 – 1995. Hann starfaði jafnframt á erlendum vettvangi og var meðal annars um árabil í forsvari fyrir alþjóðlegu þingmannasamtökin Parliamentarians for Global Action.

Forsetatíð Ólafs Ragnars var um margt sérstök og markaði tímamót á ýmsum sviðum. Ekki einungis sat hann lengur en áður hafði þekkst heldur mörkuðu ýmsar ákvarðanir hans og túlkun á stjórnskipuninni tímamót. Má í því sambandi nefna túlkun hans á ákvæðum stjórnarskrár um heimild forseta til að synja lögum staðfestingar.

Málefni Norðurslóða hafa lengi verið Ólafi Ragnari hugleikin og á umliðnum árum hefur hann verið í lykilhlutverki við að setja þá umræðu á dagskrá alþjóðasamfélagsins. Þar ber líklega hæst að hann er stofnandi Arctic Circle, stærsta og mikilvægasta vettvangs alþjóðlegrar umræðu um samvinnu og framtíð norðurslóða og í raun jarðarinnar allrar.

Háskólinn á Akureyri naut velvildar og stuðnings Ólafs Ragnars Grímssonar þegar skólinn markaði sér bás með áherslu á norðurslóðir, bæði meðan Ólafur var forseti og æ síðan. Þá er fræðileg nálgun á stjórnskipun og stjórnmál í víðum skilningi meðal helstu viðfangsefna fræðafólks á Hug- og félagsvísindasviði Háskólans, en eins og að ofan greinir eru það svið þar sem Ólafur hefur látið ríkulega að sér kveða. Það er því mjög við hæfi og mikill heiður fyrir skólann að veita Ólafi Ragnari heiðursdoktorsnafnbót í félagsvísindum.

Frú Vigdís Finnbogadóttir, 2019

Frú Vigdís Finnbogadóttir

Þann 8. nóvember 2019 hlaut frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands heiðursdoktorsnafnbót á sviði heilbrigðisvísinda.

Frú Vigdís Finnbogadóttir hefur haft mikil alþjóðleg áhrif með störfum sínum og hefur ávalt sýnt hlýju og ræktarsemi við æsku landsins. Heiðursdoktorsnafnbótina hlýtur hún fyrir víðtæk jákvæð samfélagsleg áhrif meðal annars á íslenska tungu, menningu og listir, jafnrétti og skógrækt, ásamt heilbrigðis- og líknarmálum.

Vigdís Finnbogadóttir fæddist í Reykjavík 15. apríl árið 1930. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949. Á árunum 1949 til 1953 stundaði Vigdís nám í frönsku og frönskum bókmenntum við Háskólann í Grenoble, síðar nam hún leiklistarsögu við Kaupmannahafnarháskóla. Vigdís útskrifaðist með BA gráðu í frönsku og ensku auk náms í kennslufræðum frá Háskóla Íslands.

Vigdís hefur stutt sérstaklega við hjúkrunarfræðinga og er heiðursfélagi í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga en móðir hennar var formaður Félags hjúkrunarkvenna um árabil.

Rögnvaldur Hannesson, 2019

Rögnvaldur Hannesson

Þann 10. janúar 2019 hlaut Rögnvaldur Hannesson, prófessor emeritus við háskólann í Bergen heiðursdoktorsnafnbók á sviði auðlindahagfræði.

Heiðursdoktorsnafnbótina hlaut Rögnvaldur fyrir störf sín á sviði auðlindahagfræði og sérstaklega fyrir rannsóknir og rit um fiskihagfræði og fiskveiðistjórnun. Rögnvaldur Hannesson fæddist að Svínhólum í Lóni 1943, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1963, „Fil. kand.“ prófi með hagfræði sem aðalgrein 1970 og „Fil.dr.“ prófi í hagfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð 1974 eftir framhaldsnám 1972-73 við University of British Columbia í Vancouver, Kanada. Heiti doktorsritgerðar Rögnvaldar var „Economics of Fisheries: Some Problems of Efficiency“.

Rögnvaldur er heimskunnur auðlindahagfræðingur sem samið hefur níu útgefnar bækur, ritstýrt nokkrum öðrum bókum og birt yfir 100 ritrýndar greinar og bókarkafla. Rögnvaldur var einn af fyrstu kennurum við Háskólann á Akureyri en hann kenndi fiskihagfræði við sjávarútvegsdeild skólans.

Nigel David Bankes, 2010

Þann 9. september 2010 hlaut Nigel David Bankes, prófessor við Lagadeild University of Calgary, heiðursdoktorsnafnbót við Hug- og félagsvísindasvið.

Heiðursdoktorsnafnbótina hlaut Nigel fyrir ómetanlegt framlag sitt á sviði heimskautaréttar og tengdra greina. Nigel Bankes hefur á liðnum árum getið sér orð sem einn helsti sérfræðingur á sviði alþjóðlegs umhverfis- og auðlindaréttar en hann er einnig þekktur fyrir framlag sitt á sviði mannréttinda frumbyggja.

Nigel hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín á sviði þjóðaréttar og ber þar hæst umhverfisverðlaun Kanada 2001 sem hann hlaut fyrir framlag sitt til Stokkhólmssáttmála Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Fræðigreinar Nigel Bankes á nefndum sviðum hafa birst í virtum ritrýndum tímaritum og árið 2008 hlaut hann Harold Tidswell Teaching Excellence verðlaunin ásamt Jonnette Watson Hamilton.

Nigel Bankes átti þátt í undirbúningi meistaranáms í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri (2007) og framlag hans til hinnar árlegu Heimskautaréttarráðstefnu (Polar Law Symposium) og The Polar Law Yearboook hefur skipt miklu. Heiðursdoktorsnafnbót til handa Nigel David Bankes er þakklætisvottur fyrir framlag hans til eflingar náms í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri. Afhending nafnbótarinnar fór fram við opnun hinnar árlegu heimskautaréttarráðstefnu (Polar Law Symposium) sem bar yfirskriftina Mannréttindi og stjórnfesta (Human Rights and Good Governance).

Shirin Ebadi, 2004

Shirin Ebadi

Þann 6. nóvember 2004 hlaut Shirin Ebadi, mannréttindalögfræðingur frá Íran, heiðursdoktorsnafnbót við HA.

Hún hefur barist fyrir mannréttindum, einkunn réttindum flóttafólks, kvenna og barna. Shirin Ebadi hlaut nafnbót heiðursdoktors við Félagsvísinda- og Lagadeild.

Haraldur Bessason, 2000

Haraldur Bessason var fyrsti heiðursdoktor við HA og tók við nafnbótinni 10. júní 2000.

Hann var rektor Háskólans á Akureyri frá stofnun skólans árið 1987 til ársins 1994.