Háskólahátíð 2025

ÁVARP REKTORS, ÁSLAUGAR ÁSGEIRSDÓTTUR, Á HÁSKÓLAHÁTÍÐ HÁSKÓLANS Á AKUREYRI, 13. OG 14. JÚNÍ 2025

Kæru kandídatar, aðstandendur, samstarfsfólk og góðvinir skólans.

Það er alltaf heiður að segja nokkur orð við brautskráningu kandídata frá Háskólanum á Akureyri. Að brautskrást úr námi á háskólastigi eru alltaf tímamót. Þessi dagur þýðir að þið – og aðstandendur ykkar – hafið náð settum markmiðum. Háskólahátíð Háskólans á Akureyri er sameiginleg hátíð okkar allra og það að vera hér í dag gerir háskólasamfélagið sýnilegt.
Um þessa helgi brautskráir Háskólinn á Akureyri 591 kandídat og er þetta stærsti brautskráningarhópurinn frá upphafi skólans. Þessi stóri hópur endurspeglar stöðugan vöxt skólans og fleiri hafa sótt um nám fyrir næsta ár en nokkru sinni fyrr.

Þetta er okkur mikið gleðiefni og sýnir að vinnan sem farið hefur fram undanfarin ár í að efla og styrkja nám og rannsóknir hefur skilað sér til þeirra sem eru að leita að áhugaverðu og krefjandi háskólanámi.

Námsformið hjá Háskólanum á Akureyri er fjölbreytt. Það er ljóst að sveigjanlega námið með lotum á Akureyri hentar fólki. Það gerir Háskólanum á Akureyri kleift að mennta fólk um allt land og einnig víða erlendis. Auk þess erum við með hóp af stúdentum sem eru hér á svæðinu og eru dugleg að gera þetta svæði að sínu með viðveru sinni.
Þið sem hér eruð í dag eruð að brautskrást úr framhaldsnámi skólans. Alls eruð þið 161 kandídat, sem á undanförnum árum hafið dýpkað þekkingu og eflt sérfræðikunnáttu, annað hvort til að gera betur í starfi eða að breyta til í starfi.

Vöxtur og styrking náms gerist ekki í tómarúmi og hér vil ég beina þökkum mínum til kennara og starfsfólks skólans. Það leggur metnað í að skapa umgjörð fyrir kennslu og skapa nýja þekkingu. Það er ykkur að þakka að Háskólinn á Akureyri hefur áunnið sér traust, bæði meðal stúdenta og samfélagsins sem við þjónum.
Háskóli er ekki einungis vettvangur kennslu og rannsókna – hann er líka samfélag. Háskólinn á Akureyri er staðsettur utan höfuðborgarsvæðisins og því gegnum við mikilvægu hlutverki á Akureyri, á Norðurlandi og á landsbyggðinni allri. Á þeim nærri 38 árum sem skólinn hefur starfað hefur hér verið byggt upp sjálfstætt þekkingarsamfélag. Það samfélag þjónar öllum byggðum landsins og gerði íbúum dreifðari byggða kleift að sækja sér háskólanám.

Það skiptir máli – ekki aðeins fyrir svæðið heldur fyrir landið allt. Við erum stærsti skólinn á landinu sem menntar fólk í heimabyggð. Þannig tryggjum við að ný þekking dreifist um landið og sé ekki bara bundin við höfuðborgarsvæðið. Það er mikilvægt fyrir byggð um landið allt að þekking og nýsköpun fái að lifa og dafna alls staðar. Í viðræðum um hugsanlega sameiningu við Bifröst höfum við lagt áherslu á að hér starfi áfram landsbyggðarháskóli sem stuðli að búfestu á landinu öllu.

Ein birtingarmynd samfélagsins hér hjá Háskólanum á Akureyri eru þær ráðstefnur og viðburðir sem við stöndum reglulega fyrir. Með þeim opnum við dyr fyrir samtal, fyrir þekkingarmiðlun og nýsköpun sem eflir tengsl á milli fræða og samfélags.

Á skólaárinu sem er að líða má til dæmis nefna nýlega ráðstefnu í samvinnu við Utanríkisráðuneytið sem bar titilinn Norðurslóðir í breyttum heimi. Þar var rætt um minnkandi öryggiskennd í þessum víðferma heimshluta sem er á stærð við Afríku og það lykilhlutverk sem Ísland gegnir.
Einnig var haldin ráðstefna um gæði kennslu, þar sem fræðafólk ræddi áskoranir nútímans og mikilvægi nýrra kennsluaðferða við að miðla þekkingu í síbreytilegum heimi. Sjónaukinn – hin árlega ráðstefna Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs lagði áherslu á eflingu farsældar og hvernig mætti tryggja að allir einstaklingar – óháð getu – hafi tækifæri til að leggja sitt til samfélagsins. Að lokum má einnig nefna ráðstefnuna Löggæsla og samfélagið, sem haldin er á hverju hausti og hefur skapað mikilvægan vettvang fyrir umræður um öryggi, traust og þróun í samskiptum almennings og lögreglu.

Allt eru þetta dæmi um hvernig háskóli er ekki einungis til staðar fyrir stúdenta og fræðafólk – heldur fyrir samfélagið allt.
Háskólinn á Akureyri og starfsfólk hans leggur þannig áherslu á að vera virkur þátttakandi í samtímanum . Það gerir hann með því að miðla rannsóknum bæði út frá fræðilegum forsendum og hagnýtum þörfum.

Kennarar og starfsfólk skólans mynda líka samfélag, þar sem þekking og kennsla er í beinu sambandi við stúdenta skólans. Þá skiptir ekki hvort þið eruð í fjarnámi með lotum eða eruð búsett á Akureyri og mætið reglulega í skólann. Báðir hópar stúdenta mynda sín samfélög, á netinu, á staðnum og í lotum þegar þið komið norður. Í lotum vinnið þið að verkefnum, ræðið fræðin og kynnist hvort öðru. Ég vona að sem flest ykkar brautskráist með nýja vini og framtíðarkollega í farteskinu.
Saman mynda svo kennarar, stúdentar og starfsfólk þekkingarsamfélag sem er mikilvægt fyrir Ísland allt. Er það lykillinn að frekari þróun háskólans að við höldum áfram að eflast og stækka og verðum vonandi annar stærsti háskóli Íslands í framtíðinni.

Kæru kandídatar, þið hafið svo sannarlega verið mikilvægur hluti af samfélagi okkar, hvar sem þið búið á landinu. Ég vona að þið brautskráist héðan ánægð og full trausts með þá þekkingu sem þið hafið aflað ykkur. Þið hafið ekki aðeins lært – heldur einnig tekið þátt í uppbyggingu námssamfélagsins. Stúdentar sitja í mikilvægum nefndum og ráðum og eiga meðal annars sæti á deildarfundum og í háskólaráði. Þannig er tryggt að þið hafið áhrif á skólann.

Þeir stúdentar sem taka þetta verkefni að sér leggja á sig mikla vinnu samhliða námi með því að starfa í stúdentafélögum, sinna hagsmunagæslu og halda utan um fjölbreytt félagslíf. Störf þessara einstaklinga gera háskólann að ykkar háskóla. Á þessum tímamótum vil ég sérstaklega þakka öllum þeim stúdentum sem hafa sýnt frumkvæði og ábyrgð með því að taka virkan þátt í lífi og starfi skólans, unnið að framförum og tryggt öflugt félagslíf. Einnig hefur stór hópur verið rödd Háskólans á Akureyri út á við, kynnt námið okkar og tryggt að verðandi stúdentar hugsi til okkar sem valmöguleika. Þetta skiptir okkur sköpum og við tökum þessari vinnu ekki sem sjálfsögðum hlut. Við vonum einnig að þið sem eruð að brautskrást í dag talið um Háskólann á Akureyri sem góðan kost til náms. Fyrir hönd Háskólans á Akureyri og allra sem starfa hér vil ég þakka ykkur innilega fyrir allt það sem þið gerðuð til að bæta háskólann. Það er nefnilega alltaf hægt að gera betur. Ég legg til að við klöppum fyrir þessu frábæra fólki.

Kæru brautskráningarnemar – framtíðin sem bíður ykkar er ekki endilega einföld. En hún er opin og býður upp á tækifæri til að nýta þekkinguna á fjölbreyttari hátt en ykkur órar fyrir. Það er ykkar að móta þá framtíð sem þið viljið og hafa áhrif á þeim vettvangi sem þið hafið valið ykkur. Ég vona að þið gerið það af ábyrgð og látið gott af ykkur leiða.

Háskólinn á Akureyri er stoltur af þeim sem brautskrást héðan. Við vitum að þið eigið eftir að láta til ykkar taka, hvert sem leið ykkar liggur.

Takk fyrir að hafa verið hluti af samfélaginu okkar.

Gangi ykkur vel og hjartanlega til hamingju.